Hraun ógnar byggð á Hawaii

Nú ætla ég bregða mér til Hawaiieyja þar sem staðið hefur yfir óvenju lífseigt dyngjugos allt frá árinu 1983 sem sér ekki fyrir endann á. Við fáum öðru hverju fréttir af hraunrennsli frá þessu gosi. Síðast nú í september þegar hraunstraumur var farinn að nálgast þorp og og þéttbýlissvæði austast á austustu eynni, Big Island, en þar er einnig að finna elddyngjuna miklu Mauna Loa. Ógnin reyndist þó ekki alveg eins yfirvofandi og óttast var því hraunið skreið lítið fram næstu daga á eftir en breiddi þeim mun meira úr sér í hæðum fyrir ofan. Nú virðist hinsvegar vera komið að þessu því mjó hrauntunga hefur fundið sér leið niður að efstu mannvirkjum sem tengjast byggðinni.

Hawaii kort

Það eru viss líkindi með þessu gosi og Holuhraunsgosinu okkar því á Hawaii er svokallaður heitur reitur eða möttulstrókur sem ber ábyrgð á kvikuuppstreymi djúpt úr iðrum jarðar. Ólíkt og á Íslandi þá eru ekki nein flekaskil við Hawaii en langtímaþróunin er sú að Kyrrahafsflekinn færist til norðvesturs yfir heita möttulstrókinn sem þarna er undir sem þýðir að eldvirkni eyjanna færist til suðausturs á löngu tímabili. Eldvirknin er því mest þarna á austustu eyjunni og en framtíðinni munu nýjar eyjar myndast austan við þessa eyju en þær elstu sem eru vestast eyðast smám saman.

Allt frá því gosið hófst á sínum tíma hefur hraunrennsli aðallega lekið sem helluhraun suðaustur í átt til sjávar úr gíg sem heitir því skondna nafni Puu Oo í Kilauea eldstöðinni. Í árslok 2012 var þekja runninna hrauna komin í 125,5 ferkílómetra og magnið áætlað um 4 ferkílómetrar sem gæti verið svona 6 sinnum meira en komið hefur upp við Holuhraun á tveimur mánuðum. Hraunið hafði þarna eyðilagt 214 hús og önnur mannvirki. Munar það mestu um strjála íbúðabyggð, Royal Gardens, sem nú er algerlega horfinn en ég bloggaði einmitt um það þegar síðasta húsið þar hvarf (sjá: Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii)

Hraunkort Hawaii

Seint í júní í sumar urðu svo þau umskipti í hraunrennsli að í stað þess að streyma í suðaustur til sjávar þá fann hraunið sér nýja leið eftir sprungukerfi sem leitt hefur þunnan hraunstrauminn lengst í austur og norðaustur og ógnar nú byggðinni sem fram að þessu hafði verið utan hættusvæðis. Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir íbúa því óttast er að hraunið gæti haldið lengi áfram að streyma í þessa átt og ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Allt gerist þetta þó í nokkrum rólegheitum enda ekki um kraftmikinn hraunstraum að ræða auk þess sem Pahoa-byggðin er ekki veigamikil. Þetta má sjá hér á kortunum frá Hawaiian Volcano Observatory þar sem staðan þann 24. október er útlistuð.

Loftmynd Hawaii 24.okt

Á loftmyndum sem hér fylgja frá 24. október sést framrás hraunsins í átt að Pahoa byggðinni. Síðustu fréttir herma að hraunið sé farið að renna yfir Cemetery Road rétt við svokallaða Transfer station sem mér skilst að sé sorpflokkunarstöð og hljóta starfsmenn þar að vera farnir að hugsa sér til hreyfings. Tæpur kílómetri er þó í meginbyggð Pahoa en þar fyrir neðan og allt niður að strönd eru svo ýmis nýleg íbúðahverfi sem hafa verið risið á þessu horni eyjarinnar sem eitt eldvirkasta svæði í heimi.

Pahoa 24.okt

Gufubólstrar og kunnugleg blámóða frá hrauninu sem streymir frá Puu Oo gígnum sem merktur er inn efst á myndina.

- - - - - -

Nánari fréttir og kort frá Hawaiian Volcano Obsevatory: http://hvo.wr.usgs.gov/maps/
Myndir frá Hawaiian Volcano Obsevatory:
http://hvo.wr.usgs.gov/multimedia/index.php?newSearch=true&display=custom&volcano=1&resultsPerPage=20
 

Hringurinn umhverfis Mt. Egmont

Á vefnum Earth Observaory sem er á vegum NASA fann ég um daginn þessa áhugverðu mynd sem tekin var úr gervitungli á flugi þess yfir Nýja Sjálandi. Þarna getur að líta eldkeiluna Mt. Egmont sem stendur í miðjunni á furðu reglulega hringlaga svæði sem er dekkra en landssvæðið allt þar í kring. Svæðið umhverfis eldfjallið er merkt Egmont National Park eða Egmont þjóðgarður. Fyrir utan eitt stórt útbrot á einni hlið hringsvæðisins er þetta eiginlega full reglulegt fyrirbæri til að geta verið náttúrulegt - eða hvað? Og hvað er þetta? Hraun, skógur, eða eitthvað annað – ummerki geimvera kannski? Nánar um það undir myndinni.

NS MtEgmonthringur

Jú, auðvitað er það mannskepnan sem kemur hér við sögu, náttúran kann ekki að búa til svona regluleg hringlaga svæði á yfirborði jarðar. Um aldamótin 1900 var sem sagt ákveðið vernda allt skógi vaxið svæði innan 10 kílómetra frá toppi fjallsins en það má gefa sér að eldfjallajarðvegurinn þarna sé sérlega næringarríkur og eftirsóttur fyrir hvers konar ræktun. Menn hafa sjálfsagt ekkert verið að spá í það þarna fyrir rúmum 100 árum hvort þetta sé fallegt eða ekki séð utan úr geimnum en svona lítur svæðið allavega út í dag 114 árum síðar.

Sé farið nær yfirborðinu sést þetta betur, með hjálp Google maps.

MtEgmont

Ljósmyndin hér að neðan er þó kannski best. (Fengin af vefnum www.bellblock.co.nz)

MtEgm

Annars er um þetta eldfjall að segja að hæð þess er 2.518 metrar og á máli frumbyggja nefnist það Taranaki. Þetta þykir með allra reglulegustu eldkeilum jarðar og var reyndar notað sem staðgengill fyrir hið japanska Fuji-fjall í kvikmyndinni the Last Samurai. Þetta er virkt eldfjall sem bærði síðast á sér árið 1854 þegar hraungúll myndaðist sem átti síðar eftir að hrynja niður af toppi fjallsins. Nú er talið að minniháttar atburðir eigi sér stað að meðaltali á 90 ára fresti en búast megi við meiriháttar viðburðum á um 500 ára fresti sem gæti skapað hættu vegna gusthlaupa (Pyroclastic flow). Síðasti slíki atburður varð árið 1655, rúmum 10 árum eftir að fyrsti Evrópumaðurinn leit Nýja Sjáland fyrst augum. Landið var þó meira og minna óþekkt þar til Kapteinn Cook mætti á svæðið rúmri öld síðar en hann nefndi einmitt fjallið Mt. Egmont árið 1770 eftir helsta stuðningsmanni að leitinni að risastóra meginlandinu sem menn töldu þá að væri að finna sunnarlega á suðurhveli jarðar. 

- - - -

Heimildir:
http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=84536
http://en.wikipedia.org/wiki/Mount_Taranaki


Að lenda í Háskólaritgerð

Eins og þeir vita sem þekkja mína bloggsíðu, fjalla ég aðallega um himinn og jörð en alls ekki allt þar á milli. Og þar sem ég er svokallaður grafískur hönnuður þá á ég það til að útbúa mínar eigin myndir, kort og línurit til hliðar við það sem ég skrifa um. Eftir sjö ára bloggstarf er því komið talsvert magn af texta og myndum á veraldarvefinn sem maður ber einhverskonar ábyrgð á. Ég lendi til dæmis oft í því að ef ég gúggla einhver náttúrufyrirbæri, þá hitti ég sjálfan mig fyrir í stórum stíl. Þetta á sérstaklega við ef ég leita eftir myndum á gúgglinu. Sumar af þessum myndum öðlast öðlast jafnvel sjálfstætt framhaldslíf langt út fyrir það sem þeim er ætlað og úr samhengi við upphaflegt markmið.

Ritgerð HraunHáskólaritgerðin
Fyrir stutt brá mér nokkuð í brún þegar ég var að fletta mig í gegnum Háskólaritgerð sem ég fann á netinu. Ritgerðin er eftir Daníel Pál Jónasson, dagsett í maí 2012 og nefnist: Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða. Þetta er auðvitað hin merkasta ritgerð og vissulega á mínu áhugasviði. Ég ætla ekki að fara nánar út í efni ritgerðarinnar sem er upp á 106 síður (með öllu). Nema hvað þegar kom að bls. 84 í pdf-skjalinu þá kannaðist ég allt í einu við kort sem ég hafði gert á sínum tíma þegar ég var einmitt að velta fyrir mér hvað gerðist ef ógnarmikil gossprunga með miklu hraunrennsli opnaðist rétt utan við borgina, í bloggfærslu sem nefnist Heiðmerkureldar. Kortið mitt er birt þarna í ritgerðinni til að varpa ljósi á (misgóða) umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um hugsanlegar afleiðingar eldgoss í nágrenni borgarinnar. Kort ritgerðRitgerðarhöfundur sýnir mér þó vissan skilning og nefnir að ég hafi alla fyrirvara á í sambandi við myndina. Upphaflegur tilgangur minn með þessari mynd var reyndar ekki sá að sýna hvað líklegt væri að gæti gerst, heldur öllu frekar sá að finna út hversu stór sprunga með hraunflæði þyrfti að opnast ofan byggðar svo að hraunrennsli næði að umkringja höfuðborgarsvæðið. Þetta var í framhaldi af umræðu vegna jarðskjálfta og landriss við Krísuvík en þá hafði jarðfræðingurinn og bloggfélagi vor Haraldur Sig. einmitt verið að fjalla um hættuna af mögulegu gosi út frá eldstöðvakerfi Krísuvíkur og bent á að sprungusvæði tengt því næði að Elliðavatni sem skapaði vissa hættu á hraunrennsli úr þeirri átt (sjá hér). Þessa atburðarrás langaði mig til að kanna betur og einnig hvað þyrfti til svo að hraun næði að umkringja höfuðborgarsvæðið - sem ég var þó allan tíman meðvitaður um að væri afskaplega ólíklegt.

Það sem kemur fram í Ritgerðinni varðandi þetta er eftirfarandi:

„8.1.3 Fréttaumfjöllun um nýlegt landris í Krýsuvík

Miklar umræður höfðu skapast á bloggsíðum og á Facebook í kjölfar frétta en þar höfðu ýmsir reynt að áætla hvar gos myndi koma upp og hvert það myndi renna. Emil Hannes Valgeirsson, grafískur hönnuður, hafði áætluð gossprungu eftir endilöngu höfuðborgarsvæðinu og um það bil í framhaldi af gossprungurein Krýsuvíkurelda í Krýsuvíkurkerfinu (2012). Var mynd hans (mynd 40) vægast sagt áhrifarík en henni var deilt á milli fjölda fólks á Facebook og meðal annars höfundi þessarar rannsóknarritgerðar. Emil tilgreindi í umfjöllun um myndina að líkurnar á atburðum á borð við þennan, að 10 kílómetra gossprunga opnist nærri Reykjavík, væru litlar og einnig að ólíklegt væri að gossprungan myndi ná svona langt í norðaustur. Sagði Emil enn fremur: „Ég vil hafa alla fyrirvara á þessu og vona að ég sé ekki að skapa óþarfa hræðslu eða koma einhverjum í uppnám.“ (Emil Hannes Valgeirsson, 2012).
Lesa má úr umfjöllun Emils og athugasemdum að hann gerði sér vel grein fyrir annmörkum kortsins. Eins var ekki víst að hann hafði ætlað myndinni þessa dreifingu sem hún hlaut á samskiptavefjum. Af dreifingunni má þó draga þá ályktun að myndræn framsetning getur valdið ótta og forvitni hjá fólki og því er þetta hraunflæðilíkan aðeins gagnrýnt og tengt umfjöllun um móbergsmyndanir í næsta kafla. Er ágætt að almenningur geri sér grein fyrir hættunni sem skapast geta af völdum eldgosa á Reykjanesi en mat á þeirri hættu þarf að vera stutt rökum.

Ég get alveg tekið undir gagnrýni á þessa mynd mína og að svona myndræn framsetning geti orkað tvímælis og skapað óþarfa ótta. Kortið var vissulega teiknað af nokkurri fífldirfsku og af meira kappi en forsjá, en það er nú reyndar oft eðli bloggheima. Í ritgerðinni kemur fram í framhaldi af þessu að leiða megi líkur að því að fá, lítil eða engin eldgos hafi komið upp á svæðinu norðaustur frá Búrfell til Elliðavatns, síðustu tugi þúsunda ára. Einnig kom fram í umræðum við bloggfærslu mína að ólíklegt er að hraun gætu runnið milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar vegna landsigs eftir að síðustu hraun fóru þar um fyrir nokkur þúsund árum.


Af fífldirfsku á Fimmvörðuhálsi

En það er meira í þessari ritgerð sem vakti sérstakan áhuga hjá mér og þá vindum við kvæði okkar í kross. Á bls 93 í ritgerðinni játar höfundur á sjálfan sig fífldirfsku við hraunjaðarinn þegar fjörið á Fimmvörðuhálsi stóð sem hæst. Hann birtir mynd af ferðamönnum við hraunkantinn og einnig sérstaka mynd af sjálfum sér haldandi á kampavínsflösku rétt fyrir framan glóandi hraunið. Þarna kannast ég einmitt við kauða því sjálfur var ég staddur þarna á sama stað á sama tíma ásamt fjölda annarra sem stóðu þarna rétt við glóandi hraunkvikuna sem hafði brotist fram úr hrauninu. Enginn gerði sér grein fyrir hættunni sem þarna skapaðist en stuttu síðar flúði fólk í ofboði þegar snjólagið undir hraunelfunni snöggsauð með sprengingum og látum. Til allrar lukku var það engum að fjörtjóni. Meðfylgjandi 3 myndir eru teknar úr ritgerðinni.

Fimmvörðuháls DPJ
Ég bloggaði einmitt um þessa gosferð og þetta atvik á sínum tíma og birti myndir (sjá: Myndir af vettvangi). Í annarri bloggfærslu sem ég kallaði Goslokaskýrsla 1 birti ég svo mynd af tveimur fáklæddum sprelligosum við hraunkantinn, sem vöktu sérstaka athygli mína og viðstaddra og ekki að ástæðulausu. Sá til vinstri er greinilega téður höfundur ritgerðarinnar sem ég var að fjalla um. Fífldirfskan er þar með komin í hring.
Eldgosar

Það er nú ekki illa meint hjá mér að vera tengja þetta saman með þessum hætti en ég stóðst ekki freistinguna. Ritgerð Daníels Páls er hinsvegar mjög áhugaverð og fræðandi. Í niðurlagi hennar eru talin upp ýmis atriði sem rannsaka þyrfti betur varðandi hættu og óþægindi vegna hugsanlegra eldsumbrota nálægt höfuðborgarsvæðinu enda full ástæða til, þótt stundum finnist mér fólk ofmeta hættuna þegar það talar um flóttaleiðir út úr borginni. Ég tel mig allavega vera nokkuð öruggan hér í Vesturbænum. 

Tengill á ritgerðina, Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða http://skemman.is/handle/1946/11887

 


Mánaðar- og árshitasúluritið

Þá er komin ný uppfærsla af súluritinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík. Samskonar línurit hef ég birt nokkrum sinnum á árinu, eins og meiningin upphaflega var. Ég vissi auðvitað ekki fyrirfram hvernig hitafar ársins yrði en það hefur reynst mun hlýrra en árið í fyrra og gott betur. Sjö af mánuðum níu sem liðnir eru af árinu eru fyrir ofan meðalhita síðustu tíu ára, ágúst var alveg í meðaltalinu en júlí örlítið fyrir neðan. Allir mánuðirnir eru síðan vel fyrir ofan hið opinbera „kalda“ viðmiðunartímabil sem nær yfir árin 1961-1990.

Þetta má sjá á súluritinu þar sem fjólubláu súlurnar standa fyrir þá mánuði sem liðnir eru af árinu en til samanburðar eru bláu súlurnar sem sýna meðalhita mánaða út frá „kalda“ meðaltalinu 1961-1990. Þær rauðu sýna meðalhita síðustu 10 ára. Súlurnar fimm lengst hægra megin eru svo þarna til að spá fyrir um mögulega lokaútkomu ársins. Tónuðu súlurnar tvær sem þar eru, sýna hvert stefnir með árshitann í Reykjavík eftir því hvort restin verður annarsvegar í kalda meðaltalinu og hinsvegar í hinu mun hlýrra meðaltali síðustu 10 ára. Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.

Meðalhiti Rvik 9 2014
Nú ætti að vera ljóst að allt stefnir í hlýtt ár hér í Reykjavík og jafnvel eitt af þeim allra hlýjustu samkvæmt mínum útreikningum. Ef meðalhitinn það sem eftir er verður ekki nema í kalda meðaltalinu, þá endar meðalhitinn í 5,7 stigum og árið það þriðja hlýjasta á þessari öld. Ef meðalhitinn nær að halda í við 10 ára meðaltalið út árið þá verður meðalhitinn 5,9 stig sem er jafn meðalhitanum árið 2010 og tveimur öðrum árum á hlýindaskeiðinu á síðustu öld, 1939 og 1941. Aðeins árið 2003 væri þá hlýrra en þá var meðalhitin 6,1 stig. Við höfum þó í huga að dálítill óvissa háir samanburði milli þessara tveggja hlýindatímabila.

Ef hitinn heldur áfram að gera betur en 10 ára meðaltalið þá má alveg gæla við möguleikann á að árshitametið 6,1 stig frá 2003 verði jafnað – eða jafnvel slegið, en þá þarf reyndar að vera ansi hlýtt. Í versta falli gæti meðalhiti ársins þó kannski dottið niður í svona 5,4 stig sem er jafnt 10 ára meðaltalinu. En miðað við frammistöðu ársins það sem af er, bendir ekkert til þess að það sé að kólna svona yfirleitt. Nema hvað? Þegar þetta er skrifað að kvöldi 3. október er akkúrat komin slydda hér í Vesturbænum sem reyndar gengur fljótt yfir.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband