Um hlýindin fyrir nokkur þúsund árum

Það þykir nokkuð ljóst að fyrir svona 6-9 þúsund árum, skömmu eftir síðasta jökulskeið, var loftslag mjög hlýtt á norðurhveli og reyndar á jörðinni í heild. Þá var enginn Vatnajökull hér hjá okkur og jöklar almennt ekki nema á hæstu fjöllum á Íslandi. Norður-Íshafið hefur þá væntanlega verið alveg íslaust að sumarlagi og Grænlandjökull eitthvað minni. Eftir því sem tíminn leið kólnaði í lofti og stækkuðu þá jöklarnir smám saman en með ýmsum sveiflum þó, norðurhjarinn varð að túndru og hafísinn jókst. Við landnám höfðu stóru jöklarnir hér á landi þegar myndast en voru þó smærri en í dag. Stærstir urðu jöklarnir hér skömmu fyrir aldamótin 1900 eftir að hafa aukist hratt á tímum litlu ísaldarinnar. Síðan þá hefur þróunin heldur betur snúist við, eins og við þekkjum.

Öræfajökull

En af hverju var svona hlýtt á fyrstu árþúsundunum eftir síðasta stóra jökulskeið? Ekki óku steinaldarmenn um á jeppum og engar voru reikspúandi verksmiðjurnar. Og stóra spurningin: Ef þessi fornu hlýindi voru af náttúrulegum völdum, geta núverandi hlýindi þá ekki verið það einnig?

Til að geta sagt eitthvað um það er alveg bráðnauðsynlegt að taka tillit til breytilegrar afstöðu jarðarinnar gagnvart sólu og þeim sveiflum sem þar eru í gangi. Fyrir það fyrsta þá sveiflast halli jarðar fram og til baka á um 40 þúsund árum frá því að vera mestur um 24,3° og í það að vera minnstur 22°. Nú um stundir er hallinn um 23,5° og fer hægt minnkandi með hverju árþúsundi sem þýðir að jörðin er enn að rétta úr sér. Þetta hefur áhrif á staðsetningu heimskautsbaugsins sem nú liggur um Grímsey. Þegar halli jarðar var meiri fyrir nokkur þúsund árum var heimskautsbaugurinn sunnar með þeim afleiðingum að sumrin voru bjartari hér á landi og skammdegið að sama skapi dimmara - árstíðarmunur þar með meiri. Annar mikilvægur þáttur er pólveltan (skopparakringluáhrif) sem sveiflast einn hring á um 26 þúsund árum og ræður því hvort það er norður- eða suðurhvel sem hallast að sólu þegar jörðin er næst henni. Nú um stundir er jörðin næst sólu um hávetur á norðurhveli og fjærst henni að sumarlagi. Fleiri sveiflur með enn lengri tíðni koma einnig til og flækja málið enn frekar. Þar á meðal 100 þúsund ára sveifla í lögun sporbrautar jarðar en sú tíðni fer nokkuð vel saman við tíðni jökulskeiða. Samanlagt ýmist vinna þessar afstöðusveiflur með eða á móti hverri annarri á langtímaskala með mismunandi sólgeislunaráhrifum á breiddargráður jarðar. (Svakalega ætlar þetta að vera snúið) Þetta leiðir okkur þá að því sem ég ætla að koma að.

Sólgeislun

Þróun á inngeislun sólar á mismundandi breiddargráðum jarðar
Myndin hér að ofan er fengin úr rannsókn Marcott et al., 2013. og sýnir hvernig inngeislun sólar hefur þróast á mismunandi breiddargráðum jarðar síðustu 11.500 ár. Efsta myndin sýnir þróunina í desembermánuði og virðist þá sólgeislun hafa fara vaxandi með tímanum við miðbaug og á suðurhveli.
Miðjumyndin hefur síðan heilmikið að segja fyrir okkur því greinilegt er að sólgeislun að sumri hefur farið minnkandi á síðustu 8 þúsund árum á norðurhveli. Fyrir 8-10 þúsund árum hefur sólin þá risið heldur hærra sumardögum en hún gerir í dag og næturnar verið enn bjartari - með víðtækum áhrifum á loftslag á norðurslóðum enda vann þessi mikla sumarsól gegn myndun jökla og hafíss sem aftur hafði víðtæk áhrif á loftslag jarðar í heild.

Samanlögð áhrif fyrir jörðina í heild fyrir allt árið eru svo sýnd á neðstu myndinni og þá kemur fram enn eitt mynstrið. Bæði pólasvæðin njóta greinilega talsvert minni sólgeislunar eftir því sem líður á tímabilið en lítilsháttar aukning á sólgeislun er nærri miðbaug með tímanum. Þróunin þar er þó ekki nærri eins afdrifarík og hún er á hæstu og lægstu breiddargráðum.

Það er nokkuð góð sátt meðal vísindamanna um að þessi mikla og aukna inngeislun á norðurhveli að sumarlagi og aukin inngeislun yfir árið í heild á báðum pólum fyrir allt árið, hafi á sínum nægt til að binda enda á síðasta jökulskeið. Mestu ræður að þá fóru nokkuð vel saman, hámarkshalli jarðar og sólnánd að sumarlagi á norðurhveli. Sólgeislunin var raunar það öflug á norðurhveli að sumarlagi fyrir um 10 þúsund árum að ísaldarjöklar hurfu að mestu, fyrir utan Grænlandsjökul. Þróunin hefur síðan þá verið sumarsólinni í óhag á Norðurslóðum. Sú langtímaþróun hefur ekki snúist við og ekkert í henni sem gefur tilefni til þeirrar hnatthlýnunar sem átt hefur sér stað á síðustu 100 árum. Skýringar á þeirri hlýnun þarf því að leita annarstaðar enda um mun styttra tímabil að ræða en þessar þúsunda ára sveiflur gefa tilefni til.

Megin tilgangur rannsóknar Marcotts og félaga sem minnst var á hér að ofan var annars sá að að rannsaka hitaþróun jarðar 11 þúsund ár aftur í tímann, en það er tímabilið frá lokum síðasta jökulskeiðs og kallast Holocene (eða bara nútími). Þetta var gert út frá fjölda gagna og gagnaraða sem fyrir hendi eru, allt frá ískjörnum á hájöklum og niður í setlög regindjúpanna ásamt allskonar lífrænum gögnum. Út úr því kemur blái ferillinn á línuritinu hér að neðan sem sýnir nokkuð samfellda kólnun síðustu 5000 ár, þar til snögghlýnar á ný sem endar á rauðu striki upp í hæstu hitahæðir, en þá hafa beinar hitaskráningar tekið við.

Hitalínurit Holocene

Samkvæmt þessum niðurstöðum og línuritinu er meðalhiti jarðar nú um stundir hærri en hann hefur áður verið frá lokum síðasta jökulskeiðs þrátt fyrir neikvæða langtímaþróun í afstöðu jarðar gagnvart sólu. Það tekur sinn tíma fyrir ís, jökla, sjávarhæð og fleira að bregðast við þessum auknum hlýindum. Jöklar hér á landi eru til dæmis bara rétt farnir að láta á sjá en eiga varla séns til lengri tíma við óbreytt hitastig. Séu þessi núverandi hlýindi að mestu af mannavöldum eru litlar líkur á að þetta snúist við á næstunni, heldur þvert móti, hlýnunin gæti bætt öðru eins við sig og jafnvel gott betur á komandi tímum. Menn geta þó alltaf gert sér vonir um að náttúran sjálf sé eitthvað að leggja til í þessa hlýnun en framhaldið ræðst vissulega af þeirri hlutdeild.

Sjá umfjöllun um þessa rannsókn á Real Climate (The end of Holocene): http://www.realclimate.org/index.php/archives/2013/09/paleoclimate-the-end-of-the-holocene/


Kuldi og ekki hlýjasta árið

Jæja. Það fer þá þannig. Kuldatíðin nú í desember kemur í veg fyrir að árið 2014 nái titlinum: Hlýjasta árið í Reykjavík, sem góðar líkur voru á að gæti gerst. Til að slá út ársmetið hefði meðalhitinn nú í desember þurft að ná sirka 1,2 stigum sem er ekkert mjög óvenjulegt hin síðari ár. Meðalhitinn í desember árið 2012 var til dæmis 1,2 stig. Árin 2005, 2006 og 2007 voru öll fyrir ofan þessa tölu og desember 2002 var metmánuður þegar meðalhitinn var 4,5 stig.
Desemberhlýindi eru kannski eitthvað að gefa eftir miðað við fyrsta áratug þessarar aldar. Árið 2011 var meðalhitinn -2,0 stig og hafði mánuðurinn þá ekki verið svona kaldur frá 1981 (-2,2 stig). Nú er hins vegar spurning hvort núverandi desember slái jafnvel út báða þessa mánuði og verði sá kaldasti síðan 1973 þegar meðalhitinn var -3,7 stig. Við förum þó varla að ógna þeim mánuði hvað kulda varðar.

Þó ég sé nú alltaf dálítið spenntur fyrir almennilegum snjóþyngslum og frosthörkum þá veldur þessi kuldalega frammistaða mánaðarins mér vissum vonbrigðum, enda finnst mér, sem einlægum veðuráhugamanni, alltaf áhugavert að fá góð met. Ekki síst árshitamet. Frammistaða þessa lokamánaðar ársins er reyndar dálítið dæmigerð og minnir jafnvel á frammistöðu íslenskra boltalandsliða á ögurstundu þegar allar varnir vilja bresta í lokin. Árið 2014 hafði með öflugum varnarleik fram að þessu náð að halda köldum norðanáttum vel í skefjum nánast allt árið, þar til nú í lokin að allt opnast upp á gátt fyrir ísköldu heimskautalofti trekk í trekk.

Hlýjustu árin í ReykjavíkEn hvað um það. Árið 2014 verður samt í flokki hlýjustu ára. Meðalhitinn í Reykjavík gæti orðið um 5,8 stig þótt almennilegir kuldar haldi áfram. Aðeins fjögur ár eru skráð hlýrri. Meðalhiti áranna 1939, 1941 og 2010 var 5,9 stig og vel líklegt að 2014 bætist í þann flokk og gæti jafnvel náð 6 stigum ef frostin linast að ráði. Þá er bara eftir árið 2003 með sinn meðalhita upp á 6,1 stig og verður eitt um það met eitthvað áfram að minnsta kosti. Þetta má sjá á myndinni hér til hliðar þar sem hlýjustu árin í Reykjavík eru útlistuð.

Hvernig árið verður svo túlkað þegar kemur að uppgjöri fer svo að venju eftir því hvar menn eru staddir á pólitíska barómetinu í loftslagsmálum. Hitamet, eða ekki hitamet, á Íslandi vegur reyndar ósköp létt á heimsmælikvarða. Þeim mælikvarða er þó vel fylgst með um þessar mundir því meðalhiti jarðar er við það allra hæsta sem mælst hefur. Heimsmeistaratitill gæti því hlotnast árinu 2014 nema það glutri því niður á lokasprettinum eins og hér heima.


Stjörnumótíf við Kirkjufellsfoss

Þetta fyrsta orð í fyrirsögninni er ekki gott orð og hefur kannski ekki verið notað áður. En hvað um það? Íslensk náttúra þykir einstaklega myndræn og framandi og hefur vakið sífellt meiri athygli á undanförnum árum. Landið hefur verið nefnt draumaland ljósmyndara þar sem tiltölulega auðvelt er að nálgast ljósmyndamótíf sem eru engu öðru lík á heimsvísu. Það er ekki bara aukin dreifing ljósmynda í gegnum netheima sem hjálpar þarna til því á sama tíma hefur stafrænni ljósmyndatækni fleygt mjög fram að ógleymdri eftirvinnslu í myndvinnsluforritum sem getur gert hinar grámuskulegustu myndir að útópískum listaverkum. Atvinnuljósmyndarinn hefur í leiðinni fengið harða samkeppni frá vel græjuðum amatörum með gott auga fyrir myndbyggingu, litum og góðum mótífum.

Kirkjufell I
Sum myndefnin koma þó fram oftar en önnur eins og verða vill og nýir staðir sem áður voru lítt þekktir slá í gegn. Óhætt er að segja að Kirkjufellsfoss sé einn slíkra staða. Kirkjufellsfoss í Kirkjufellsá er lítill foss rétt neðan við smábrú á vegarslóða sem liggur upp frá þjóðveginum á norðanverðu Snæfellsnesi. Fossinn og áin eru auðvitað kennd við Kirkjufellið sem rís þarna upp á sinn sérstaka hátt, í senn vinalegt og óárennilegt til uppgöngu.

Myndefnið býður líka upp á góða möguleika á ýmsum stælum, ekki síst eftir að dagsbirtu er tekið að bregða, en langur lýsingartími gerir fossinn þá að mjúkri hvítri slæðu. Gott virðist að nota gleiðlinsu til að fá sem víðasta sjónarhorn og ekki er þá verra ef norðurljósin fá að leika um himininn eða regnboginn eins og hann leggur sig. Þessu hafa ljósmyndarar gert góð skil á undanförnum árum og Kirkjufellið með Kirkjufellsfoss í forgrunni, hefur þannig orðið eitt af skærustu stjörnumótífum hér á landi meðal innlendra og erlendra ljósmyndara og hefur hróður þess borist víða.

Þær fínu myndir sem teknar hafa verið á þessum stað hafa átt sinn þátt í að koma Kirkjufellinu á heimskort alnetsins þar sem gjarnan eru teknir saman TOP10-listar yfir hitt og þetta. Þar má til dæmis nefna lista eins og: 10 Most Beautiful mountains in the world – 10 Spectacular hidden paradise locations from around the world – 10 most beautiful Places around the world.

Kirkjufell samsett

- - - -

Sjálfur hef ég ekki komið akkúrat að þessum stað og notast því við myndir héðan og þaðan. Stóra myndin er tekin af g.hennings eins og hún kallar sig á Flyckr.com

Höfundar og uppruni annarra mynda eru: CoolbieReTony PowerPiriya (Pete)Conor McNeill / Peter Rolf Hammer


Mánaðarhitasúluritið að loknum nóvember

Það er varla hægt annað en að birta nýjustu uppfærslu á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík eins og það lítur út nú að loknum þessum afar hlýja nóvembermánuði. Sem fyrr sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár. Nýliðinn nóvember var eins og þarna sést langt fyrir ofan meðaltöl mánaðarins og að auki nokkuð hlýrri en meðaltöl októbermánaðar. Það má segja að þessi nóvembersúla riðli þeirri fínu simmetríu sem komin var í myndina enda var þetta næst hlýjasti nóvember frá upphafi mælinga í Reykjavík (5,5°C), á eftir hinum ofurhlýja nóvember 1945 (6,1°C).

Meðalhiti Rvik 10 2014

Staðan í árshitamálum fyrir Reykjavík er orðin athyglisverð og víkur þá sögunni að súlunum lengst til hægri sem standa fyrir árshita. Ef desember verður bara í kalda meðaltalinu (-0,2°C) þá endar meðalhiti ársins í 6,0 stigum og árið það næst hlýjasta frá upphafi. Ef desember hinsvegar hangir í 10 ára meðaltalinu (0,7 C°) þá endar meðalhitinn í 6,1 stigi sem er jafn hlýtt metárinu 2003, sem táknað er með grænni súlu. Stutt er þó í að árið verði það hlýjasta frá upphafi en samkvæmt mínum útreikningum þarf meðalhitinn nú í desember að ná 1,2°C til að svo megi verða.

Miðað við veðurspár er ekki mikilla hlýinda að vænta næstu daga þannig að best er að stilla öllum væntingum í hóf - hafi menn þá yfirleitt einhverjar væntingar. Sjálft meðalhitametið fyrir desember er varla í hættu en það er 4,5 °C frá árinu 2002. Hvað sem því líður er þó engin hætta á öðru en að árið 2014 verði eitt af allra hlýjustu árunum í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu, að ógleymdu heimsmeðaltalinu því ársmeðalhitinn 2014 er við það allra hæsta á heimsvísu, hafi einhver áhuga á að vita það.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband