Af hitum og ísum hér og þar.

Nú er ég að hugsa um slá nokkrar flugur í einu höggi og að taka létta stöðu á því sem er að gerast í hitafari hér heima og jörðinni í heild og stöðu hafísmála í norðri og suðri. Spennu er víðar en að finna en í fótboltanum og það má skrifa heilu bloggfærslurnar um hvert atriði fyrir sig en ég læt þennan texta nægja að sinni.

Fyrst er það Reykjavíkurhitinn en meðalhitinn það sem af er þessu ári er vel yfir öllum meðaltölum. Þessi júnímánuður mun einnig verða hlýr og er í harðri baráttu við þá allra hlýjustu. Hlýjasti júní í Reykjavík var júní 2010, með meðalhitann 11,4°C og er meðalhitinn það sem af er mánuði einhversstaðar á því róli. Eitthvað bakslag hefur reyndar verið á þessum hlýindum undanfarið en út af fyrir sig væri mjög gott ef júní næði 11 stigunum enda gerist það ekki oft. Raunar bara sárasjaldan. Fyrstu 6 mánuðir ársins í Reykjavík gætu orðið þeir 3.-4. hlýjustu frá upphafi og eru þar í harðri keppni við árið 2003 sem endaði reyndar sem eitt hlýjasta árið í Reykjavík. Heldur hlýrra var fyrra hluta árs 1929 og öllu hlýrra árið 1964 (vedur.is). Sjáum til eftir mánaðarmót en þá stefni ég að því að uppfæra súluverkið mikla yfir Reykjavíkurhitann.

Á heimsvísu er meðalhitinn að reyna að rífa sig upp úr meðalmennskunni en ýmsir hafa auglýst grimmt eftir hlýnun jarðar sem lítið hefur borið á það af er öldinni. Tíðinda gæti þó verið að vænta á næstu mánuðum þar sem hið hlýja fyrirbæri El Nino er nú í burðarliðnum í Kyrrahafinu og gæti haft áhrif til hækkunar heimshitans fram á næsta ár. Spurning er hversu öflugur þessi El Nino mun reynast. Eitthvað hafa menn gælt við það sem kallast Super El Nino, en best er að fara varlega í slíkar spár. Þetta gæti allt eins orðið bara einhver mini El Nino. Heimshitinn er þó þegar farinn að stíga samkvæmt gögnum NASA þar sem liðinn mánuður reyndist vera hlýjasti maí á jörðinni á okkar tímum. Gervitunglagögn UAH yfir hita í neðri hluta veðrahvolfs settu nýliðinn maímánuð þó bara í þriðja sæti svo væntanlega hafa hlýindin ekki alveg skilað sér upp í efri hæðir enn sem komið er.

Hafísinn á Norðurslóðum
bráðnar að venju nú í sumar og bíða margir milli vonar og ótta eftir því hvort bræðslutímabilið verði eins lélegt og í fyrra eða eins afdrifaríkt og metsumarið 2012. Síðasti vetur var nokkuð hlýr á Norðurslóðum og því kom hafísinn ekkert sérstaklega öflugur undan vetri þrátt fyrir litla bráðnun sumarið á undan. Mikið veltur á því sem gerist á komandi vikum þegar hitinn er hæstur og heimskautasólin sæmilega hátt á lofti. Satt að segja hefur verið frekar kalt þarna upp frá nú í júní og ekki mikið að gerast en nú er því hinsvegar spáð að hæðarsvæði nái sér á strik með tilheyrandi sólskini og hlýjum vindum af suðri. Slíkt ástand þyrfti að haldast eða vera ríkjandi í talsverðan tíma ef þessi bræðslutíð á að keppa við þær sögulegustu á borð við 2012 og 2007. Þetta er tilvalið að skoða betur síðar.

Á Suðurhveli er útbreiðsla hafíssins með mesta móti og hefur verið það síðustu mánuði. Hafísinn í þarna suðri hefur verið í hægum vexti, öfugt við þróunina hér í norðri og reyndar er staðan þannig nú að samanlagt hafíssflatarmál á heimsvísu er ofan meðaltalsins frá 1979. Það hefur ekki reynst auðvelt að skýra þessa aukningu sem greinilega á sér stað hafísnum á Suðurhveli en grunsemdir beinast helst að auknum og breyttum vindum frekar en almennri kólnun. Landfræðilegar aðstæður á Suðurhveli eru annars gerólíkar því sem gerast hér norðanmegin og það spilar inn í. Eitthvað var ég að velta þessu fyrir mér fyrir nokkrum vikum í bloggfærslunni: Hafístíðindi af Suðurhveli.

Sem sagt. Fullt að gerast hér og þar - nú sem endranær.

(Undistrikuð orð eru linkar á heimildir)


Vesturbærinn, Melabúðin, fótbolti og fjölmiðlar

Ég er aðfluttur Vesturbæingur. Ólst upp í Háaleitishverfinu og er því Frammari að eilífu. Það kemur fyrir að ég fari á völlinn í Frostaskjóli í þeirri veiku von að verða vitni að sigri minna manna gegn innfæddum. Sú von hefur brugðist hingað til. Ég á þó vissar rætur í Vesturbænum, þar bjuggu afi og amma og í heimsóknum þangað var gjarnan farið á leikvöllinn við Hringbraut þar sem styttan er af Héðni Vald. Helsta áskorunin á þeim vettvangi var rennibrautin mikla sem var stærri og meiri dæmi eru um í dag.

Melabúðin er mikil menningar- og verslunarmiðstöð hér í Vesturbænum þótt ekki sé hún stór í sniðum. Þar hittir maður einatt einhvern sem maður þekkir og þar má líka reikna með að sjá að minnsta kosti tvo fræga. Maður getur til dæmis hitt Davíð Oddsson hjá kálinu og Össur Skarphéðins hjá smérinu. Ég fer reyndar ekki í Melabúðina á hverjum degi en í síðustu innkaupaferð voru þar bæði Bjarni Fel og Þorsteinn Joð. Kannski var þetta bara einhver sem líktist Bjarna Fel en engin spurning var með Steina Joð enda var hann í samræðum við símann sinn og tilkynnti hátt og snjallt að hann væri staddur í Melabúðinni.

Báðir þessir kappar hafa komið við sögu í útvarpi og sjónvarpi. Bjarni Fel átti ensku knattspyrnuna þar til hún var flutt annað og hef ég varla fylgst með henni síðan. Svipað gerðist með Formúluna. Ég er alger Marteinn Mosdal þegar kemur að ljósvakamiðlun og fylgist bara með ríkisfjölmiðlum. Umræddan dag í Melabúðinni var einhver útvarpsstöð í gangi og var þar einhver hress útvarpskona að segja frá æðislegri brúðkaupsferð einhverrar poppstjörnu og vísaði þá í myndir og frásögn í erlendu slúðurblaði. Ég endist sjaldan lengur en í 5 mínútur ef ég slysast til að skipta yfir á Bylgjuna. Hressileikinn á þar á ekki við mig enda fara hressilegheit sjaldnast saman við skemmtilegheit. Rás 1 og 2 eru mínar heimastöðvar. Útvarpshlustun virka daga er helst stunduð með morgunkaffinu og í bílnum. Kvöldfréttir er einnig hlustað á en annars eru helgarnar góðir útvarpsdagar. Allur gangur er á því hvor ríkisrásin hefur vinninginn. Góða talmálsþætti er enn að finna á Rás 1 þó margir þeirra séu endurfluttir. Á Rás 1 eru líka góðir tónlistarþættir t.d. milli 8-9 á morgnanna virka daga. Þeir eru betri til hlustunar með morgunmatnum en morgunútvarpið á Rás 2 fyrir kl. 9 þar sem allt of mikið er af óspennandi viðtölum. Reyndar finnst mér öll þessi dægur- og vandamálaviðtöl við fólk út í bæ vera ofmetið útvarpsefni sem og símaviðtöl allskonar. Mér finnst skipta máli í sambandi við tónlist í útvarpi að lög séu spiluð frá upphafi til enda, án þess að talað sé ofan í lögin og svo eiga þau líka að vera rækilega kynnt og afkynnt. Þetta er oft gert betur á Rás1 en á Rás2. Ýmsa ágæta útvarpsmenn er að finna á Rás 2. Ég hef sérstakt dálæti á Guðna Má á sunnudögum enda virðast tónlistarsmekkir okkar skarast vel. Gæti trúað að um sé að ræða einhverja 85% skörun. Hann er til dæmis sá eini sem spilar Linton Kwesi Johnson, ef einhver veit hver það er aðrir en við Guðni.

En nú fer að styttast í HM í knattspyrnu sem er alltaf skemmtilegt og gott að keppnin er ekki lokuð á einhverjum einkastöðvum. Áðurnefndir Vesturbæingar í Melabúðinni hafa komið við sögu í slíkum útsendingum. Man alltaf hvað Bjarni Fel var hissa á vélknúna sjúkravagninum sem brunaði inn á völlinn á HM í Bandaríkjunum þegar einhver varð fyrir hnjaski enda fann hann þá upp nýyrðið hnjaskvagn. Ýmsir upphitunarþættir fyrir HM hafa verið verið á dagskrá Sjónvarpsins. Mér datt í hug er ég horfði á einn slíkan hvort ekki væri sniðugra að endursýna í heild sinni gamla klassíska fótboltaleiki frá fyrri keppnum. Það væri t.d. ekki leiðinlegt að sjá leik Englendinga og Argentínumanna frá því í den er Maradonna skoraði tvö af frægustu mörkum fótboltasögunnar. Tala nú ekki um leiki með Danska landsliðinu í sömu keppni árið 1986 sem var samfellt sigurför þar til Danir steinlágu í því gegn Spánverjum. Áfram með góðar tillögur tengdar fótbolta. Rautt spjald í fótbolta þýðir ekki bara að brotamaður fer út af það sem eftir er leiks heldur einnig að liðið spilar manni færri það sem eftir er leiks og það vegna yfirsjónar eins manns eða óþarfa refsigleði dómara. Taka mætti upp í staðin það fyrirkomulag að reka mann tímabundið af velli, t.d. í tuttugu mínútur ef brotið er ekki þeim mun alvarlegra. Að þeim tíma liðnum gæti maðurinn komið inn á aftur eða einhver í hans stað og værum við þá farin að nálgast þann hátt sem hafður er við í handbolta nema að refstíminn er tuttugu mínútur en ekki tvær. Þetta mættu menn athuga en eins og með góðar tillögur þá ná þær oft ekki lengra en að vera nefndar.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband