Af hafísnum á norðurslóðum

Sumarbráðnun hafíssins er nú í fullum gangi á Norður-Íshafinu og mun halda áfram uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Þá mun koma í ljós í hvernig bráðnunin hefur staðið sig miðað við undanfarin sumur. EIns og staðan er núna er reyndar fátt sem bendir til þess að um einhverja ofurbráðnun verði að ræða, eins og reyndin var sumarið 2012 þegar bráðnunin sló rækilega út fyrri met, en þó er ekki tímabært að afskrifa neitt. Bráðnunin fór frekar rólega af stað að þessu sinni enda voru engin sérstök hlýindi þarna uppfrá í upphafi sumars. Á línuritinu hér að neðan sést hvernig þróunin hefur verið á flatarmáli íssins miðað við nokkur fyrri sumur. Flatarmálið er nú þegar komið undir septemberlágmarkið 1980 þegar ástand hafíssins var mun betra en nú á dögum. Spurning er hvert stefnir í ár. Guli 2014 ferillinn er nálægt rauðu 2013 línunni eins og er, en þó ekki svo fjarri fyrri metárum á sama tíma.

CT linurit 23.juli2014

Veðurfar á alltaf heilmikinn þátt í sumarbráðnun. Metsumarið 2012 léku hlýir vindar um Norður-íshafið strax í sumarbyrjun og með hjálp sólarinnar. Stórvaxin lægð gerði svo mikinn usla í byrjun ágúst og flýtti fyrir því sem stefndi í. Sumarið 2013 var síðan allt öðru vísi því þá voru lægðir á sveimi bróðurpart sumars sem byrgðu fyrir sólu á meðan hún var hæst á lofti auk þess sem vindar gerðu meira í því að dreifa úr ísnum frekar en að pakka honum saman. Útkoman það sumar var því meiri útbreiðsla en um leið gisnari ís en sumrin á undan. 

isþykkt 23. juli 2014

Nú í sumar er ástandið aðallega þannig að eftir ríkjandi hægviðri er ísinn nokkuð þéttur og samanpakkaður á meginhluta ísbreiðunnar. Óvenju stórt opið hafsvæði er norður af miðhluta Síberíu en þar kom ísinn reyndar mjög illa undan vetri eins og ég talaði um í hafíspistli 23. maí. Á sumum öðrum svæðum hefur bráðnunin gengið hægar. Ef sumarbráðnunin á að keppa við fyrri lægstu lágmörk þá þarf ísinn meira og minna að hverfa utan við 80. breiddarbauginn (innsti hringurinn á myndinni) sem þýðir að stór hafsvæði þurfa að vera auð norður af Alaska og öllum austurhluta Síberíu í lok sumars. Það er nokkuð í land með það ennþá, sérstaklega á Beaufort-hafi norður af Alaska þar sem er að finna nokkuð öflugan ís sem þangað hefur leitað eftir að hafa lifað af nokkrar sumarvertíðir og þá ekki síst árið í fyrra. Sumarhitar næstu vikur munu hinsvegar herja áfram á þessi svæði sem best þau geta og það er vel mögulegt að dygg aðstoð fáist frá hlýrra meginlandslofti úr suðri, eftir því sem lesa má úr spákortum. Þetta er alla vega langt í frá búið.

Að lokum koma hér tvær myndir sem sýna septemberlágmörkin árin 2012 og 2013. Munurinn er nokkuð áberandi. Sumarið 2012 pakkaðist ísinn að mestu innan við 80 breiddargráðuna. Sumarið 2013 var ísinn dreifðari en þó mjög þunnur á stóru svæði kringum sjálfan pólinn eins og bláu tónarnir bera með sér. Hvernig mun þetta líta út í september nú í ár?

CT lágmörk 2012 og 2013

- - - -

Hafískortin sem fylgja sýna áætlaða ísþykk samkvæmt tölvulíkönum.
Kortin eru héðan: http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html

Línuritið er unnið frá línuriti af síðunni The Cryosphere Today:
http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/

Einnig má lesa hafísyfirlit frá Bandarísku snjó- og hafísrannsóknarmiðstöðinni, NSDC. http://nsidc.org/arcticseaicenews/

Hafa skal í huga nú sem fyrr að þessi skrif eru áhugamannapælingar óbreytts borgara.


Týpógrafískir knattspyrnumenn

Það má lengi velta sér upp úr nýafstöðnu heimsmeistaramóti í fótbolta þótt flestir séu eflaust nokkuð sáttir með að öll ósköpin séu liðin hjá. Knattspyrnan á sér margar hliðar, ekki síst bakhliðar. Þar komum við að einu þeirra atriða sem fangað hefur athygli mína, nefnilega leturhönnun aftan á búningum leikmanna, sem eins og annað verður að vera tipp topp. Nike stórveldið sér mörgum keppnisliðum fyrir búningum en til að gefa hverju liði meiri sérstöðu þá fær hvert landslið sína eigin leturgerð sem gjarnan er sérteiknuð af hinum færustu leturhönnuðum.

Búningar Letur

Stundum þykir reyndar við hæfi að nota gamalgróna fonta eins og í tilfelli frönsku búninganna sem státa af hinu gamla framúrstefnuletri AVANT GARDE enda hafa Fransmenn lengi gælt við ýmsar framúrstefnur. Leturgerð Bandaríska liðsins er undir greinilegum áhrifum frá köntuðum leturgerðum sem prýða búninga hafnarboltaleikmanna. Leturgúrúinn mikli Neville Brody mun hafa komið við sögu við hönnun ensku leturgerðarinnar og Sneijderefast ég ekki um að Rooney sé vel sáttur við það. Portúgalska letrið er líka stílhreint og nýstárlegt en mestu stælarnir eru í Hollenska letrinu sem býður upp á þann möguleika að samnýta í einu stafabili bókstafina I og J með því að lyfta I-inu upp svo ekki myndist dautt svæði milli bókstafana. Þetta vakti auðvitað sérstaka athygli mína í hvert sinn er hinn hollenski SNEIJDER snéri baki í myndavélarnar.

Gula spjaldið fyrir týpógrafíu
En svo er það Brasilía sem reyndar var upphaflega kveikjan að þessum pistli. Brasilíska letrið er sérteiknað fyrir heimsmeistaramótið og mun vera undir áhrifum af letrum sem mikið eru notuð í allskonar götuplakötum í Brasilíu. Hið fínasta letur verð ég að segja, sérstaklega tölustafirnir.

Silva SpjaldEn það er að mörgu að hyggja og misbrestir geta verið víða eins og Brasilíska liðið fékk að kenna á í síðustu leikjunum. Fyrirliðinn Thiago Silva var fjarri góðu gamni er lið hans steinlá fyrir Þjóðverjum 7-1 og aftur var hann spjaldaður í tapleiknum gegn Hollendingum. Ég veit ekki hvort hann hafi mikið velt sér upp úr leturmeðferðinni á sinni keppnistreyju en það gerði ég hins vegar.
Þegar nafnið SILVA er sett upp í hástöfum blasa við ákveðin vandamál því þar koma saman stafir sem falla einstaklega misvel hver að öðrum sé ekki brugðist við - sem mér sýnist ekki hafa verið gert. Eins og sést á myndinni standa bókstafirnir I og L mjög þétt saman á meðan stór og mikil bil eru sitt hvoru megin við V-ið sem sundra nafninu.

Upprunalega hefur hver bókstafur sitt kassalaga helgisvæði sem ræðst af lögun stafsins. L-ið hrindir þannig frá sér næsta staf vegna þverleggsins niðri. V-ið er því víðsfjarri L-inu ólíkt bókstafnum I þar sem ekkert skagar út. Einnig myndast stórt bil á milli V og A sem báðir eru duglegir við að hrinda hvor öðrum frá sér. Í heildina virðist þetta nafn SILVA vera alveg sérstaklega erfitt í hástöfum og því nauðsynlegt að laga bilin eins og grafískir hönnuðir hér á landi læra í fyrsta tíma hjá Gísla B. Í nútíma tölvusetningu gerist þetta þó gjarnan sjálfkrafa eins og tilfellið virðist vera á þessu bloggsvæði. Hér að neðan hef ég gert mína tilraun til að bjarga málum fyrir T. Silva og þegar það er búið fær nafnið og letrið að njóta sín. Ja, nema þetta eigi bara að vera svona sundurslitið, stælana vegna. Gula spjaldið fyrir týpógrafíu er alla vega viðeigandi í þessari leturbloggfærslu sem dulbúin er í fótboltabúning.

 Silva jafnað

Nánar um leturhönnun á NIKE heimsmeistarakeppnisbúningum:
http://www.designboom.com/design/nike-world-cup-fonts-07-01-2014

 


Það var árið 1986

Sum ár eru af ýmsum ástæðum eftirminnilegri en önnur í hugum okkar. Það er þó persónubundið hvaða ár þetta eru og skiptir aldur manna þá auðvitað heilmiklu. Fyrir mér er árið 1986 eitt þessara ára en þá var ég rétt skriðinn yfir tvítugt, farinn að stúdera grafíska hönnun og auðvitað ákaflega meðvitaður um allt sem í kringum mig var eins og gengur á þeim aldri. Árið 1986 var reyndar ekkert merkilegra fyrir mig persónulega en önnur ár. Stemningin hér á landi svona almennt var hinsvegar eftirminnileg, enda gerðist það hvað eftir annað að fólk sameinaðist eða sundraðist yfir stóratburðum, sem voru kannski ekki miklir stóratburðir í raun en höfðu mikil áhrif á sjálfsmynd okkar. Spennustigið var hátt. Ég ætla ekki að fjalla um pólitíkina en það má rifja upp að Steingrímur Hermannson var forsætisráðherra, Davíð Oddson sat sem fastast sem borgarstjóri og Vigdís var forseti. GreifarnirÞað má segja að þetta hafi verið góðæris- og bjartsýnistímar hjá þjóðinni sem þarna var farin að hafa trú á að Íslendingar væru eftir allt saman hin merkilegasta þjóð sem heimurinn ætti bara eftir að uppgötva. Og ef við vorum ekki best í heimi í einhverju þá vorum við það alla vega út frá höfðatölu. Þetta var líka ár „uppana“ sem voru síefnilegir, ætluðu sér stóra hluti í framtíðinni. Þeir sprækustu voru ennþá með sítt að aftan og fóru í Hollýwood um helgar með mynd af bílnum í vasanum. Greifarnir sigruðu í Músíktilraunum þetta ár. 

Sumum þótti smekkleysan og efnishyggjan vera farin að verða full fyrirferðamikil og í samræmi við það var stofnaður andófshópurinn Smekkleysa sem samanstóð af ýmsum ungskáldum og fyrrum pönkurum og veittu smekkleysuverðlaun við litlar undirtektir viðtakenda að undanskyldum Hemma Gunn sem var alltaf jafn hress. Afkvæmi þessa hóps voru svo Sykurmolarnir sem voru ekki fjarri því síðar að sigra heiminn og gerðu þar betur en Strax-hópur Stuðmanna. En sumir sigruðu heiminn svo sannarlega. Haustið 1985 sigraði Hófí, Miss World keppnina og árið 1986 sigraði Jón Páll í annað sinn í keppninni World Strongest Man og því var ljóst að við Íslendingar áttum fallegasta kvenfólkið og sterkustu mennina. Það var keppt í fleiru. Gríðarleg eftirvænting var fyrir Heimsmeistaramótið í handbolta snemma árs þar sem strákarnir okkar ætluðu sér stóra hluti. Heimsmeistaramótin voru einungis á fjögurra ára fresti í þá daga og ekki búið að finna upp Evrópumótið og nú var líka hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Skellurinn kom hins vegar strax í fyrsta leiknum gegn Suður-Kóreu sem fyrir okkar menn og átti bara að vera léttur upphitunarleikur fyrir alvöru átök síðar. Um þennan eftirminnilega leik skrifaði ég reyndar sérstaka bloggfærslu er nefnist: Þegar Suður-Kórea tók okkur í bakaríið Það rættist þó úr málum gegn hefðbundnari andstæðingum og þjóðin gat fagnað frábærum árangri og 6. sæti á mótinu.

GleðibankinnÞjóðin fór síðan alveg á límingunum um vorið þegar Eurovisionkeppnin hófst og við með í fyrsta skipti. Sú Gleðibanka-för var eiginlega fyrsta bankaútrás Íslendinga og augljóst að við vorum að fara að keppa til sigurs. Á einhvern óskiljanlegan hátt gekk það ekki eftir og þjóðin lagðist í tímabundna depurð og þunglyndi yfir illum örlögum. Þjóðarstoltið hafði beðið þunga hnekki.

Menn gátu sem betur fer tekið gleðina á ný þegar Heimsmeistaramótið í fótbolta hófst í júní og að sjálfsögðu líka í beinni. Allir fylgdust með nema hörðustu fótboltaandstæðingar eins og gengur. Danir voru þarna ennþá í náðinni hjá Íslendingum og stálu algerlega senunni hjá okkur er þeir gjörsigruðu hvern andstæðinginn af öðrum. Vinsælasta lagið á íslandi sumarið 1986 var einmitt Danska fótboltalagið: „Við er røde, vi er Hvide“. Danska dínamítið sprakk hinsvegar með stórum hvelli í 16 liða úrslitum er þeir mættu Spánverjum. Misheppnuð sending Jesper Olsens til eigin markavarðar í stöðunni 1-0 gerði útslagið og 1-5 tap Dana varð niðurstaðan. Reykvíkingar gátu fagnað síðar um sumarið þegar öllum borgarbúum var boðið upp á köku sem var langlengsta kaka sem nokkru sinni hefur verið bökuð hér á landi, ef ekki bara í öllum heiminum, 200 metra löng. Tilefnið var 200 ára afmæli Reykjavíkur sem haldið var upp á með pomp og prakt. Að sjálfsögðu fékk ég mér sneið.

LeiðtogafundurÞað var svo í byrjun október sem tíðindin miklu bárust. Íslendingar áttu bara eftir nokkra daga að taka á móti tveimur valdamestu mönnum heimsins sem ætluðu að semja sín á milli hvernig best væri að fækka kjarnorkuvopnum það mikið að hægt væri að gjöreyða mannkyninu bara nokkrum sinnum í stað mjög mörgum sinnum. Þetta tókst okkur og Ísland svo sannarlega komið í sviðsljósið. Þótt niðurstaða fundarins hafi valdið vonbrigðum þá eru menn nú að komast á þá skoðun að leiðtogafundurinn hafi í raun markað upphafið að endalokum kalda stríðsins og er það sjálfsagt bakkelsinu í Höfða að þakka. Einn skellurinn var þó eftir, því um haustið vöknuðu borgarbúar við þau ótíðindi að búið var að sökkva tveimur hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn sem í áratugi höfðu verið eitt af föstum kennileitunum Reykjavíkurhafnar. Ódæðismennirnir komust úr landi með áætlunarflugi og hin alræmdu samtök Sea Sheapart lýstu ábyrgð á hendur sér. Þarna vorum við landsmenn svo sannarlega teknir í bólinu.

Það má í lokin nefna ein tímamót á þessu ári sem varða mig sjálfan en í upphafi sumars fékk ég þá flugu í höfuðið að punkta hjá mér veðrið í lok hvers dags. Ekki datt mér í hug þarna árið 1986 að ég yrði enn að árið 2014 en það er þó reyndin. Ekki hafði maður heldur hugmyndaflug í að ímynda sér að maður ætti eftir að skrifa bloggfærslur á einhverjum veraldarvef á tölvu, en í slík tæki var maður lítið að spá á þessum árum. Hinsvegar var heilmikið teiknað.

Hvalveiðibátar teikning

Sokknir hvalveiðibátar í Reykjavíkurhöfn, 9. nóvember 1986. Teikning eftir sjálfan mig.


Mánaðar- og árshiti í Reykjavík. Staðan í hálfleik.

Meðalhitinn fyrir júní í Reykjavík er kominn í hús og eins og fram hefur komið var þetta með allra hlýjustu júnímánuðum hér í bæ og sumstaðar á landinu sá hlýjasti frá upphafi. Veðurgæði að öðru leyti voru hins vegar ekki í sama gæðaflokki og fara þarf aftur í árdaga veðurskráninga í Reykjavík til að finna meiri úrkomu í júní.

En þá að súluritinu sem nú birtist með nýjustu tölum innanborðs en því er meðal annars ætlað að sýna hvert gæti stefnt með árshitann í Reykjavík. Bláu súlurnar á myndinni sýna meðalhita hvers mánaðar samkvæmt núverandi opinbera meðaltali 1961-1990 sem vill svo til að er frekar kalt tímabil. Rauðu súlurnar sem rísa hærra er mánaðarmeðalhiti síðustu 10 ára, sem er öllu hlýrra tímabil. Fjólubláu súlurnar standa svo fyrir þá sex mánuði sem liðnir eru af núverandi ári, 2014. Hægra megin við strik eru 5 súlur sem sýna ársmeðalhita. Bláa súlan þar er kalda meðaltalið 1961-1990 (4,3°) og sú rauða er meðalhiti síðustu 10 ára (5,4°). Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.

Meðalhiti Rvik 6 2014
Spennan liggur í því hvert stefnir með þetta ár og þar koma tónuðu súlurnar tvær við sögu. Sú bláfjólubláa segir til um árshitann ef mánuðirnir sem eftir eru verða akkúrat í „kalda meðaltalinu“ en sú rauðfjólubláa sýnir hver árshitinn verður ef restin verður jöfn meðalhita síðustu 10 ára. Samkvæmt mínum útreikningum er staðan eftir fyrri hálfleik ársins þá þannig að sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu stefnir árshitinn í Reykjavík í 5,3°C sem telst bara nokkuð gott. Sé framhaldið hinsvegar reiknað út frá síðustu 10 árum stefnir árshitinn í 5,8°C og árið komið í flokk með hlýjustu árum. Til að halda aftur af væntingum þá sleppi ég að reikna út hvað gerist ef mánaðarmeðaltölin halda áfram í sömu hæðum en það má geta þess að hlýjasta árið í Reykjavík er 2003, með 6,1°C í meðalhita. Júlí virðist reyndar ætla að byrja með einhverju bakslagi en svo verður framhaldið bara að koma í ljós.

Fyrstu sex mánuðir þessa árs hafa allir verið yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ekki munar miklu í febrúar og mars, en eftir það hefur meðalhitinn verið vel yfir meðallagi. Meðalhitinn í júní að þessu sinni var 11,2°C sem 0,9 stigum ofan við meðalhita síðustu 10 ára. Mest munaði um hversu hlýtt var fyrri hluta mánaðar og varð því fljótlega ljóst að mánuðurinn myndi keppa við við þá allra hlýjustu. Hann náði þó ekki metinu en ögn hlýrra var árið 2003 og tveimur ögnum hlýrra (11,4°C) árið 2010 og er júní það ár því handhafi titilsins: Hlýjasti júní í Reykjavík.

Veðureinkunn júnímánaðar. Að venju þá hef ég gefið liðnum mánuði veðureinkunn eftir mínu prívatkerfi sem byggist á fjórum veðurþáttum: Sól, úrkomu, hita og vindi. Þessi sólarlitli, úrkomusami og hægviðrasami hlýindamánuður fékk samkvæmt því algera miðlungseinkunn: 4,7 stig, sem þó er bæting frá júní í fyrra, 2013, sem fékk 4,4 stig. Árið þar áður, 2012, fengum við hinsvegar besta júnímánuðurinn á þessum skala með algera toppeinkunn 5,9. Nokkuð er hinsvegar liðið síðan sá allra versti kom en það var júní 1988 með aðeins 3,5 stig. Það var miklu verri mánuður en sá nýliðni eins og þeir vita sem muna.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband