Geimveruat

Það skal viðurkennt að maður tók dálítinn kipp um daginn þegar fréttir bárust að því utan úr heimi að stjörnufræðingar hefðu komið auga á dularfull fyrirbæri, umhverfis einhverja stjörnu, sem erfitt væri að útskýra með öðru en að hátæknisamfélag væri þar að verki. Það var aðallega umfjöllun í Independent sem sem vakti athygli en þeir voru fljótir að vísa til geimvera sem líklegri skýringu á tilurð fyrirbærisins sem fannst með aðstoð Kepler sjónaukans.

Eins og oft áður reyndust þetta þó vera einhver tálsýn eða hrein æsifréttamennska og auðvitað kom "Stjörnu-Sævar" okkur aftur niður á jörðina með nánari útskýringar og benti á að geimverur væru neðstar á blaði þegar skýringa væri leitað. Það væru ýmsar náttúrulegar skýringar í boði á þessu fyrirbæri eins og til dæmis halastjörnubrot sem höfðu raðað sér upp með sérstökum hætti umhverfis umrædda stjörnu. Einnig skal hafa í huga að vísbendingar um að eitthvað væri á ferð þarna fengust með því að mæla lítilsháttar en reglulegar breytingar á birtistigi stjörnunnar sem gerist þegar eitthvað gengur fyrir hana, eins og til dæmis reikistjörnur. Það sást því ekki beinlínis neitt umhverfis stjörnuna, aðeins vísbendingar um eitthvað óvenjulegt.

Fljúgandi diskar

Ef rétt hefði verið og staðfest að þarna væri eitthvað hátæknilegt á ferð, hefðu það verið stórtíðindi sem breytt hefðu miklu, því fram að þessu höfum við jarðarbúar ekki fundið neitt sem hönd á festir um líf á öðrum hnöttum, hvað þá þróuð samfélög geimvera. Dularfulla stjarnan (KIC 8462852) sem augu manna beindust að er í 1.481 ljósára fjarlægð, sem þýðir að það sem við sjáum þar eru í raun 1.481-árs gamlar fréttir. Vegna fjarlægða í alheiminum erum við alltaf að horfa á gamla atburði þegar við horfum til stjarnanna og mis gamla eftir því hversu fjarlægar stjörnurnar eru. Sama gildir ef hugsanlegar geimverur í þessu tiltekna fjarlæga sólkerfi væru að fylgjast með jörðinni núna. Það sem þeim birtist er jörðin eins og hún var fyrir 1.481 ári þegar miðaldir voru gengnar hér í garð með þjóðflutningnum miklu og allskonar umróti í Evrópu eftir fall Rómaveldis. Væntanlega væri þó fáar vísbendingar um að hér væri eitthvað háþróað líf á ferðinni enda langt í útsendingar útvarpsstöðva og annarra ljósvakamiðla.

En eru annars einhverjar geimverur og hátæknisamfélög þarna úti? Já verðum við ekki að segja það? Úr því það er hægt á jörðinni þá hlýtur það að vera hægt annarsstaðar. Það er þó ekki þar með sagt að háþróað líf og hátæknisamfélög verði til svo auðveldlega, öðru nær. Skýringin á tilvist geimvera hlýtur miklu frekar að vera sú að heimurinn er svo ógnastór að eiginlega allt hlýtur að vera til einhverstaðar og í miklu úrvali. Fjarlægðir eru hinsvegar að sama skapi ægilegar sem ætti að skýra hvers vegna við höfum ekki orðið vör við neitt þarna úti og enginn sennilega orðið var við okkur. Kannski er það jafnvel svo að tegundin maður sé langtæknivæddasta lífvera gjörvallrar vetrarbrautarinnar og eina lífveran sem hugsar yfirleitt eitthvað út fyrir sólkerfið. En jafnvel þó að eitthvað líf og vit sé í kringum okkur þá trú ég því að samskipti og heimsóknir geimvera til jarðar séu nánast alveg út úr myndinni í nútíð, fortíð og framtíð þótt sumir vilji trúa öðru í þeim efnum. Það má þó alltaf leika sér að möguleikunum eins og þeim að í jarðsögunni hafi kannski einu sinni komið geimverur sem hafa verið svo óheppnar að vera étnar af risaeðlum.

- - -

Myndskreytingin sem fylgir er úr kvikmyndinni Mars Attach frá árinu 1996

 


mbl.is Geimverur neðstar á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknispjall

Fyrir mjög mörgum árum sá ég í sjónvarpi allra landsmanna gamla svarthvíta bíómynd, sem ég veit ekkert um, nema hvað hún fjallaði um ungan mann sem á einhvern hátt komst yfir lítið handtækt tæki sem var gætt þeim eiginleikum að hægt var að spjalla við það og fá ráðleggingar til að komast áfram í lífinu. Þetta tæki var sem sagt gætt mannsrödd og áttu ráðleggingar þess ekki að bregðast. Tækið sagði unga manninum nákvæmlega hvað hann ætti að gera til að græða peninga og það sem mestu máli skipti, hvernig hann átti að krækja í draumaprinsessuna. Nú man ég ekki alveg framvinduna en auðvitað endaði myndin á því að allt var komið í hönk hjá aumingjans manninum því ráðleggingar tækisins reyndust þegar til kom ekki eins skynsamlegar og það hélt sjálft fram. Að lokum frelsaði hann sjálfan sig og henti tækinu í næstu ruslatunnu þrátt fyrir áköf mótmæli þess.

Kannski kannast einhver við þessa bíómynd sem var dæmigerð áminning um að varasamt getur verið að treysta tækninni um of. Myndin gæti verið eitthvað um 50 ára gömul en á sjöunda áratugnum var eins og oft áður mikil trú á því að tæknin ætti eftir að leysa flest okkar vandamál og létta okkur lífið. Við áttum auðvitað að geta skroppið til tunglsins í sumarfríum árið 2000. Mennirnir kæmu úr vinnu svífandi um á fljúgandi bílum á meðan næringarríkar matarkökur væru galdraðar fram í sjálfvirkum eldhúsum húsmóðurinnar.
Ekki er þetta alveg svona í dag og sjálfsagt myndi tímaflökkurum frá sjötta áratugnum reka í rogastans yfir því hvað lítið hefur í raun breyst. Við erum enn að aka um á fjórhjóla bensínbílum eins og gert hefur verið í 100 ár. Flugvélar hafa lítið breyst, algengasta farþegaþotan er ennþá Boeing 747 sem flaug fyrst árið 1969, löngu er búið að leggja síðustu hljóðfráu Concorde þotunni og Bandaríkjamenn þurfa að leita á náðir Rússa til að koma sér upp fyrir lofthjúpinn í Soyuz-geimflaugum sem hafa verið í notkun síðan 1966. Ýmislegt hefur þó breyst en sá lúxus sem til staðar er í dag er að mestu bundin við betur stæða jarðarbúa á meðan meirihluti fólks í heiminum býr við takmarkanir vegna fátæktar.

Tæknibyltingin sem þó er orðin er samt sem áður mjög merkileg og þarf ekki að gera lítið úr henni þó hún stuðli ekki alltaf að bættu mannlífi. Tæknibyltingin er ekki mjög sýnileg í raun og hún hefur ekki breytt ásýnd borga og umhverfisins svo mjög. Byltingin felst í aðgengi upplýsinga, samskiptum manna á milli og afþreyingu sem óðum gerir svo margt úrelt sem þótti frábært fyrir nokkrum árum. Allt er nú aðgengilegt í litlu tæki sem menn ganga með á sér hvert sem þeir fara, enda er í einu og sama tækinu samankomnir allir helstu fjölmiðlar heimsins, vídeóleigur, dagblöð, sjónvarp og útvarpsstöðvar, auk myndavélar, kvikmyndatökuvélar, einnig alfræðisafn með upplýsingum um hvaðeina, orðabækur, bókasafn, ritvél og reiknivél, staðsetningatæki, landakort af öllum heiminum og öllum borgum, áttaviti, vasaljós og að ógleymdum sjálfum símanum sem óðum er að verða undir í samkeppni við samskiptaforrit sem aldrei eru á tali.

En tækin, eða hinir svokölluðu snjallsímar, sem fólkið gengur með, eru samt sem áður engar vitvélar og það þýðir ekkert að spyrja þau hvaða stefnu eigi að taka í lífinu. Þrátt fyrir tæknina munu menn halda áfram að verða sínar eigin snjallverur og sinnar eigin gæfu smiðir. Menn munu líka halda áfram að misskilja mann og annan og jafnvel hengja bakara fyrir smiði. Ætli það verði ekki þannig um ókomna tíð?

Snjallverur


Gengið á Ben Nevis

Það var fyrir rúmu ári síðan að ég fór að spá í hvernig best væri að bregðast við yfirvofandi persónulegum tímamótum hjá mér sem tilkomin eru af notkun okkar á tugakerfinu við aldursákvarðanir sem og annað. Það sem kom strax upp í hugann var að ganga á eitthvað gott fjall erlendis sem risi hærra en önnur fjöll í viðkomandi umdæmi eða landi og leiddu þær pælingar fljótlega til Skotlands þar sem er að finna hæsta fjall Bretlandseyja, Ben Nevis, 1344 metrar á hæð. Annað vissi ég svo sem ekki um þetta fjall en eftir smá eftirgrennslan komst ég að því að þetta væri vel göngufært og talsvert gengið.

Ben Nevis kort
Auðveld aðkoma er að Ben Nevis sem stendur rétt ofan við bæinn Fort William. Talað var þó um að Ben Nevis væri fjall sem ekki ætti að vanmeta. Þar uppi sæist sjaldan til sólar - hvað þá til annarra fjalla, auk þess sem þar geisuðu gjarnan miklir vindar sem svipt gætu mönnum fram af hengiflugum, færu þeir ekki varlega. Þetta ætti ekki síst við á haustin þegar Atlantshafslægðirnar fara að gerast ágengar enda ekki að ástæðulausu að stofnað var til veðurathugana á þessum stað seint á 19. öld. Þetta var sem sagt ákveðið. Konan féllst á að taka þátt og var bókuð gisting við fjallsrætur í bænum Fort William. Uppganga yrði stóra daginn, 30. september, en ef illa viðraði var dagurinn á eftir til vara.

Þegar leið á september og styttast fór í þetta var auðvitað legið yfir veðurspám sem voru æði síbreytilegar - allt frá óskaplegri blíðu til stórviðra af verstu gerð. Tilefni til bjartsýni fór þó vaxandi vegna mikils hæðarsvæðis sem gerði sig líklegt að leggja undir sig Bretlandseyjar. Það stóðst, því þegar komið var til staðarins og uppgöngudagur rann upp, var heiður himinn, logn en dálítið morgunsvalt og fjallið blasti við í allri sinni dýrð.
Ben Nevis Stígur

Stígurinn sem liggur upp fjallið var upphaflega ætlaður hestum sem fluttu vistir til veðurathuganamanna á fjallstoppinum. Stígurinn er aldrei verulega brattur þar sem hann liggur í hlykkjum utan í hlíðunum en er þó nokkuð grófur á köflum. Árið 1911 vildu menn sýna fram á hversu nýjustu bifreiðarnar væru megnugar þegar tókst að drösla einu Ford-T módeli alla leið upp í auglýsingaskyni. Sú ferð tók að vísu næstum þrjá daga með miklum tilfæringum en niðurleiðin var hinsvegar farin á þremur klukkutímum.

Ben Nevis toppur
Á toppi Ben Nevis er mjög stórgrýtt og eru leifar mannvirkja áberandi en þær tengjast mönnuðu veðurathuganastöðinni sem þarna var rekin á árunum 1883-1904. Vinnan þar hefur sjálfsagt verið harðneskjuleg í verstu vetrarveðrunum og örstutt í þverhnípt hengiflug. Með tilkomu göngustígsins og starfseminnar á Ben Nevis varð þetta fljótlega vinsæl gönguleið ferðafólks og svo fór að reist var gistiheimili við hlið hýbýla veðurathuganamanna og segir sagan að þeim hafi stundum þótt nóg um ónæðið af völdum góðglaðs göngufólks. Gistiheimilið hélt velli í nokkur ár eftir að veðurathuganastöðin var lögð niður en í dag standa veðurbarðar rústirnar einar eftir af öllu saman.

Ben Nevis rústir
Það var hinsvegar enginn veðurbarningur þennan síðasta dag septembermánaðar á Ben Nevis árið 2015. Þeir sem lögðu á sig gönguna alla leið á toppinn voru því alveg í skýjunum þótt engin ský væru á lofti enda upplifðu menn þarna einstaka veðurblíðu með stórbrotnu útsýni í allar áttir þar sem hver Skoski fjallstoppurinn tók við af öðrum. Þetta munu vera leifar gamalla fellingafjalla sem mynduðust fyrir um 400 milljón árum þegar mikið sameiningarferli meginlanda átti sér stað og hefur verið kölluð Kaledóníufellingin og er myndun Noregsfjalla einnig hluti af því ferli. Ekki sást til snjóa í fjöllum en þó örlaði enn á smásköflum í skuggsælum giljum þarna neðan við fjallstoppinn.

Ben Nevis útsýni
Niðurleiðin er auðvitað jafn löng og uppgangan. Það var lýjandi að feta sig alla þessa leið niður eftir hörðum stígnum og maður hefði alveg þegið góðan snjóskafl til að renna sér niður eins og gjarnan á íslenskum fjöllum. En þessi tímamótaferð lukkaðist sem sagt vonum framar. Helst að bakpokinn hafi verið óþarflega úttroðinn af ónotuðum skjólfatnaði sem þó er alltaf vissara að hafa með á fjöll. Tala nú ekki um þegar um er að ræða hæsta fjall Bretlandseyja, svo hátt sem það nær.

Ben Nevis - EHV

Karlinn sjálfur á toppnum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband