Holuhraunsgosið vefmyndavélað

Í síðustu bloggfærslu fór ég stuttlega yfir aðdraganda eldgossins í Holuhrauni og lofaði jafnframt framhaldi með skjámyndum af vefmyndavél Mílu sem staðið hefur vaktina allan gostímann, okkur sem heima sitjum til mikils gagns og gleði. Myndavélin er staðsett á Vaðöldu skammt suðaustur af Öskju og er í um 20 km fjarlægð frá gosstöðvunum. Af síðustu fréttum að dæma er nú lítið eftir af gosinu og gæti það allt eins verið búið. Það bauð þó oft upp á fínt sjónarspil í haust og í vetur og eitthvað af því hefur maður náð að fanga með skjámyndatöku. Hefjum þá sýninguna:

Míla 29. ágúst 2014
Myndasýningin hefst þar sem ég endaði síðast, en aðfaranótt 29. ágúst hófst loksins gosið sem beðið hafði verið eftir. Það var reyndar svo lítilfjörlegt að það var eiginlega búið þegar þjóðin frétti fyrst af því. Myndin er tekinn umræddan laugardagsmorgun en þá voru bara gufubólstrar sjáanlegir og gosið í raun búið. En þetta var bara forleikurinn.

Míla 31. ágúst 2014
Aðfaranótt 31. ágúst hófst hið eiginlega gos. Á vefmyndavélum mátti sjá talsverða gufubólstra en þegar fór að skyggja um kvöldið komu eldarnir betur í ljós og þá mátti sjá þunnfljótandi hraunið vella frá eldsprungunni. Myndin er tekin með þrengra sjónarhorni en þær sem á eftir koma.

Míla 5. sept 2014
Að kvöldi hins 5. september sést hvar hraunstraumurinn stefnir ákveðið í átt að Vaðöldu í fjólublárri birtu. Hraunkanturinn myndar fallegan boga í framlínunni en þarna hefur hraunið náð að renna um 10 kílómetra frá upptökum.

Míla 15. sept 2014
Helvíti flott er kannski það sem lýsir þessu best þar sem eldarnir lýsa upp skýin og gufubólstrana. Hraunstrauminn hefur þarna fundið sér nýja leið sunnan við fyrstu framrásina. Radartækið sem sumir nefndu eftir stjörnstríðsþjarkanum R2-D2 blikkar sínu ljósi til samlætis.

Míla 20. sept 2014
Lítið sést hér til gossins en síðdegisbirtan slær gullnum ljóma yfir gasmóðuna. Við sjáum votta fyrir gufubólstrum af hrauninu sem þarna hefur náð að jökulsánni. Glansandi R2-D2 stendur vörðinn sem fyrr.

Míla 22. sept 2014
Tveimur dögum síðar eru allt annað upp á teningnum. Það mætti halda að þetta væri dökkgrátt öskuský en svo er ekki. Þessar miklu birtuandstæður myndast þegar þéttur gufumökkurinn birgir fyrir sólskinið á móti og myndar dramatískan skugga yfir Vaðöldu.

Míla 26. okt 2014
Þessi er öllu klassískari en þarna í svartamyrkrinu er það gosið sjálft og glóandi hraunið sem lýsa upp gufubólstrana. Hraunið var á þessum tíma sífellt að finna sér nýjar leiðir meðfram suðurkanti hraunsins, sem þar með breiddi stöðugt úr sér í stað þess að lengjast.

Míla 7. des 2014
Fullt tungl eftir miðnætti og snævi þakin jörð ná hér að setja sinn svip á sjónarspilið. Hraunglóð má nú víða sjá við norðanverðan hraunkantinn. Ekki er þó um að ræða samstillt rennsli enda var hraunið aðallega að þykkna frekar en að sækja fram að einhverju ráði.

Míla 26. des 2014
Vel sést hér yfir víðfeðma hraunbreiðuna í skammdegisbirtunni. Talsverður mökkur en annars heiður himinn.

Míla 21. feb 2015
Eftir áramót var lítið um skjámyndatökur enda farið að draga úr goskraftinum og gjarnan þokusælt á hálendinu. Nokkuð ákveðið dró síðan úr gosinu nú í febrúar og þann 21. var ekki annað að sjá en smá týru upp úr holunni. Þannig leggst myrkrið yfir á ný þarna á hálendinu. Hvort eða hvenær annar kafli hefst í þessari sögu veit enginn. Ýmsir möguleikar eru vissulega í stöðunni en þeir bíða síns tíma.


Fjörið að fjara út í Bárðarbungu

Nú er um hálft ár liðið frá því atburðarásin hófst í Bárðarbungu sem leiddi til eldgossins mikla í Holuhrauni. Mjög hefur dregið úr allri virkni upp á síðkastið og spurning hvort umbrotunum fari að ljúka hvað úr hveru. Minnkandi virkni má meðal annars sjá á jarðskjálftakortum Veðurstofunnar en þar hefur allt frá því í ágúst mátt sjá stjörnumerkta jarðskjálfta yfir þremur á stærð á hverju korti og oftast marga slíka með upptök í Bárðarbungu. Nú er þessum stjörnuskjálftum farið að fækka mjög á kortunum en hvert þeirra sýnir skjálftavirkni tvo sólarhringa aftur í tímann, eða 48 tíma. Nú í morgun varð sá tímamótaatburður að enginn slíkur skjálfti var merktur inn, bara minniháttar punktaskjálftar undir þremur að stærð. Væntanlega dettur þó einhver inn fyrr en síðar, en það líður greinilega lengra á milli þeirr en áður.

Bárðarbunga 21. feb 2015

- - - -

Svo við rifjum aðeins upp upphaf atburðanna í fyrra þá hófst fjörið á fögrum sumarmorgni, sem var laugardagurinn 16. ágúst. Þá mátti sjá óvenjuþétta smáskjálftavirkni í Bárðarbungu og augljóst að eitthvað var að gerast eða allavega eitthvað kannski að fara að gerast.

Bárðarbunga 16. jan 2014

Skálftunum fjölgaði og dreifðu sér um stærri svæði og nokkrum dögum síðar voru kortin orðin æði skrautlegt, samanber þetta hér að neðan frá 20. ágúst. Auk virkni í Bárðarbungu var skjálftavirkni farin að færast í norðaustur og ljóst að kvika var á hraðferð. Skildi hún koma upp og þá hvar? Dyngjujökull lá undir grun, eða jafnvel sandarnir þar norður af.

Bárðarbunga 20. jan 2014

Þjóðin fylgdist spennt með. Á Vaðöldu norðaustur af söndunum var gott útsýni yfir vettvanginn og þar var Míla búin að snara upp vefmyndavél og þann 23. ágúst kom frá henni  þessi mynd sem sýnir ókunnan hálendiskappa með rjúkandi foksand í baksýn, en ekkert gos.

Mila 23.ágúst 2014

Sama dag og þessi mynd var tekin var haldin menningarnótt í Reykjavík og komu þá misvísandi fréttir af mögulegu gosi undir jökli sem kannski var ekki gos. Einhverjar sprungur sáust nokkru síðar í jöklinum. Ekki var ljóst hvort eitthvað væri að gerast og ekki alveg vitað um ástæðu þess sem ekki var vitað hvort að væri að gerast.

Að morgni hins 29. ágúst hófst svo loksins gos í Holuhrauni en það stóð engan vegin undir væntingum eftir allan þennan forleik og lognaðist í raun út af fyrir hádegi.

Mila 29.ágúst 2014

Var þetta allt og sumt? Nei reyndar ekki. Síðdegis sama dag og fyrsta haustlægðin herjaði á okkur með stormi og úrhelli, þann 31. ágúst, hófst svo hið eiginlega gos. Það stendur enn – eftir því sem síðast fréttist. Ég á allnokkrar Mílu-skjámyndir af því en þær munu bíða birtingar þar til í næstu bloggfærslu.

 


Um Öræfin og þegar höfundur landrekskenningarinnar kom til Íslands

Já ég las Öræfin eftir hann Ófeig og það sem meira er, ég komst léttilega í gegnum hana og hafði gaman af. Ekki nóg með það, að lestri loknum var ég á því að þetta væri einhver besta bók sem ég hafði lesið. Tíminn mun þó leiða í ljós hvort um stundarhrifningu hafi verið að ræða. Þetta er allavega hin merkasta bók sem og allt í kringum hana og gæti verið uppspretta að ýmsum bloggfærslum hjá mér. Eitt af því sem ég staldraði við og fannst merkilegt í Öræfabókinni er þar sem fjallað er um Alfred Wegener, veðurfræðing og höfund flekakenningarinnar, þar sem hann á að hafa verið staddur á Þingvöllum ásamt landmælingamanninum Kafteini Koch. Ef satt er hefur sú stund hefur verið örlagarík fyrir Wegener og vísindin, eða eins og segir orðrétt í bókinni á bls 88:

„Wegener uppgötvaði jarðflekana þegar hann stóð á Þingvöllum á snakki með Koch og horfði í Almannagjá, þeir voru að ræða kristnitökuna árið 1000 sem þarna fór fram, og aðskilnaðinn á milli heiðinna og kristinna manna, þá blöstu flekaskilin við Wegener og hugmyndin um flekakenninguna vaknaði í huga hans.“

Eins og gengur og gerist í skáldsögunum þá veit maður ekki alltaf hvað satt er og hvað er skáldað. Öræfabókin er orðmörg bók og full af útúrdúrum um ýmislegt sem tengist misvel sjálfri sögunni. En skildi það vera satt að gjárnar á Þingvöllum hafi gefið dr. Wegener hugmyndina að sjálfri flekakenningunni, eða er þetta bara saklaust skáldaleyfi?

Það er reyndar vitað að Dr. Wegener kom til Íslands árið 1912, ári eftir að hann kynnti landrekskenningu sína. Hann var þá hér staddur að undirbúa leiðangur yfir Grænlandsjökul ásamt áðurnefndum félaga sínum Koch og fleirum. Í Grænlandsleiðangrinum sem farinn var 1912-1913 notuðu þeir íslenska hesta og var það ferðalag mikil þrekraun fyrir alla. Fyrir Grænlandsleiðangurinn var farin æfingaferð á Vatnajökul og munu þeir Kogh og Wegener hafa farið þangað yfir hálendið norður frá Akureyri þar sem leiðangursskip þeirra beið. Kogh þessi er reyndar stórt nafn í landmælingasögu Öræfasveitar og skipar stóran sess í Öræfabókinni. Er eiginlega einn af miðpunktum sögunnar og örlagavaldur. Hann hafði verið skipaður af danska herforingjaráðinu 10 árum áður til að mæla upp og kanna Öræfin vegna kortagerðaverkefnisins sem þeir dönsku stóðu fyrir. Hann hafði þá einmitt notað hesta til jöklaferða og á þeim ferðum urðu til örnefni eins og Hermannaskarð og Tjaldskarð. Ferðir kafteins Koghs eru síðan fyrirmynd söguhetjunnar í Öræfabókinni sem hélt til Íslands og á jökulinn með hesta og koffort mikið sem innihélt allan búnað og bækur auk þess að vera hans íverustaður.

Alfred WegenerEn aftur að Wegener. Hann fór sem sagt í æfingaferð suður yfir Norðurhálendið og upp á Vatnajökul árið 1912. Það var ári eftir að hann setti fram landrekskenningu sína sem enginn tók mark á, enda vantaði í hana öll áþreifanleg sönnunargögn önnur en þau að strandlengjur landanna sitt hvoru megin við Atlantshafið pössuðu furðu vel saman á landakortum. Allir hugsanlegir rekhryggir voru faldir neðansjávar en þar fyrir utan þótti alveg óhugsandi að heilu meginlöndin gætu færst til sundur og saman. Þau gátu hinsvegar risið eða sokkið í sæ, eins og menn trúðu langt fram eftir 20. öld og kennt var í skólum fram undir 1980 samkvæmt minni eigin reynslu.

En þá að annarri bók sem er Hálendið eftir Guðmund Pál Ólafsson. Þar er einmitt sagt frá því á bls. 358 þegar Dr. Wegener og félagar fóru yfir hin eldbrunnu svæði Norðurhálendisins áleiðis að Vatnajökli. Þar hefði mátt halda að Wegener hefði einmitt átt að finna sönnunargögn sem styddu hans umdeildu flekakenningu. En svo fór ekki, því samviskusamur leiðsögumaður þeirra íslenskur, var einmitt svo gjörkunnugur landinu að hann gat vísað þeim leið án nokkurra farartálma í formi gliðnunarsprungna sem töfðu gátu för að jöklinum. Í bókin Hálendið segir:

„Í Ódáðahrauni var þessi snillingur staddur á slíkum rekhrygg en allt of góðir leiðsögumenn hafa eflaust valið bestu leiðina um hraunið. Hann sá aldrei sprungukerfi Ódáðahrauns og áttaði sig ekki á að hann var staddur á eina hryggjastykki Norður-Atlantshafs ofansjávar sem flekakenning hans byggðist á. Að öllu líkindum hefði saga jarðfræðinnar verið önnur ef Wegener hefði fetað hina fornu Biskupaleið eða lent í ógöngum Veggjastykkis. Þá hefði kenning hans líklega aldrei verið kaffærð í hartnær hálfa öld.“

Í Hálendisbók Guðmundar Páls er hinsvegar ekkert talað um upplifum Dr. Wegeners á Þingvöllum áður en hann setti fram flekakenningu sína árið 1911, hvað þá að hann hafi fengið hugmyndina að henni hér á landi eins og kemur fram í skáldsögu Ófeigs og ekkert yfirleitt um að hann hafi komið til Íslands fyrr en árið 1912. Maður veit þó ekki hvað er satt og rétt. Annað hvort var Ísland einmitt kveikjan að flekakenningunni eða þá að hann hafi í Íslandsferð sinni einmitt farið á mis við það sem vantaði til að styðja kenningar hans, sem voru langt á undan sinni samtíð. Báðar útgáfur sögunnar eru góðar en ég hallast þó frekar að því að í skáldsögu Ófeigs sé sannleikanum aðeins hnikað til í þágu skáldskaparins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband