Tíðindi af sjávarhitum

Sjávarhiti hefur verið eitt af hitamálunum í loftslagsumræðum einkum þá vegna skrifa um að Golfstraumurinn gæti verið að veikjast. Hvort það eigi við rök að styðjast, veit ég ekki en hér kemur alheimskort yfir sjávarhita sem sýnir stöðuna á hita yfirborðssjávar að viðbættu smá kroti frá mér. Heitu litirnir tákna að sjór er hlýrri en að meðaltali, en köldu litirnir tákna kaldari sjó og er þá tímabilið 1971-2000 haft til viðmiðunar.

Sjávarhiti mars 2015

Þarna má sjá, svo við við byrjum á okkar slóðum, að nokkuð myndarlegur blettur af köldum yfirborðssjó hefur náð bólfestu á hafssvæðinu suðvestur af íslandi. Þetta sætir nokkrum tíðindum og gæti verið vísbending kaldari tíð hér við land en verið hefur um allnokkuð skeið. Best er þó að fullyrða sem minnst um það, en síðustu 15 ár hafa reyndar verið mjög hlý hér við land og því ekkert óeðlilegt að eitthvert bakslag geti orðið.

En er þetta vísbending um veikari Golfstraum? Ég er ekki svo viss um það. Síðustu tvo vetur hafa verið töluverðar vetrarhörkur í austurhluta N-Ameríku og ekki óeðlilegt að það kalda heimskautaloft kæli Atlantshafið þegar það streymir burt frá meginlandinu og leggur um leið grunninn að stormlægðum og útsynningstíðinni sem við fáum að kenna á.

Ýmist athyglisvert er svo einnig að gerast á Kyrrahafinu og skal þar fyrst nefna veikburða El Nino sem hefur verið að burðast við að ná sér á strik á síðan í fyrravetur. Það hlýja ástand á miðbaugssvæði Kyrrahafsins er oftast ávísun á hnattræn hlýindi og svo er einnig nú. Eins og komið hefur fram þá marði árið 2014 það að vera hlýjasta árið hnattrænt séð síðan mælingar hófust og vel gæti farið að 2015 bæti um betur.

Svo er það Norður-Kyrrahaf en þar hef ég merkt inn hlýjan fasa af PDO (Pacific Decatal Oscillation) en það er nokkuð athyglisvert fyrirbæri sem ég hef stundum minnst á. Hlýr fasi á PDO einkennist akkúrat af því sem kemur fram þarna á kortinu, þ.e. hlýr sjór sem myndar skeifu út frá vesturströnd N-Ameríku en kaldur blettur ræður ríkjum á miðsvæðinu nær Asíu. Kaldi fasinn er svo alveg öfugur. Þessi hlýi fasi er nokkuð afgerandi um þessar mundir og hefur reyndar ekki verið eins afgerandi síðan fyrir aldamót. Það sem af er þessari öld hefur nefnilega kaldi PDO verið meira ríkjandi. PDO-sveiflurnar eru ágætlega þekktar og eru greinilegar á áratugaskala eins og sést á línuritinu hér að neðan:

PDO 1900-2015

Það hefur oft verið bent á, þótt samhengið sé óljóst, að PDO-áratugasveiflan í Kyrrahafinu fari saman við það hversu mikið eða lítið hlýnar á jörðinni. Þetta sé því ein af hinum náttúrulegum sveiflum sem ýmist ýta undir eða draga úr þeirri hlýnun jarðar sem annars ætti að vera í gangi. Vissulega er þó alltaf spurning um hvað sé orsök og hvað sé afleiðing. Allavega þá hefur lítið hlýnað á jörðinni í kalda PDO-fasanum eftir 1998, kannski þar til nú. Aftur á móti hlýnaði hratt á árunum 1976-1998 þegar PDO var hlýr eins og hann er skyndilega orðinn nú. Áratugina þar á undan (1945-1975) hlýnaði eiginlega ekki neitt á jörðinni, kólnaði ef eitthvað er og viti menn, PDO-var einmitt mjög svo í kalda fasanum þá. Línuritið yfir hitaþróun jarðar staðfestir það.

Hnatthiti 1900-2015+PDO

Þannig að. Ef þetta hlýja PDO ástand er komið til að vera um skeið, þá ætti heldur betur að fara að hlýna á jörðinni enda virðist hlýr PDO í Kyrrahafinu frekar stuðla að hlýjum El Ninjóum og fækka köldu systurinni La Nínu. Við hér á Íslandi gætum þó farið á mis við þá hlýnun á komandi misserum. En kannski þó ekki, kannski verður þetta allt alveg öfugt. Framtíðin er alltaf jafn ófyrirséð.

Til nánari glöggvunar vísa ég hér á útlensk PDO-skrif frá því í fyrra þar sem komið er inn á þetta. Er að vísu ekki búinn að lesa þetta allt sjálfur. Ath. Inngangurinn er ekki alveg "up-to-date": Warming may spike when Pacific Decadal Oscillation moves to a positive phase

 


Tvö bestu íslensku dægurlög 21. aldar

Það má alveg leyfa sér smá fullyrðingasemi í fyrirsögnum en samkvæmt mínum eigin dómsúrskurði eru það tvö íslensk dægurlög sem ég vil nefna sem þau bestu sem út hafa komið það sem af er 21. öldinni. Þetta þarf þó ekki að vera endanlegt mat hjá mér. Kannski verð ég á annarri skoðun á morgun og sjálfsagt og vonandi eiga jafn góð eða betri dægurlög eftir að dúkka upp síðar. Dægurlög eru líka bara dægurlög sem eiga að létta manni lífið innan um dægurþrasið. Nóg er annars af þrasinu, ekki síst í bloggheimum og ekki viljum við eintómt tuð, það þarf líka að vera stuð, líka smá sveifla og góður fílingur. En vindum okkur þá í músikkina.

Fyrra lagið sem ég kynni til sögunnar er lagið Glúmur með hljómsveitinni Sprengihöllinni sem sló heldur betur í gegn árið 2007 með hverri snilldinni á eftir annarri. Höfundur lagsins er RíóTríó sonurinn Snorri Helgason sem jafnframt syngur lagið og er skrifaður fyrir textanum ásamt Bergi Ebba Benediktssyni, sem uppskar íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textagerð í kjölfar útgáfu fyrstu plötunnar þar sem umrætt lag er að finna. Glúmur er svo sem enginn gleðivísa. Þetta er harmrænt kaldhæðið rokklag en um leið grátbroslegt lag um mann sem fittaði ekki alveg inn í samfélagið en fór víða. Mann sem „drakk í sig lífið“ eins og segir í textanum og kynntist bæði Geirfinni og Ciesielski „var með þeim báðum í Breiðuvík.“ Glúmur þessi er þó sjálfsagt uppskálduð persóna sem og annað sem viðkemur textanum. Við eigum álíka sönglög frá fyrri tíð um undirmálsmenn eins og Minning um mann og Gvend á Eyrinni en hér er þó allt af tragikómískara taginu. Harmræn söngrödd Snorra Helga hæfir tilefninu. Stutt er þó í léttleika og spilagleði sem skilaði sér vel beinni útsendingu í Kastljósinu, þaðan sem upptakan er fengin.



Þá er það seinna lagið sem er með hinni geðþekku og mannmörgu hljómsveit Ojba Rasta. Það er þó ekkert ojbarasta við lagið sem ber nafnið Baldursbrá en þar er meðal annars minnst á „fiðrildi í hvirfilbyl“ og „ást á almættið“. Höfundur lags og texta er Arnljótur Sigurðsson sem jafnframt sér um sönginn í þessu lagi. Eins og sjálfsagt aðrir í hljómsveitinni er hann fjölhæfur tónlistamaður sem hefur auk þess áhuga á vísindum og skák, eftir því sem heimildir herma. Hljómsveitin Ojba Rasta er að vísu ekki til lengur en hún fiktaði mjög við Raggí-taktinn með góðum árangri eins og reyndar fleiri. Nafn hljómsveitarinnar er vísun í Rastafari hreyfinguna sem er grundvöllur Raggie-menningarinnar á Jamaica og þar tilbáðu menn keisarann og ljón Afríku, Haile Selassie sem ríkti í Eþíópíu á fyrri öld. Til að hlýða á lagið hef ég kosið að spila lagið eins og það kemur af skepnunni en það má einnig finna „læf“ í upptöku úr Kastljósinu ef einhver vill. Hinsvegar er plötuumslagið skemmtilegt þar sem maður með ljónshöfuð situr á íslenskum hesti. Takið einnig eftir fjöllunum sem ættuð eru frá Hornafirði og frumskóginum sem gjörður er úr spergilkáli.


Kanar í staðbundinni kuldasúpu

Það fer ekki á milli mála að kalt hefur verið víða í Norður-Ameríku. En hversu víðtækir eru þessir kuldar? Ekki svo miklir eða eiginlega bara mjög litlir eins og sjá má á þessu korti sem sýnir frávik af meðalhita á hverjum stað. Í heildina hefur verið hlýtt á jörðinni fyrir utan þennan kalda blett í vestri og flest sem bendir til þess að hlýtt verði áfram á jörðinni og jafnvel enn hlýrra en var í fyrra. Sjáum þó til með það.

Heimshiti feb 2015

Þótt Ameríkanar margir hverjir hafi setið í kuldasúpunni þá flæðir sú súpa ekki víða, helst að við hér fáum smjörþefinn í útsynningnum. Talsvert hlýrra en venjulega hefur verið í Skandinavíu, Síberíu, Alaska og annarsstaðar á Kyrrahafsströnd N-Ameríku að ógleymdu sjálfu N-Íshafinu. Reyndar er það svo að hafísinn á Norðurhveli er með allra minnsta móti núna miðað við árstíma en þetta er annars sá árstími sem ísinn er í hámarki á Norðurhveli. Hvort það hafi eitthvað að segja þegar kemur að sumarbráðnun mun koma í ljós síðar eins og annað. Hér að neðan má sjá hvernig hafískúrfan lítur út núna um hávetur samkvæmt Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni. Útbreiðslan er greinilega undir meðallagi og mun minni núna en hún var veturinn fyrir metlágmarkið, sumarið 2012.

Hafís 7. mars 2015


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband