Hafíslágmark á Norðurslóðum

Nú bendir allt til þess að hinu árlega hafíslágmarki á Norðurslóðum hafi verið náð enda sólin það lágt á lofti að hún megnar ekki lengur að vega á upp móti hitaútgeislun lofts og sjávar þarna norður frá. Dagsetning sjálfs lágmarksins mun vera 8. september að þessu sinni sem er frekar í fyrra fallinu en annars er algengast að lágmarkið sé einhverntíma um miðjan mánuðinn. Það er þó allur gangur á þessu eins og með sjálft hámarkið að vetralagi sem í ár var óvenju snemma á ferðinni og auk þess með allra lægsta móti frá upphafi nákvæmra gervitunglamælinga árið 1979.

Hafíslágmarkið 2015 mun vera það fjórða lægsta í útbreiðslu talið. Mjög svipað árinu 2011 en dálítið fyrir ofan fyrrum metári 2007 þegar ísinn hélt áfram að bráðna fram í seinni hluta september. Árið 2012 heldur enn lágmarksmetinu með miklum glans en hinsvegar er útbreiðslan í ár mun minni en í lágmörkunum 2013 og 2014. Ísinn er því alls ekki að aukast og ekki heldur að slá nýtt lágmarksmet en sögulegheit fara þó alltaf eftir því hvað menn vilja miða við. Umrædd ár eru borin saman á mynd sem unnin er útfrá á línuriti National Snow and Ice Data Center.

Hafíslágmark 2015

Línuritið sem vísað er í er gagnvirkt og er hægt að bera saman hvaða ár sem er. Einnig er hægt að kalla fram kort með hafísútbreiðslu hvaða dag sem er aftur í tímann. Til nánari glöggvunar hef ég sett saman mynd með hafíslágmörkum sex valinkunnra ára frá 2000 til 2015 sem gefur smá sýnishorn af þróuninni.

Nokkur hafíslágmörk

Á kortinu fyrir árið 2000 má sjá hvernig staðan var rétt um aldamót en þá var lítið um opin höf á N-Íshafinu í sumarlok. Ísinn hafði þó minnkað frá fyrri árum og almennt reiknað með að N-Íshafið gæti orðið íslaust á seinni hluta þessarar aldar. 2007 var mikið tímamótaár en þá voru aðstæður afar hagstæðar til að bræða ísinn auk þess sem mikið af þeim ís sem ekki bráðnaði barst suður með Grænlandi. Þarna fór mönnum að verða ljóst að ísinn gæti horfið í lok sumars mun fyrr en áður var talið, jafnvel á nokkrum árum. Ísinn náði þó að jafna sig eitthvað á ný en útbreiðsla ársins 2011 varð síðan sú önnur lægsta frá upphafi. Annað tímamótaár varð svo 2012 þegar ísinn bráðnaði mikið á alla kanta og þynntist mjög. Aftur braggaðist ísinn næstu tvö ár og árið 2014 var greinilegt að ísinn væri ekki á förum alveg á næstunni. Nú árið 2015 hefur ísinn minnkað á ný og orðinn álíka og hann var í sumarlok 2011 sem var einmitt árið á undan metárinu mikla.

Hvað gerist á næstu árum veit ég ekki enda er ég frekar illa að mér í framtíðinni. Það er allavega ljóst að hlutirnir geta breyst mjög á örfáum árum. Þannig gæti ísinn allt eins verið horfinn að mestu í sumarlok eftir tvö ár ef réttar aðstæður skapast, á hinn bóginn gæti ísinn allt eins átt það til að aukast á ný og lifað ágætu lífi langt fram eftir öldinni. Þessi óvissa gerir hlutina bara meira spennandi að fylgjast með, hafi maður á annað borð áhuga á þessu.

- - -

Heimildir og nánari upplýsingar: http://nsidc.org/arcticseaicenews


Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík

Nú þegar aðal-sumarmánuðirnir er að baki er komið að því að skoða hvernig sumarið plummaði sig hér í Reykjavík miðað við fyrri sumur. Til grundvallar eru mínar eigin veðurskráningar en aukaafurð út frá þeim er einkunnakerfi þar sem hver dagur fær sína einkunn á skalanum 0-8 út frá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Mánaðareinkunnir reiknast út frá meðaltali allra daga og sumareinkunnin sömuleiðis. Þannig get ég borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum sem ná allt aftur til ársins 1986.

Að þessu sinni fær sumarveðrið í Reykjavík 2015 fær einkunnina 4,90 sem er bara nokkuð gott þó ekki sé það í sama stjörnuflokki og þau allra bestu. Nýliðið sumar var reyndar með allra besta móti í Reykjavík og nágrenni miðað við aðra landshluta, sérstaklega Norður- og Austurland þar sem sumarið var næstum eins ómögulegt og það getur orðið. Þannig er það bara, veðurgæðum er oft misskipt hér á landi og að þessu sinni hafði suðvesturhornið vinninginn.
Hæsta einkunnina frá upphafi fær sumarið 2009: 5,37. Sumarið 1989 er það lakasta með 4,10 stig en meðaleinkunn allra sumra er 4,74. Niðurstöðum má taka með fyrirvara enda miðast einkunnir bara við mitt skráningarkerfi en svona á heildina litið ætti þetta að gefa ágætis vísbendingar. Að sjálfsögðu kemur hér súlurit yfir niðurstöður og undir því er stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá 1986.

Sumareinkunnir

Stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá árinu 1986. Tek fram að aðallega er hér miðað við mitt heimapláss, Reykjavík, nema annað sé tekið fram.
1986 4,46 Júní var dimmur, kaldur og blautur suðvestanlands en júlí og ágúst öllu betri.
1987 4,73 Sólríkt og þurrt í júní og ágúst, en júlí var sólarlítill og blautur.
1988 4,30 Afar slæmur júnímánuður og einn sá sólarminnsti í Reykjavík. Júlí var ágætur en ágúst ekkert sérstakur. Óvenjumikið þrumuveður suðvestanlands þann 10. júlí.
1989 4,10 Júlí brást algerlega og var sá sólarminnsti sem mælst hefur í Reykjavík auk þess að vera kaldur. Júní og ágúst voru einnig frekar svalir er skárri að öðru leyti.
1990 4,50 Lítið eftirminnilegt sumar sem var í slöku meðallagi. Reykjavíkurhitinn í júlí var þó sá hæsti í 22 ár.
1991 4,93 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.  
1992 4,37 Sumarið ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 4,70 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí en þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 4,80 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 4,33 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 4,63 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 4,80 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 4,93 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 4,60 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 4,77 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt fyrir norðan og austan.
2001 4,70 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 4,57 Júní var hlýjasti mánuðurinn að þessu sinni. Hitinn náði þá 22 stigum sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 4,80 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 5,13 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet var þá sett í Reykjavík: 24,8 stig.
2005 4,73 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 4,47 Sumarið var þungbúið og blautt suðvestanlands framan af en rættist heldur úr því er á leið.
2007 5,13 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 4,90 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög blautt í lok ágúst. Enn var slegið hitamet í Reykjavík, nú í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 5,37 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands, sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 5,13 Eitt hlýjasta sumar í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
2011 5,03 Sumarið byrjaði heldur kuldalega, sérstaklega norðaustanlands. Annars yfirleitt bjart og þurrt suðvestanlands.
2012 5,33 Mjög gott sumar víðast hvar. Sólríkt, þurrt og hlýtt. Óvenjudjúp sumarlægð kom suður að landi 22. júlí.
2013 4,37 Mikið bakslag í veðurgæðum sunnan- og vestanlands. Ágætis kafli seinni hlutann í júlí bjargaði þó miklu.
2014 4,73 Nokkuð blautt fram yfir mitt sumar og fáir sólardagar. Júní var þó með þeim allra hlýjustu. Ágúst nokkuð góður en endaði með óveðri í lok sumars.
2015 4,90 Ágætt sumar suðvestanlands en óvenju slæmt norðanlands og austan. Júní fremur kaldur í borginni framan af en annars var hitinn nærri meðallagi. Þurrt og nokkuð bjart var fram í miðjan ágúst þegar tók að rigna. Stuttur hlýindakafli kom seint í ágúst. Snjór var lengi að hverfa víða á hálendinu og allnokkrir skaflar í Esju lifðu sumarið.

Þannig er það. Því má svo bæta við að september hefur farið vel af stað norðan- og austanlands sem er nokkur sárabót fyrir sumarið þar. Annars er september ekki talinn með hér þótt hann sé almennt talinn til sumarmánaða. Það á þó ekki við um þetta yfirlit enda fer venjulega verulega að halla að hausti þegar líður á mánuðinn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband