Óvenjuleg veðurskráning og upphaf 30 ára kuldaskeiðsins

Í mínum 30 ára veðurskráningum hef ég fært til bókar ýmsar gerðir af veðurlagi enda má segja að hér á landi ríki fjölbreytnin ein með miklu úrvali af misvinsælum veðrum. Fjölbreytnin er þó mismikil og stundum vill veðrið festast í ákveðnum einstrengingshætti dögum eða vikum saman. Þessi fyrri partur októbermánaðar hefur einmitt verið þannig og fer veðurdagbókin ekki varhluta af því eins og sjá má hér á myndinni.
Veðurdagbók okt 2016
Ég geri annars ekki mikið að því að birta sýnishorn af veðurskráningum mínum en óvenjulegheitin undanfarið gefa þó tilefni til þess. Skráningin á að sýna einskonar meðalveður hvers dags samkvæmt dagsetningunni í fyrsta dálki. Eins og örvarnar sýna, aftan við veðurlýsingu, þá hefur vindur staðið af suðri eða suðaustri alla daga mánaðarins og oftar en ekki með strekkingi eins og tvöföldu örvarnar bera með sér. Þetta hafa verið hlýir og rakir vindar með hita upp á 8-12 stig sem út af fyrir sig er mjög gott á þessum árstíma. Sjálfur skilgreini ég daga sem ná 9 stigum, fyrri hluta október, sem hlýja og það skýrir hringina fyrir aftan hitatölurnar, sem síðan hefur áhrif á einkunn dagsins í aftasta dálki sem er á skalanum 0-8.

Það lýtur loksins út fyrir að lát verði á þessum sunnanáttastrekkingi, allavega í bili. Eitthvað mun því kólna þó ekki sé kuldatíð sjáanleg í spákortum. Með þessum hlýindum ætti meðalhiti mánaðarins í Reykjavík að enda vel fyrir ofan meðallag og gæti jafnvel blandað sér í baráttuna um efstu sætin. Spurning er einnig með vindinn sé á annað borð keppt í því. Sólarhringsmeðalhiti fyrstu 13 dagana er hátt í 10 stig hér í Reykjavík en til samanburðar er meðalhiti október síðustu 10 ára 4,8 stig, og er þá miðað við allan mánuðinn. Meðalhitinn í október í Reykjavík fer afar sjaldan yfir 7 stig. Furðuhlýtt var í október 1915, 7,9 stig, og svo var hann 7,7 stig árin 1946 og 1959. Meðalhitinn í október 1965 var 7,0 stig og hefur ekki farið hærra síðan.

Veðurkort 13. okt

Talandi um hinn hlýja október 1965 þá var Trausti okkar Jónsson að líkja veðurlagi þess mánaðar við það sem nú hefur ríkt, með háþrýstisvæði í austri sem beinir hingað sunnanhlýindum með strekkingsvindi og úrkomu. Sjálfur vil ég bæta við, fyrir kuldaáhugamenn, að veturinn sem fylgdi í kjölfarið var kaldur og með hæfilegri nákvæmni má segja að ekki hafi farið að hlýna aftur fyrr en 30 árum síðar. Októbermánuður 1965 markar samkvæmt þessu, lok hlýindaskeiðsins sem staðið hafði í nokkra áratugi og við tók vetur sem stendur ágætlega sem upphaf 30 ára kuldaskeiðsins. En auðvitað er ekkert þar sem sagt í þessu. Framtíðin er alveg jafn óljós sem fyrr, hvað veðrið varðar.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband