Kötluskjálftar

Kötluskjálftar Skelfir

Eldstöðin Katla minnir á sig öðru hvoru með skjálftum eða stöku hlaupum án þess að almennileg umbrot eigi sér stað, en miðað við fyrri hegðun þá ætti Katla að hafa gosið fyrir nokkrum áratugum. Á síðustu 15-20 árum hefur margt þótt benda til að loksins gæti eitthvað alveg farið að gerast. Meira segja að hafa völvuspár tekið undir það þótt slíkir spádómar hafi verið orðaðir á sífellt varfærnari hátt með tímanum.
Fyrirboðar eldgosa eru nokkrir en mesta athygli fá jarðskjálftarnir enda benda þeir iðulega til óstöðugleika í jarðskorpunni. Forleikur Kötlugosa er svo sem ekki mikið þekktur en eldstöðin er annars nokkuð skjálftavæn að öllu jöfnu og því ekki óeðlilegt að ætla að skjálftum fjölgi mánuðina eða vikurnar fyrir gos - enda eru menn sífellt á nálum þegar slíkar hrynur ganga yfir.

Að þessu sögðu kemur hér línurit sem ég hef teiknað upp eftir skjálftagröfum sem finna má á vef Veðurstofunnar. Myndin sýnir fjölda skjálfta í Mýrdalsjökulsöskjunni og Goðabungu sem eru hluti af Kötlueldstöðinni en einnig sést fjöldi skjálfta í nágrannaeldstöðinni Eyjafjallajökli. Hver punktur á línuritinu sýnir uppsafnaðan fjölda á 12 mánaða tímabili og þar skal haft í huga að skil milli tímabila er 1. maí ár hvert og því eru aðeins liðnir tæpir 7 mánuðir af þessu skjálftaári. Rauða brotalínan er því einskonar áætlun um hvert stefnir næsta vor í Mýrdalsjökulsöskjunni með sama áframhaldi.

Kötluskjálftar

Eins og sést þá voru skjálftar undir Goðabungu ansi tíðir á árunum 2002-2004 með tilheyrandi gosóróa meðal jarðfræðinga sem og almennings. Goðabunga er vestarlega í Mýrdalsjökli og eiginlega ekki hluti af Kötluöskjunni og því ljóst að þetta voru ekki alveg hefðbundnir atburðir sem aðdragandi venjulegs Kötlugoss. Hugmyndir um svokallaða gúlamyndun undir jöklinum komu fram eða jafnvel að þetta hafi bara verið jökulhreyfingar. Hvað sem þetta var þó gaus ekki upp úr jöklinum.

En svo kom gos, nema bara ekki í Kötlu. Eyjafjallajökull stal nefnilega senunni. Skjálftar þar jukust mjög í byrjun árs 2010 uns hið heimsfræga gos kom þar upp um vorið. Eins og við munum átti gosið í Eyjafjallajökli bara að vera forsmekkurinn að því sem koma skyldi því í ljósi sögunnar var Katla talin líkleg til eldgoss í strax kölfarið. “You ain't seen nothing yet” eins og einhver sagði.

Sumarið 2011 fjölgaði skjálftum mjög í Mýrdalsjökulsöskjunni og vísbendingar eru um að þá hafi gosið undir jökli. Ekkert var þó að sjá nema einhverja sigkatla og hlaup sem reyndar tók af brúna yfir Múlakvísl. Eitthvað gæti þó hafa breyst í Kötlu eftir gosið í Eyjafjallajökli. Þótt eitthvað hafi róast eftir óróleikann í Kötlu árið 2011 þá voru skjálftar áfram viðvarandi og á þessu ári hefur skjálftum farið mjög fjölgandi og þá sérstaklega með hrinunni um mánaðarmótin sept-okt.
Þegar þetta er skrifað hafa 1800 skjálftar mælst síðan 1. maí í vor og með sama áframhaldi gæti fjöldinn verið kominn upp í 3000 í lok skjálftaársins. Kannski eitthvað fari loksins að gerast þarna – á næsta ári kannski? Best er reyndar að stilla væntingum í hóf, allavega er ágætt bíða og sjá til dæmis hvað Völva Vikunnar hefur að segja. Aldrei er þó að vita nema önnur eldfjöll troði sér fram fyrir í röðinni, eina ferðina enn. Hekla er víst alltaf í startholunum líka.

- - - -

Heimildir: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_num.html

Skjálftakortið efst er skjámynd tekin af Skelfir.is


Allskonar hitasveiflur

Allt stefnir í að 2016 verði hlýjasta árið á jörðinni frá upphafi beinna mælinga. Stór ástæða þessara hlýinda er mjög öflugt El Nino ástand á Kyrrahafinu sem náði hámarki síðasta vetur en vissulega leggjast hlýindin samfara því ofaná almenna hlýnun jarðar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum sem sér ekki fyrir endann á. Hvernig sem það fer allt saman þá er ekkert launungarmál að hitasveiflur hafa einkennt sögu jarðar frá upphafi en sú saga geymir bæði miklu hlýrri og kaldari tímabil en við búum við í dag.

Ýmsar langtíma- og skammtímaástæður eru fyrir því að hiti jarðar er ekki alltaf sá sami og koma þar við sögu allskonar náttúrulegar aðstæður og sveiflur af ýmsum toga. Það er einmitt það sem ég hef reynt að taka saman hér á eftir eftir minni bestu getu í stuttu máli og raðað eftir tímalengd.

Allskonar

Milljarðar ára. Aldurstengd virkni sólar sem nú er miðaldra sem sólstjarna. Orka sólar hefur aukist á æviskeiði hennar og verður svo áfram  sem þýðir að jörðin á eftir að verða of heit til að halda uppi lífi. Óðaútþensla  á sér stað eftir aðra 5 milljarða ára og mun hún þá gleypa innstu reikistjörnurnar. Eftir að sólin hefur lokið æviskeiði sínu fellur hún saman og verður að hvítum dverg. Heljarkuldi verður þá framvegs á jörðinni, lifi hún af umskipti sólarinnar.
Milljónir ára. Jarðsögulegar ástæður. Rek meginlanda veldur ýmsum breytingum ekki síst vegna áhrifa á hafstrauma. Þá skiptir einnig máli hvernig og hvort meginlöndin liggja að pólunum eða nálægt miðbaug. Síðasta stóra breytingin í þessa veru er tenging Norður- og Suður-Ameríku með Panamaeyðinu fyrir nokkrum milljónum ára en í kjölfar þess breyttust hafstraumar, jökulís fór að myndast á pólunum og í framhaldi af því, ísaldartíminn með vaxandi jökulskeiðum.
Þúsundir ára. Afstöðusveiflur jarðar gagnvart sólu eða hinar svokölluðu Milancovitch-sveiflur sem ganga yfir á tugþúsundum ára eða meir. Braut jarðar sveiflast á milli þess að vera regluleg eða sporöskjulaga á um 100 þúsund árum. Halli jarðar sveiflast til og frá á 41 þúsund árum og pólveltan er 21 þúsund ára skopparakringlusveifla sem ræður því hvort norður- eða suðurhvel er nær jörðu t.d. að sumarlagi. Samspil þessara sveiflna hafa skipt miklu máli á síðustu ármilljónum vegna þess hversu tæpt er að ísaldarástand ríki á norðurhveli eða ekki. Staðan er hagstæð núna enda erum við á hlýskeiði á milli jökulskeiða.
Áratugir/Aldir. Óreglulegur breytileiki í virkni sólar. Gæti útskýrt kuldaskeið á borð við litlu ísöld og ýmis hlýskeið á sögulegum tímum. Mannfólkið getur fundið fyrir slíkum breytingum á æviskeiði sínu. Sólin var með öflugara móti á síðustu öld en teikn eru á lofti um minni virkni á næstu áratugum. Breytileikinn í heildarvikni sólar er þó ekki nema eitthvað um 0,1%
Áratugir. Ýmsar sveiflur í virkni hafstrauma en alls óvíst er hversu reglulegar þær eru. Hér við land hefur verið talað um AMO sem er nú í hlýjum fasa en gæti snúist yfir í neikvæðan eftir einhver ár. Einnig eru uppi hugmyndir um slíkar áratugasveiflur í Kyrrahafinu og víðar.
10-13 ár. Reglulegar sveiflur í virkni sólar og tengjast sólblettahámörkum, oftast talað um 11 ára sveiflu. Um þessar mundir er niðursveifla og sólblettalágmark framundan sem gæti haft lítilsháttar áhrif til kólnunar.
1-7 ár. ENSO-sveiflurnar í Kyrrahafi, þ.e. El Nino og La Nina sem hafa víðtæk veðurfarsleg áhrif víða um heim. Ekki reglulegar sveiflur en búast má við að kalda eða hlýja ástandið komi allavega upp einu sinni á um það bil sjö ára tímabili. Mjög öflugt El Nino ástand er að baki sem á stóran þátt í því að meðalhiti jarðar hefur ekki mælst hærri en á þessu ári og jafnframt er nokkuð ljóst að meðalhiti næsta árs á jörðinni verður eitthvað lægri.
12 mánuðir. Árstíðasveiflan hin eina sanna og sú sveifla sem algerlega er hægt að stóla á. Orsakast af halla jarðar og göngu jarðar umhverfis sólu á rúmum 365 dögum.
Dagar. Óreiðuheimar veðursins koma hér við sögu en lúta þó sínum fjölmörgu lögmálum. Meðalhiti jarðar sveiflast þannig lítillega frá degi til dags eftir því hvernig vindar blása. Svæðisbundinn breytileiki er auðvitað mun meiri og gjarnan eru hlýindi á einu svæði ávísun á kulda annarstaðar.
24 klukkutímar. Þessi síðasti liður snýst um að jörðin snýst um sjálfa sig og sólin því ýmist ofan eða neðan sjóndeildarhrings á hverjum stað með tilheyrandi dægursveiflu. Þetta gildir þó ekki við pólana þar sem sólin er nánast jafn hátt á lofti innan hvers sólahrings.

Ofan á þessar sveiflur bætast við allskonar atburðir sem hafa áhrif til kólnunar eða hlýnunar til lengri eða skemmri tíma og má þar nefna eldgos og árekstra loftsteina. Sumir atburðir hafa verið örlagaríkir og leitt til varanlegra breytinga og fjöldaútdauða dýrategunda sem kunnugt er. Gróðurhúsaáhrif hafa alltaf verið mjög mismikil í gegnum tíðina og oft meiri en þau eru í dag. Breytingar á magni gróðurhúsalofttegunda hafa þó fram að þessu verið afleiðing breyttra aðstæðna af ýmsum fyrrnefndum ástæðum en ekki frumorsökin sjálf. Spurning er þá hvernig skal skilgreina nútímann. Lifnaðarhættir mannsins hér á jörðinni eru stundum skilgreindir sem ein af stóru náttúruhamförunum sem ekki sér fyrir endann á. Aukin gróðurhúsaáhrif fá þar mestu athygli enda er hinn mikli eldsneytisbruni nútímamanna atburður sem á sér ekki fordæmi og mun óhjákvæmilega leiða til hlýnunar jarðar næstu áratugi eða aldir. Sú hlýnun verður þó alltaf eitthvað trufluð eða mögnuð af þeim náttúrulegum atriðum sem hefðu átt séð stað hvort sem er.


Mánaðarhitasúluritið að loknum október

Að loknum þessum afar hlýja októberbermánuði er varla hægt annað en að taka stöðuna á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík. Ef þetta væru kosningaúrslit þá væri nýliðinn október ótvíræður sigurvegari hvað aukningu varðar og þá ekki bara í Reykjavíkurkjördæmi heldur einnig á landinu í heild. Annars sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár og eins og sjá má er októberhitinn í ár við það sem gengur og gerist í september. Meðalhitinn í Reykjavík að þessu sinni var 7,8 stig sem er þó ekki alveg met, því örlítið hlýrra var 1915, 7,9 stig. Hinsvegar var þetta metmánuður þegar kemur að úrkomu enda var hún mikil. Spurning er með vindinn, en samkvæmt óopinberum og ónákvæmum skráningum í eigin veðurdagbók, var þetta lang-vindasamasti október frá því eigin skráningar hófust árið 1986. Nánar um það í síðustu bloggfærslu.
Reykjavíkurhiti 2016 - 10 mánuðir
Nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu eru línur farnar að skýrast varðandi ársmeðalhitann. Fjólubláu tónuðu súlurnar tvær lengst til hægri á myndinni eiga að sýna það. Sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu 61-90 fæst ársmeðalhitinn 5,5 stig, en sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum má gera ráð fyrir 5,7 stiga meðalhita. Hvort tveggja telst vera mjög hlýtt. Árshitamet er þó varla líklegt. Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 (6,1°C) en mér reiknast svo til að meðalhitinn það sem eftir er þurfi að vera hátt í 4°C svo það náist. Hinsvegar er alveg öruggt að þetta ár verður mun hlýrra en árið í fyrra (4,5°C, græn súla). Það var reyndar kaldasta árið af þeim fáu sem liðin eru af öldinni eða það minnst hlýja, eftir því hvernig menn vilja orða það því hér hefur ekki komið kalt ár síðan 1995 (3,8°C).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband