Óheppilegir nágrannar á tónleikum

Í þessari lokabloggfærslu ársins er mál til komið að tuða svolítið sem er nokkuð sem ég geri alltof lítið af á þessum vettvangi. Ég er ekki mikill spekingur á klassíska tónlistarsviðinu en fer öðru hvoru á slíka tónleika til að hlusta á uppáhaldsverkin og sjá þau flutt milliliðalaust við bestu aðstæður. Til að ná hinu hárfína sambandi við æðri tónlist þá gildir auðvitað að tónleikagestir hafi hljótt um sig og sitji sem prúðastir í sínum sætum, sem þeir gera langflestir – en ekki allir. Ég veit ekki hvort ég sé óvenju óheppinn eða óvenju viðkvæmur fyrir öðru fólki á tónleikum en allavega hef ég furðu oft á síðari tímum lent við hliðina á, eða nálægt fólki, sem hefur dregið að sér athygli mína í meira mæli en góði hófi gegnir og frá því sem ég kom til að fylgjast með og njóta. Hér mun ég telja upp helstu slík atvik sem ég man eftir.

Fyrst skal minnast tónleika fyrir þó nokkrum árum þegar Háskólabíói var ennþá aðaltónleikahúsið. Þangað var ég kominn til að hlýða á hina miklu og löngu 5. sinfóníu Gustavs Mahlers, sem ég hef dálæti á. Eftirvænting mín var mikil, en á undan sjálfu verkinu var leikið stutt verk sem ég man ekki hvað var en athygli mín fór mest í óheppilega neföndun mannsins sem ég lenti við hliðina á. Sessunautur minn átti sem sagt við einhver þrengsli í nefi að stríða sem komu út sem regluleg blísturshljóð við útöndun. Ég sá fram á að þurfa að búa við þennan aukaflautuleik við hlið mér alla tónleikana en til allrar hamingju var gert hlé strax eftir stutt upphafsatriðið og þar sem ekki var alveg uppselt gat ég komið mér fyrir annarsstaðar í salnum eftir hlé, fjarri nefflautuleikaranum og gat notið verksins sem ég var kominn til að hlýða á, sem betur fer!

Víkur þá sögunni að tónleikum í Hörpu þar sem ég var mættur, aðallega til að fylgjast með 5. píanókonsert Beethovens leikinn af Víkingi Heiðari. Önnur tónverk voru einnig á efnisskránni. Allt gott og blessað nema hvað í sætaröðinni beint fyrir framan mig sat ungt par og var maðurinn öllu áhugasamari en konan sem greinilega vildi helst vera stödd einhversstaðar allt annars staðar. Hún hefði líka mín vegna alveg mátt vera allt annarstaðar en athygli mín fór mikið í að fylgjast með aumingjans konunni horfa í kring um sig, blaða skipulagslaust í prógramminu, líta á klukkuna eða gjóa augunum á manninn/kærastann sem sjálfur leit ekki af sviðinu. Á einhverjum tímapunkti stóðst hún ekki freistinguna og fór að athuga í símtækinu sínu, hvort eitthvað meira spennandi væri að gerast í mannheimum.

Næsta tilfelli var á tónleikum í Norðurljósasal Hörpu þar sem fram fór ýmis tónlistarflutningur, meðal annars ljóðasöngur með Kristni Sigmundssyni. Fyrir aftan mig sat maður sem kominn var til ára sinna og virtist eiga í einhverjum öndunarörðugleikum. Allavega átti hann það til að anda ótt og títt með önghljóðum en tók sér góð öndunarhlé þess á milli. Hann hrökk þó alltaf í gang að lokum, gaf ekki upp öndina og lifði af þessa tónleika. Það gerði ég einnig.

Þá er komið að klassískri ballettsýningu en slíka sýningu sá ég í fyrsta sinn fyrir tveimur árum þegar Rússneskur balletthópur tróð upp með Svanavatnið af miklum glans og fínheitum. Kannski voru viss mistök gerð að velja sýningu sem fram fór um miðjan dag en ekki að kvöldi til því talsvert var af börnum á sýningunni. Mest ungum stelpum með ballerínudrauma. Reyndar voru stelpurnar prúðar og stilltar og trufluðu mig ekki. Aðra sögu er að segja af strák nokkrum sem sat fyrir aftan mig, sennilega með afa sínum. Strákurinn vissi greinilega ekkert hvað hann var að fara að sjá og spurði afa sinn eftir að sýningin og dansinn hófst: "Hvenær byrjar þetta?" Fleiri spurningar fylgdu í kjölfarið sem snérust aðallega um framvindu verksins, hver væri vondi karlinn og þess háttar. Á einhverjum tímapunkti eftir hlé spurði strákurinn hvenær þetta yrði búið.

Síðasta vetur fór ég á sinfóníutónleika í Hörpu þar sem Ashkenazy var við stjórnvölin. Fyrir framan mig sat maður sem með atferli sínu virtist ekki vera tíður gestur á svona tónleikum. Hann var allur á iði, leit mikið í kringum sig og átti erfitt með að ákveða hvort hann ætti að halla sér fram eða aftur í sætinu. Og þegar hann ákvað að betra væri að halla sér aftur þá hlammaði hann sér á sætisbakið af fullu afli. Þegar kom að hléi sá ég að þessi maður var einn af helstu tónlistarspekúlöntum landsins og því aldeilis ekki að mæta á sinfóníutónleika í fyrsta skipti auk þess sem ég man vel eftir honum frá menntaskólaárunum. Það róaði mig nokkuð eftir hlé að vita hver þetta væri og ég held að hann hafi eitthvað róast líka. Allavega náði ég að upplifa eftir hlé hið hálistræna algleymi undir tónum sveitasinfóníu Beethovens enda er hún meðal allra fínustu tónverka sem til eru. Spekúlantinn fyrir framan mig var þó ekki alveg jafn alsæll með flutninginn ef marka má hans eigin dóm.

Að lokum skal minnst á síðustu heimsókn mína í Eldborgarsal Hörpu fyrr í vetur og aftur var það ballettsýning, með Rússneskum listamönnum. Sjálfur Hnotubrjóturinn eftir Tchaikovsky og af fyrri reynslu var ákveðið að fara á kvöldsýningu. Fyrir sýningu velti ég fyrir mér í hverju ég skildi nú lenda og kom það fljótlega í ljós eftir að sýningin hófst en sessunautur minn reyndist vera líkamsmikill maður í fylgd með konu sinni. Af nógu er að taka þegar lýsa skal nærveru hans en kannski var grunnurinn sá að maðurinn var of stór fyrir sætið sem hann sat í og lítið pláss fyrir stóra fætur. Maðurinn þurfti hvað eftir að annað skipta um stellingu og æ oftar eftir því sem á sýninguna leið. Þar að auki gat hann ekki andað hljóðalaust og gaf öðru hvoru frá sér þung útöndunarhljóð gegnum nefið (oftast kallað að dæs). Þegar líða fór á sýninguna var honum sífellt oftar litið á klukkuna þrátt fyrir að það væri ekki auðvelt fyrir hann að sjá á hana. Eftir eitt af dansatriðunum seint í sýningunni tók hann mikið undir þegar klappað var í salnum. Sennilega hefur hann þá haldið að sýningin væri búin en var þó ekki að ósk sinni fyrr en nokkru síðar og var þá fljótur að standa upp að lokaklappi loknu.

Eins og ég sagði hér áður þá er ég kannski óvenju viðkvæmur fyrir öðru fólki á tónleikum en mér finnst samt að gestir á klassískum tónleikum eigi að sýna öðrum vissa virðingu, þekkja sín líkamlegu takmörk og ekki auglýsa það of fyrir öðrum ef því finnst viðveran á tónleikunum óbærileg á einhvern hátt. Ég ætla mér þó ekki að gefast upp á að sækja svona viðburði enda trúi ég að ég hafi bara verið óvenju óheppin með nágranna undanfarið og því hlýtur að fara að linna.


Mestu hitasveiflur milla ára í Reykjavík

Við fáum sennilega ekki árshitamet hér í Reykjavík í ár en þó má alltaf finna eitthvað til, vilji maður veðurmetast. Það er alvanalegt að meðalhiti sveiflist mikið milli tveggja ára og ekki alltaf frásögum færandi. Núna hinsvegar er dálítið sérstök staða uppi hvað varðar árshitasveiflur í Reykjavík. Eftir óvenju mikla dýfu í meðalhita ársins í fyrra á bendir allt til þess að uppsveiflan núna í ár verði í svipuðum stíl og jafnvel meiri en áður hefur orðið ef við miðum við tímabilið eftir 1900.

Munurinn á meðalhita hins mjög svo hlýja árs 2014 (6,0°C) og ársins 2015 (4,5°C) er -1,5 stig og hefur aðeins einu sinni kólnað jafn mikið milli tveggja ára, en það var þegar hið ofursvala ár 1979 (2,9°C) tók við af mun skaplegra ári 1978 (4,4°C). Í seinna skiptið vorum við því að fara úr mjög hlýju ástandi niður í eitthvað venjulegra, en í fyrra skiptið hins vegar úr venjulegu ástandi þess tíma, niður í sérlega kalt ástand.

Hitalínurit Rvik 1900-2016
Hin köldu ár hafa þó þann kost að eftir því sem þau eru kaldari þeim mun líklegra er að það hlýni aftur og það minnir á það sem ég sagði einhvern tíma í fyrra að eftir því sem árið þá, 2015, yrði kaldara, þeim mun líklegra væri að nýtt hlýnunarmet yrði sett í kjölfarið, þ.e árið 2016, án þess að ég hafi haft einhverja sérstaka trú á því þá. Nema hvað. Nú stefnir allt í að árið 2016 verði meðal allra hlýjustu ára hér í Reykjavík. Ársmeðalhitinn verður væntanlega 5,9-6,0 stig sem þýðir að hlýnunin milli ára verður 1,4 eða 1,5 stig.

Þá má aftur rifja upp kuldaárið 1979 en í kjölfar þess kom árið 1980 (4,3°C) sem var 1,4 stigum hlýrra en fyrra ár, sem er mesta hlýnun milli tveggja ára á tímabilinu frá 1900. Þessar tvær hitasveiflur eru því alveg sambærilegar að öðru leyti en því að dýfurnar eiga á sér stað úr mjög mismikilli hæð. Þegar þetta er skrifað á núverandi hitauppsveifla þó ágætis möguleika á að verða sú mesta hingað til, en þá þarf ársmeðalhitinn að ná 6,0 stigum, sem ágætis líkur eru á. Við förum varla fram á það úr þessu að meðalhitinn nái 6,1 stigi sem væri jöfnun á árshitametinu 2003. Eitthvað er nefnilega verið að spá frostakafla núna um og eftir jólin, hvað svo sem er að marka það.

Árið 2017 er svo handan við hornið en í ljósi þessi hversu hlýtt hefur verið núna í ár, þá má áætla að næsta ár verði kaldara. Það þarf þó ekki að vera, en miðað við það sem ég hef þegar sagt þá hljóta líkur á kólnunarmeti að vera mun meiri á næsta ári heldur en líkurnar á endurbættu hlýnunarmeti.


Lýðveldisbörnin komin út á bók

Þær hafa verið nokkrar stórhátíðirnar sem haldnar hafa verið á Þingvöllum. Gjarnan er þá verið að minnast sögulegra atburða svo sem kristnitökunnar, stofnunar alþingis, stofnunar lýðveldisins og jafnvel landnámsins sjálfs. Þann 17. júní 1944 þegar þjóðin kom saman á Þingvöllum var hins vegar ekki verið að minnast eins eða neins heldur var þar um að ræða atburð sem markaði þáttaskil í sögu þjóðarinnar, nefnilega stofnun sjálfs lýðveldisins. Þetta var því sannkallaður gleðidagur hjá þjóðinni sem loksins stóð á eigin fótum og gat horft bjartsýn fram á við, eða að minnsta kosti vonað það besta í viðsjárverðum heimi. Auðvitað voru svo einhverjar mismunandi skoðanir á því hvernig staðið var að aðskilnaðinum við Dani sem bjuggu þarna enn við þýskt hernám og höfðu því lítið um okkar mál að segja.

Lýðveldisbörnin bókOg þjóðin mætti á Þingvöll, eða að minnsta kosti stór hluti hennar, ungir sem aldnir, á öllum þeim fararskjótum sem völ var á og átti þar blautan en ógleymanlegan dag í frægustu rigningu Íslandssögunnar. Margir hinna yngri, sem þarna voru, eru enn til frásagnar eins og lesa má í bókinni Lýðveldisbörnin sem nú er komin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Veðurfræðingurinn Þór Jakobsson er eitt þessara lýðveldisbarna og átti hann frumkvæðið að því að safna saman minningum alls 86 manna og kvenna frá hátíðinni með bókaútgáfu í huga. Til liðs við sig í verkið fékk hann sagnfræðinginn Örnu Björk Stefánsdóttur en mér sjálfum hlotnaðist sá heiður að sjá um útlit og uppsetningu bókarinnar og klára fyrir prent. Það hefur verið ánægjulegt að koma að þessu verki sem ég held að hafi bara tekist nokkuð vel.

Annars er fróðlegt að lesa lýsingar unga fólksins af lýðveldishátíðinni. Sumir eru stuttorðir og muna lítið annað en sjálfa bílferðina og rigninguna. Aðrir hafa frá mörgu að segja og bæta við hugleiðingum um tíðarandann og sjálfstæðishugsjónina fyrr og nú. Eitthvað er um misminni sem er ekki óeðlilegt eftir allan þennan tíma og minnast jafnvel einhverjir atriða eins og glímukeppni sem þó fór ekki fram vegna úrhellis og bleytu. Rigningin kom þó ekki í veg fyrir að lýðveldisstofnun var fagnað og því fylgdu mikil ræðuhöld, upplestur á ættjarðarljóðum að ógleymdum lúðrahljómum, öllum söngnum og árnaðaróskum frá erlendum sendifulltrúum. Mest um vert þótti heillaóskaskeytið sem kom frá sjálfum kónginum sem frá og með þessum degi var ekki lengur kóngurinn okkar. Einhverjir felldu regnvot tár og hugsuðu um blessaðan kónginn sem ekki ætlaði að gera veður úr þessu upphlaupi okkar. En það birti aftur til og brast á með góðviðri og þurrki daginn eftir þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman í miðbæ Reykjavíkur til að hlusta á fleiri ræður. Já, þetta hljóta að hafa verið skemmtilegir dagar.

Reykjavík 18. júní 1944

Hátíðarhöld í Reykjavík 18. júní 1944.
Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson og er hún ein fjölmargra ljósmynda í bókinni

Nánar um bókina hér: http://hib.is/vara/lydveldisbornin/


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband