Stóra snjódagamyndin, 1986-2016

Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og grundirnar fara senn að gróa - hér í Reykjavík að minnsta kosti. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið yfir jörðu í borginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum á ýmsum veðurþáttum sem hófust á miðju ári 1986 og er þetta því 30. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki en sé ég í vafa þá miða ég við 50% snjóhulu í mínum garði undir miðnætti hvers dags. Nánari útlistanir eru undir myndinni.

Snjódagar 1986-2016

Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Undanfarnir tveir vetur voru af hvítara taginu með upp undir 100 hvíta daga og eru því meira í ætt við veturna fyrir aldamótin. Liðinn vetur var dálítið sérstakur að því leyti að fyrsti hvíti dagurinn kom ekki fyrr en 26. nóvember og hefur ekki komið síðar á skráningartímanum. En þegar snjórinn kom þá munaði um það því snjóþyngslin voru strax með þeim mestu sem mælst höfðu í Reykjavík í nóvember. Enn bætti í snjóinn og snemma í desember var snjódýptin 44 cm í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri í þeim mánuði í borginni. Eftir alhvítan desembermánuð náði snjórinn að hverfa í tvígang í janúar en síðan tók við alhvítur febrúar. Það var þó ekki hægt að tala um snjóþyngsli í febrúar en þrálátur var hann. Eftir að snjórinn hvarf, snemma í mars, hefur aðeins einu sinni hvítnað og apríl hefur verið laus allra mála. Ef við fáum ekki síðbúna snjókomu í maí þá getum við reyndar sagt að snjótímabilið hafi ekki verið styttra á því tímabili sem myndin nær yfir, allavega miðað við þessar skráningar. Það var þó ansi hvítt meðan á því stóð.

Garður 1. des 2015

Snjóþyngsli í garðinum heima, að kvöldi 1. desember 2015.


Orustuflugvélin í Grænlandsjökli

Fyrir nokkru sá ég þessa skopteikningu í netheimum þar sem komið er inn á áhugaverða sögu bandarískrar orustuflugvélar á stríðsárunum sem þurfti að nauðlenda á Grænlandsjökli þar sem hún átti eftir að hverfa í jökulinn uns hún fannst aftur áratugum síðar. Skopið í myndinni felst í að benda á það sem mörgum kann að þykja ankannalegt að á sama tíma og Grænlandsjökull er sagður vera að bráðna vegna hnattrænnar hlýnunar, þá skuli flugvél sem lendir á jöklinum og skilin þar eftir, geta grafist niður ein 268 fet í jöklinum. "Damn this Global Warming!!" eins og pirraður gröfumaðurinn, segir í myndatexta.
Skopmynd 268fet
Misskilningurinn og það sem í raun er skoplegt við þessa mynd er þó að í henni endurspeglast viss fáfræði í grundvallaratriðum jöklafræða. Það er þó kannski ekki endilega við teiknarann að sakast. Skopmyndir eru auðvitað meira upp á grínið frekar en raunveruleikann. Það er þó ekki víst að allir þeir sem kunna að meta húmorinn, átti sig á vitleysunni og telja myndina ágætis innlegg sem gagnrýni á meinta hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Málið með jökla er að allt sem skilið er eftir á hábungu þeirra, grefst niður með tímanum, jafnvel þótt jökullinn fari minnkandi. Á efri hluta jökla er safnsvæði þeirra og þar hleðst hvert snjólagið ofan á annað með hverjum vetri. Jökullinn hækkar þó ekkert endilega og getur jafnvel lækkað en það fer eftir hversu mikið bráðnar á móti á leysingarsvæðunum sem liggja nær jökuljaðrinum og er þá talað um jákvæðan eða neikvæðan jöklabúskap. Flugvélin sem þarna lenti á sínum tíma ofan á hábungu Grænlandsjökuls gat því ekki annað en grafist niður og borist áfram með jöklinum sem skríður undan eigin fargi og hefði birst að löngum tíma liðnum á leysingarsvæðinu einhversstaðar í skriðjökli, illa kramin auðvitað. En það átti reyndar ekki við um þessa flugvél. Henni var nefnilega bjargað og flogið á ný!

Saga flugvélarinnar, sem hlotið hefur nafnið Glacier Girl og er að gerðinni Lockheed P-38 Lightning, er annars sú að árið 1942 var ákveðið að ferja mikinn fjölda Bandarískra stríðsflugvéla til Bretlands og var það liður í innrásarplönum bandamanna í Frakkland á þeim tíma (sem átti eftir að frestast um tvö ár). Alls voru 920 flugvélar sendar yfir hafið í þessari aðgerð og lá leiðin yfir Grænland og með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli að sjálfsögðu. Ekki voru allar af hinum smærri vélum gerðar til slíks ferðalags en það þótt nokkuð gott að alls skiluðu sér 882 flugvélar á leiðarenda. Mestu afföllin voru reyndar um miðjan júlí '42 þegar alls átta flugvélar, sem flugu saman í hóp, þurftu að nauðlenda á Grænlandsjökli vegna eldsneytisskorts eftir að hafa snúið við vegna veðurs áður en þær náðu til Reykjavíkur. Í hópnum voru sex P-38 vélar og þar á meðal vélin sem fjallað er um hér. Auk þeirra voru tvær stærri B-17 vélar sem margir kannast við undir viðurnefninu Fljúgandi virki (Flying Fortress) en þær voru betur búnar siglingatækjum og fóru því fyrir fluginu. Öllum flugmönnum var að lokum bjargað eftir mikinn barning á jöklinum.

Eftir því sem leið frá stríðslokum fór áhugi manna á gömlum flugvélum frá stríðsárunum að aukast enda eftirspurnin meiri en framboðið. Þá var smám saman farið að huga að vélunum átta sem nauðlent höfðu og skildar voru eftir á Grænlandsjökli sumarið 1942. Fyrstu leitartilraunir voru gerðar árið 1977 en það var ekki fyrr en árið 1988 sem vísbendingar um flugvélarnar fundust með aðstoð íssjár og reyndust vélarnar liggja dýpra í jöklinum en menn höfðu áætlað og auk þess um tveimur kílómetrum frá upphaflegum lendingarstað enda jökullinn á stöðugri hreyfingu. Árið 1990 var gerður út leiðangur og boruð hola niður að því sem fundist hafði og reyndist það vera önnur B-17 vélanna en hún reyndist þegar til kom of illa farin til að reyna að ná henni upp.

GlacierG undir ísnumTveimur sumrum seinna, árið 1992 eða 50 árum eftir nauðlendinguna, var gerð önnur tilraun og þá komu menn niður á nokkuð heillega P-38 vélina á 268 feta dýpi (82 metra) og skemmst frá því að segja að vélinni var náð upp með því að flytja hana upp í bútum og flutt þannig til Bandaríkjanna þar sem vélin var gerð upp og komið í flughæft ástand með miklum glans. Til að auka veg flugvélarinnar enn meir var árið 2007 gerð tilraun til að fljúga henni þá leið til Bretlands sem upphaflega var áætluð árið 1942. Það gekk þó ekki betur en svo að vélin þurfti að nauðlenda á flugvelli á Labradorskaga vegna vélarbilunar og ferðinni að lokum aflýst. Samkvæmt heimildum er henni haldið í flughæfu ástandi og treður gjarnan upp á flugsýningum í Bandaríkjunum við góðan fögnuð viðstaddra.

Þegar til kom varðveitti jökullinn flugvélina sem aldrei náði leiðarenda. Hinar flugvélarnar sjö sem einnig lentu á jöklinum halda væntanlega áfram að grafast dýpra niður í Grænlandsjökul og leifar þeirra munu skila sér úr jöklinum í fyllingu tímans, alveg óháð því hvernig Grænlandsjökull mun spjara sig í hlýnandi heimi, hversu skoplegt sem það nú er.

P-38 á flugi

Uppgerða orustuflugvélin Lockheed P-38 Lightning "Glacier Girl" á flugi.

- - -

Heimildir og ljósmyndir:
http://www.damninteresting.com/exhuming-the-glacier-girl
https://en.wikipedia.org/wiki/Glacier_Girl

 


Ákvörðun forsetans gæti styrkt stöðu Andra Snæs

Sú ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig fram enn á ný er athyglisverð, svo ekki sé meira sagt og breytir auðvitað landslaginu framboðsmálunum. Svo maður bollaleggi aðeins um þetta þá var staðan sú, áður en forsetinn tilkynnti ákvörðun sína, að Andri Snær Magnason var eini frambjóðandinn sem naut fylgis að einhverju ráði. Hann er að vísu umdeildur, reyndar eins og Ólafur hefur alltaf verið sjálfur. En Andri Snær var þrátt fyrir allt ekki líklegur til að vinna kosningarnar. Hann var ekki á leiðinni á Bessastaði, vegna þess að annar vænlegur frambjóðandi, Guðni Th, var í startholunum. Það annálaða prúðmenni lá ekki bara ylvolgt undir feldi, heldur var orðinn alveg sjóðheitur og bara tímaspursmál hvenær hann tilkynnti um sitt framboð. Já, það átti bara að gerast í vikunni. Guðni hefði unnið kosningarnar. Hann hefði fengið megnið af fylgi Ólafs Ragnars og gott betur, því Andri Snær höfðar ekki til allra og alls ekki heldur til allra þeirra sem hugnast ekki að kjósa herra Ólaf.

En úr því að Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram enn á ný, þvert á fyrri yfirlýsingar, gerist það að í stað þess að baráttan standi á milli Andra Snæs og Guðna Th, þá stendur baráttan allt í einu á milli Andra Snæs og Ólafs Ragnars. Sú staða er að mínu mati betri fyrir Andra Snæ því hann á meiri möguleika í þeim slag heldur en í slagnum gegn Guðna Th. sem væntanlega hættir við af sinni áðurnefndri prúðmennsku enda kann hann ekki við að heyja kosningabaráttu gegn sitjandi forseta.

Það er þó ekki þar með sagt að Andri Snær hefði það gegn Ólafi, sjálfum forsetanum, en það gæti orðið mjög tvísýnt. Þótt Ólafur njóti góðs fylgis eru einnig afskaplega margir sem vilja alls ekki sjá hann sitja áfram og sjá þann kost vænstan að velja Andra Snæ, hvort sem þeir eru einlægir aðdáendur hans eða ekki, enda alveg ljóst að hann er sá eini sem á einhvern möguleika í sitjandi forseta.

Þó er kannski ekki alveg útséð með Guðna Th. og ef hann færi fram þá gæti þetta orðið enn tvísýnna. Eiginlega myndi ég giska á að hver um sig, þeir Ólafur, Andri og Guðni Th. gætu allir náð eitthvað um 30% atkvæða og ómögulegt að segja hver þeirra hefði það. Restin fengi þá um 10% samanlagt, svo framarlega að ekki komi fram enn eitt þungavigtarframboðið, sem er svo sem ekkert mjög líklegt.

En svona er kosningakerfið okkar. Sá sem fær mest, hann vinnur og verður forseti. Jafnvel þótt hið mesta sé ekki svo mikið. Sumir vilja hræra í þessum einfalda kerfi. Gallalaust kosningakerfi er reyndar ekki til. Tvær umferðir til að tryggja meirihluta er svolítið rausnarlegt fyrir embætti sem er í raun aðallega heiðursembætti. Það mætti þó kannski íhuga slíka reglu ef sigurvegarinn nær ekki 30% greiddra atkvæða, en það getur aðeins gerst ef frambjóðendur eru fjórir eða fleiri (eða er það ekki annars?).

Steinn

Mynd: Steinhissa steinn á vestfirskri heiði. (EHV)


Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa

Esjan kemur misjafnlega undan vetri milli ára rétt eins og stjórnmálamenn. Mánudaginn 4. apríl skartaði fjallið sínu fegursta og sólargeislarnir gerðu sitt til að vinna á snjósköflum liðins vetrar. Þetta var líka kjörinn dagur til að taka hina árlegu samanburðarmynd af Esjunni fyrstu vikuna í apríl. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því orðnar 11 talsins og koma þær allar hér á eftir í öfugri tímaröð, ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum. Það má sjá greinilegan mun á milli ára. Til dæmis var Esjan alhvít um þetta leyti í fyrra í kuldalegri tíð en öllu minni var snjórinn árið 2010 enda hvarf snjórinn óvenju snemma það sumar.

Undanfarin þrjú sumur hefur Esjan ekki náð að hreinsa af sér alla snjóskafla frá borginni séð og var reyndar nokkuð fjarri því í fyrra. Það út af fyrir sig minnkar líkurnar á að Esjan nái að verða alveg snjólaus í ár því undir snjóalögum þessa vetrar lúra enn skaflar sem sem urðu eftir síðasta sumar. Núverandi skaflar eru auk þess sæmilega massífir að sjá þannig að nú reynir á sumarið ef allur snjór á að hverfa fyrir næsta vetur. En þá eru það myndirnar.

Esja april 2016

Esja april 2015

Esja april 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006

 


Vetrarhitamósaík

Veturinn sem nú er að baki var ekkert sérlega hlýr í borginni og reyndar bara frekar kaldur miðað við flesta vetur þessarar aldar. Þó var það þannig að almennilegar frosthörkur gerðu lítið vart við sig, að minnsta kosti hér í Reykjavík og vegna skorts á hlýindaköflum að auki var þetta frekar flatneskjulegur vetur í hitafari miðað við það sem oft gerist. Þetta má sjá mósaíkmyndinni sem byggð er á eigin skráningum og sýnir hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík allt aftur til ársins 1989. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn. Að venju miða ég við dæmigerðan hita yfir daginn en tölurnar lengst til hægri er hinsvegar reiknaðar út frá opinberum mánaðarhitatölum Veðurstofunnar. Ég veit að almennt telst nóvember ekki til vetrarmánaða en finnst þó sjálfum betra að hafa hann með.
Vetrarhitarmósaík 1989-2016
Í heildina þá sést ágætlega hvernig veturnir fóru að verða hlýrri upp úr aldamótum með áberandi fleiri hlýindaköflum um hávetur og að sama skapi færri kuldaköstum. Veturinn 2002-2003 er afgerandi hlýjastur (3,2 stig) en kaldast var veturinn 1994-1995 (-1,0 stig). Síðustu tveir vetur eru frekar svipaðir upp á hitafar að gera en greinilegt er að hlýindaköflum um hávetur hefur fækkað miðað við það sem var fyrir nokkrum árum. Við fengum þó ágætan vikuskammt af hlýindum núna í mars sem gerði alveg út af við snjó og klaka í borginni.
Best finnst mér að segja sem minnst um hvort hlýindi síðustu ára séu að baki. Þau hlýindi voru óvenjuleg hvað sem öðru líður og því ekkert óeðlilegt að það kólni eitthvað hér hjá okkur. Það er þó dálítið sérstakt að við höfum alveg farið á mis við þau miklu hlýindi sem einmitt hafa einkennt norðurhluta jarðar þennan vetur. En það getur alltaf breyst.

- - - -
Það má annars velta sér upp úr tíðarfarinu og bera saman við fyrri ár á ýmsan hátt. Í næstu færslu verður það einnig gert. Þar er um að ræða einn fastasta árlega fastalið þessarar síðu. Föstustu lesendur vita kannski hvað átt er við.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband