Gengið á Heklu með Albert Engström sumarið 1911

Til HekluÞá er komið að seinni hluta frásagnarinnar um ferðalag hins sænska Albert Engström og félaga um Ísland en þessi skrif eru byggð á bók hans Til Heklu sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1943, eins og getið var um í fyrri hlutanum sem ég birti fyrir viku. Ég skildi við þá síðast er þeir voru á leið að Gullfossi eftir dvöl að Geysi, þar áður á Þingvöllum og í Reykjavík. Sömu túristastaðir og í dag þótt hugtakið Gullni hringurinn hafi ekki verið fundið upp þá. Stefnan var tekin að Galtarlæk, þaðan sem þeir ætluðu að leggja á Heklutind. Þeir riðu fimm saman, Albert Engström, sænskur ferðafélagi hans Thorild Wulff, Englendingurinn Mr. Lawson sem hafði slegist í för með þeim og svo tveir íslenskir fylgdarmenn, útlendingunum til halds og trausts, þótt þeir væru ekkert sérlega heimavanir á þessum slóðum. Á þessum árum var hesturinn ennþá aðalsamgöngutækið og allar leiðir miðuðu við þann fararskjóta. Bitahagar komu í stað bensínsjoppa og farið var yfir óbrúuð fljót þar sem hestum var treyst til að vaða eða synda yfir. Sennilega hefur einn bíll verið til á öllu landinu árið 1911. Það var hinn svokallaði Grundarbíll, heilmikill þýskur trukkur sem fluttur var til landsins í einhveri bjartsýni, til flutninga norður í Eyjafjörð fjórum árum fyrr og var bíll númer tvö hér á landi, á eftir Thomsen bílnum. Þetta sumar gerði Grundarbíllin þó ekkert annað en að ryðga í túnfætinum við Grund í Eyjafirði. En það er útúrdúr.

Ferðin um sunnlenskar sveitir gekk ágætlega og virðast þeir hafa verið einstaklega heppnir með veður þessa síðsumardaga í ágúst. Líka þegar þeir voru á Norðurlandi fyrr í reisunni. Mesti farartálminn á leiðinni var Þjórsá sem var útbólgin eftir mikla jökulbráðnun í sumarhitunum. Þeir komu að kláfferju við bæinn Þjórsárholt en það apparat nýttist bara mannfólkinu. Koffort voru ferjuð yfir beljandann af ferjumanni með árabát. Hestunum leist hinsvegar ekkert á að þurfa að synda yfir og snéru ávallt til baka. Íslenska aðferðin við því vandamáli var að grýta hestana til hlýðni og út í strauminn en Svíunum blöskruðu mjög þær aðfarir og kynntu til sögunnar sænsku leiðina, sem var að binda hestana saman í halarófu á eftir árabátnum. Sú aðferð lukkaðist og fylgir sögunni að Íslendingarnir hafi "orðið hálf-hvumsa við". Þetta gæti verið enn ein sönnun þess hve Svíar hafa löngum verið öðrum þjóðum framar að flestu tilliti og lengra komnir á þróunarbrautinni. Sígilt umkvörtunarefni Engströms hér landi voru annars hin stuttu rúm sem veittu litla hvíld fyrir langa sænska fætur, auk þess sem honum þóttu dúnsængurnar hér á landi allt of hlýjar í sumarmollunni.

IngjaldurFerðalangarnir gistu að Galtarlæk en ábúandinn þar, Ingjaldur að nafni, hafði það aukastarf að fylgja göngumönnum upp á Heklutind þegar svo bar við. Ingjaldur þessi er með "mikið skegg og mikið af neftóbaki í því" eins og Engström segir sjálfur frá og teikning hans sýnir. Leist honum ekki heldur á "yglibrún" Ingjaldar en þeir Engström gátu þó sameinast í tóbaksnautn sinni í göngunni, ekki síst vegna sænska gæðatóbaksins sem auðvitað var öllu betra en nokkur íslenskur sveitamaður hafði áður kynnst.

En nú verð ég að fara að beina frásögninni að Heklu. Sumarið 1911 hafði Hekla ekki gosið í 66 ár og 36 ár voru í næsta gos ef við skiljum útundan tvö hraungos í nágrenni fjallsins. Allt frá því Eggert og Bjarni gengu á Heklu fyrstir manna árið 1750 lá leiðin ávallt upp eftir suðvestur-hryggnum og fóru okkar menn þá leið einnig. Sú leið varð hinsvegar illfær eftir gosið 1947 en samkvæmt Árbók Ferðafélagsins var minna um skipulagðar Heklugöngur í kjölfar þess. Það var svo ekki fyrr en eftir Skjólkvíagosið 1970 sem farið var að ganga á Heklu norðanmegin, þ.e. eftir norðausturhryggnum og það var einmitt sú leið sem ég fór á sínum tíma með Ferðafélaginu, sumarið 1990, grunlaus um að aðeins hálfu ári síðar átti Hekla eftir að gjósa.

HraungangaFerðin frá Galtarlæk að Heklu var farin á hestum og þurfti meðal annars að fara á vaði yfir Ytri-Rangá sem var allt annað en auðvelt, en Ingjaldur kom þeim slysalaust yfir. Þaðan lá leiðin í skógi vaxinn Hraunteig og framhjá Næfurholti og þaðan hækkaði landið smám saman. Samkvæmt venju þess tíma voru hestarnir skildir eftir í dálítilli lægð (í 960 metra hæð samkvæmt árbók FÍ). Þá tók við mikið brölt um úfin hraun og allskyns torfærur uns komið var að langri og brattri fönn sem lá upp fjallið og að rauðgulum gíg þar sem nú nefnist Axlargígur. Þaðan var farið yfir meiri fannir meðfram hryggnum uns ekki var hærra komist. Toppnum var náð og við blasti hálft Ísland í heiðríkjunni og hið stóra op helvítis. Að vísu fullt af snjó. Albert Engström lýsir upplifun sinni með hástemmdum hætti:

"Þetta er æfintýraland, og í sannleika, á Heklu hefir guð aðsetur sitt, enda þótt stundum hafi virst svo, sem kvein fordæmdra sálna heyrðust innan úr dýpstu fylgsnum hennar. Hér urðum við Wulff að taka upp þá fáu konjaksdropa, er við höfðum geymt til þessa, og skála fyrir fegurðinni í fullkomleika sínum. Aldrei hefur himinhvolfið verið svo fagurt yfir fögrum hluta jarðarinnar … [Hið góða skyggni] kvað vera mjög sjaldgæft. Þeir fá höfundar, sem nent hafa upp á efsta tindinn og ég hefi lesið frásagnir eftir, kvarta allir um þoku, storma og önnur eða svo eða svo mikil óþægindi."

Grasafræðingurinn Thorild Wolff, hinn sænski félagi Engströms, lét sér þó ekki nægja að dást að dýrðinni, heldur þaut skyndilega niður brúnina til að komast í snjóskafl og fylgdi Englendingurinn Mr. Lawson hið snarasta á eftir til að vera með. Á fönninni afklæddist Svíinn og velti sér allsberum í snjónum. Ingjaldur gamli með sitt neftóbak upp á augabrúnir hafði ýmsu kynnst í háttsemi útlendinga en hafði þetta að segja um athæfið: "Hvað er eiginlega við það sem mentun heitir, þegar doktor getur tekið upp á þessum fábjánaháttum?" Tóku þeir Ingjaldur og Engström síðan í nefið og kinkuðu kolli hvor til annars. Það kemur ekki skýrt fram í bókinni hvaða dag nákvæmlega þeir félagar stóðu upp á Heklutindi en það hefur sennilega verið upp úr miðjum ágúst. Þeir héldu til Reykjavíkur daginn eftir Heklugönguna og ferðuðust þá sunnar, eða þar sem Þjórsá er brúuð á sömu slóðum og í dag. Einnig fóru þeir yfir brúaða Ölfusá við Selfoss þar sem var gist. Daginn eftir voru þeir komnir í bæinn. Þann 25. ágúst, nokkrum dögum síðar héldu þeir svo með Botníu til Svíþjóðar.

Íslandsferð þeirra Engströms og Wulffs var svo sem engin tímamótaheimsókn en hin myndskreytta bók Engströms, Til Häclefjäll, sem kom út í Svíþjóð tveimur árum síðar, vakti athygli í heimalandi hans og sagt að hún hafi mótað sýn Svía á Ísland, lengi á eftir. Kvikmyndir Wolffs fóru einnig víða. Þar má nefna sérstaklega, lifandi myndir sem hann tók í Reykjavík af íslenskri glímu, stuttu áður en heim var haldið. Þær myndir áttu sinni þátt í að glíman varð sýningargrein á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi sumarið 1912. Smá klausa er meira að segja um það í Öldinni okkar. Öldin okkarÍ lokin má líka minnast á grein í Morgunblaðinu þann 2. júní 1995, bls 22, þar sem sagt er frá sýningu í Norræna húsinu með myndum, teikningum og ýmsu öðru sem tengist Íslandsferð þeirra Alberts Engström og Thorild Wolff. Reyndar var þriðji Svíinn upphaflega einnig með í för, Carl Danielson, sem þurfti að snúa aftur heim eftir að hafa dottið af hestbaki norður á Siglufirði. Íslandsferðin var þó hin besta í alla staði fyrir Albert Engström og það fegursta sem fyrir hann hefur komið eins og hann nefnir á lokasíðum bókarinnar og hann fagnar því að "reikistjarnan okkar skuli eiga svo fagran blett á yfirborði sínu". Vér Íslendingar nútímans vonum að svo sé enn og verði áfram.

- - - -

Heimildir auk sjálfrar bókarinnar:
Árbók Ferðafélags Íslands 1995
Bifreiðir á Íslandi 1904-1930 I.
Öldin okkar, 1901-1930.
Morgunblaðið 2. júní 1995.


Áleiðis Til Heklu með Albert Engström sumarið 1911

Erlendir túristar eru ekkert nútímafyrirbæri hér á landi enda hefur Ísland löngum þótt vera dularfullt og spennandi land í augum þeirra útlendinga sem á annað borð hafa vitað að það sé til. Svíinn Albert Engström var einn hinna ævintýragjörnu Íslandsvina en sumarið 1911 heimsótti hann landið ásamt félaga sínum, Thorild Wulff, jurtafræðingi og landkönnuði og var lokatakmark ferðarinnar að ganga á sjálfa Heklu sem frá fornu fari var helst þekkt í augum útlendinga fyrir að vera inngangur að sjálfu helvíti. Albert Engström var frá Lönneberga í Smálöndum og hefur því verið sveitungi nafna míns, sem við höfum kennt við Kattholt. Engström var annars sæmilega þekktur í Svíþjóð sem útgefandi grínblaðs og var sjálfur hinn ágætasti skopmyndateiknari og gamansagnahöfundur.

Til HekluAð leiðangri loknum tók hann saman ferðasöguna frá Íslandi og gaf út í vinsælli bók í sínu heimalandi og kallaði ritið: Til Häclefjäll, en titillinn var í aðra röndina létt tilvísun í að fara til helvítis. Bókin átti eftir að móta sýn Svía á Íslandi lengi á eftir og þó frekar á jákvæðan hátt heldur en hitt enda var Engström yfirleitt dolfallin yfir fegurð hinnar hrjúfu og skrítnu náttúru landsins. Árið 1943 kom bókin út í Íslenskri þýðingu Ársæls Árnasonar og hét auðvitað bara TIL HEKLU og prýddi forsíðan teiknaðri sjálfsmynd höfundar. Sjálfsagt hefur bókin gert það ágætt hér eins og í Svíþjóð, þó ég viti það ekki með vissu. Hitt veit ég að eintak af bókinni hefur lengi verið til í fjölskyldu minni enda er það merkt Hannesi Guðlaugssyni, fósturafa föður míns. Sjálfur lét ég þó ekki verða að því að kynna mér innihald hennar fyrr en núna fyrir stuttu og óhætt að segja að það voru góð kynni. Að vísu er bókin farin að láta á sjá og hangir bókstaflega saman á einum bláþræði.

Af ferð þeirra Engström og Wulff er annars að segja að þeir lögðu frá landi í Svíþjóð með millilandaskipinu Emmy 16. júlí 1911. Komu þeir fyrst hér að landi á Siglufirði og upplifðu þar ekta síldarstemningu, eða öllu heldur síldaræði eins og það kom þeim fyrir sjónir. Þaðan var siglt inn Eyjafjörðinn og kusu félagarnir að hoppa frá borði við Hjalteyri og fara þaðan á hestbaki til Akureyrar. Ferðuðust þeir svo til Mývatns og könnuðu meðal annars hverasvæðin við Námaskarð. Áfram var siglt vestur fyrir land með viðkomu á Ísafirði og Stykkishólmi. Loks var stigið á land í Reykjavík og hafinn undirbúningur að leiðangrinum mikla austur um sveitir og að Heklu. Sænski konsúllin var þeim innan handar og sá þeim fyrir hestum og tveimur leiðsögumönnum sem áttu að fylgja þeim um þetta erfiða land. Það kom sér þó vel að talsverðar samgöngubætur höfðu átt sér stað vegna konungskomunnar fjórum árum fyrr og á Þingvöllum var hægt að fá hótelgistingu í sjálfri Valhöll. Helst voru það breskir ferðalangar af fínna taginu sem mest bar á. Frá Þingvöllum var haldið að Laugarvatni og með Konungsveginum áfram að Geysi þar sem heimafólk var þegar farið að hafa það gott út úr túristabransanum. Þeir Engström og Wulff voru við öllu búnir og höfðu tekið með sér 50 kíló af sápu til að framkalla gos og tókst það með ágætum með hjálp kunnugra.

Við Laugarvatn og Geysi kynntust þeir ensku ferðafólki af fínna taginu sem einmitt var að koma úr Heklureisu. Gangan á Heklu hjá þeim ensku hafði að vísu mistekist og ástæðan sögð sú að konurnar í hópnum hefðu guggnað í miðjum hlíðum eldfjallsins og hreinlega ekki nennt þessu príli þegar til kom, karlmönnunum í hópnum til lítillar ánægju. Ágætlega fór þó á með öllum þessum ferðalöngum við Geysi. Thorild Wulff var vel búinn ljósmynda- og kvikmyndatólum og kemur fram í bókinni að hann hafi þarna fyrstur manna kvikmyndað Geysisgos. Ýmislegt fleira skemmtilegt var kvikmyndað eins og lýst er bókinni:

„ … um sólseturbil tók Wulff kvikmynd af öllum hópnum, okkur og Englendingunum, þeysandi eftir reiðgötunum fyrir neðan hverina, ég í broddi fylkingar og kvenfólkið hið næsta mér – auðvitað mál – með blaktandi blæjur, örar og yndislegar, og veslings mennirnir í humátt á eftir, sem urðu að hætta við að ganga á Heklu vegna þess að þeir höfðu bundist svo brothættu glingri.“

Þetta innskot í textanum "– auðvitað mál –" er væntanlega skírskotun í kunnuglegt vandamál sem enn í dag plagar margan ferðalanginn á Íslandi, nefnilega takmörkuð eða léleg salernisaðstaða. Gefum bókarhöfundi aftur orðið:

"Ég vorkenni kvenfólkinu sem þarna er. Milli gistihússins og Geysis er lítið, en mjög mikilvægt skýli – hvers vegna einmitt þarna á alfaraleið? Hurð var þar engin og dyrnar snéru út að hverunum. Þetta er skýrt dæmi um tómlæti Íslendinga og framtaksleysi, slóðaskapinn gagnvart útlendingum, sem þeir vilja fúslega að heimsæki sig, þó að þeir kæri sig kollótta um öll þægindi handa þeim. Hugsið ykkur t.d. hvað Þjóðverjum yrði úr gistihúsinu því arna!"

Mr LawsonÁfram var haldið og stefnan tekin á Gullfoss og þaðan á Hekluslóðir. Einn Englendinganna, Mr. Lawson, ákvað að slást í för með Svíunum enda kvenmannslaus í þessari reisu og ætlaði ekki að láta draum sinn um að standa á Heklutindi fara forgörðum. Svíarnir tóku þessum nýja ferðafélaga reyndar ekki mjög fagnandi í fyrstu en hann átti þó eftir að skreyta ferðalagið með ýmsum dyntum sínum. Mr. Lawson var ákaflega enskur í öllum háttum og sérstakur í augum Svíanna (sérstaklega þó skopmyndateiknarans Alberts Engström) en stóð þó nær nútímanum að því leyti að hann var með spánýja, handhæga Kodak-myndavél og átti það til að smella af í gríð og erg án þess að kunna undirstöðuatriði ljósmyndunar svo sem að stilla ljósop og fókus.

Það var ekki beinlínis greið og auðveld leið sem beið félaganna áleiðis að Heklu þessa sumardaga árið 1911 þótt veðrið hafi leikið við þá. Um framhald ferðarinnar og glímuna við Heklu mun ég fjalla um í seinni hluta þessarar frásagnar sem ég stefni á að birta um næstu helgi – hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.


25 fjölmennustu ríki jarðar

Mannfjöldi jarðar telur nú 7,5 milljarða og fólki fjölgar enn. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvaða 25 þjóðir eru fjölmennastar nú í byrjun árs 2017. Til að sýna hvernig þróunin hefur verið hin síðustu ár eru árin 1998, 2004 og 2011 höfð til samanburðar en þannig sést ágætlega hvaða þjóðum fjölgar mest og hverjar að dragast aftur úr. Til þæginda er ég með litaskiptingu eftir heimsálfum. Allra fjölmennustu þjóðirnar sitja fastar í sínum sætum enda ber þar meira á milli. Það mun þó eitthvað breytast á næstu áratugum og þess ekki langt að bíða að Indverjar taki forystuna af Kínverjum. Talað um að það gæti jafnvel gerst árið 2022. Almennt er staðan sú að hinum ríku og þróuðu þjóðum fjölgar lítið eða ekkert á meðan fátækustu þjóðunum fjölgar mest. Þannig fjölgar sífellt Afríkuþjóðum á þessum lista og ef flóttamannastraumar verða ekki þeim mun meiri er hætt við að einhver af gömlu Evrópustórveldunum falli af listanum í næstu útgáfu myndarinnar sem kannski verður birt að 6-7 árum liðnum.

Fjölmennustu ríkin

- - - -

Tölurnar í þessari töflu fyrir árin 2010 og 2017 eru fengnar af netinu. Þær nýjustu eru af vefsíðunni worldometers. Tölur fyrir 1998 og 2004 voru hinsvegar reiknaðar á sínum tíma út frá gögnum í Almanaki Háskóla Íslands.

 


Þannig var meðalhiti mánaðana í Reykjavík

Enn eitt árið að baki og allskonar yfirlit líta dagsins ljós. Hér kemur eitt þeirra en það er hitafarsyfirlit sem byggir á línuriti sem ég hef sett saman til að sýna meðalhita hvers mánaðar 2016 í Reykjavík samkvæmt tölum Veðurstofunnar. Til samanburðar eru rauðu súlurnar sem sýna meðalhita 10 áranna þar á undan og bláu súlurnar sem sýna 30 ára viðmiðunartímabilið sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt þar var í raun. Til hægri eru að auki árshitasúlur sömu tímabila.

2016 meðalhiti mánaða

Eins og sjá má þá létu hlýindi á sér standa tvo fyrstu mánuðina og var febrúar undir kalda meðaltalinu. Fátt benti því til þess framan af að mjög hlýtt ár væri í uppsiglingu. Frá og með mars fór hitinn að ná sér á strik og voru átta af þeim tíu mánuðum sem eftir voru hlýrri en meðalhiti 10 áranna þar á undan. Mest afgerandi voru hlýindin í október sem var sá hlýjasti í rétt rúm 100 ár eða síðan í október 1915 en þá var örlítið hlýrra og er merkilegt í ljósi þess að almennt var nokkuð kaldara fyrir 100 árum. Þetta sýnir þó að óvenjuleg hlýindi, eða kuldar, geta komið upp burt séð frá ríkjandi ástandi hverju sinni. Frávik desembermánaðar miðað við meðaltöl var jafnvel enn meira en þau hlýindi voru þó ekki alveg eins óvenjuleg því einhver tilfelli eru um desembermánuði sem hafa náð 4 stigum en metið á desember 2002 (4,5 stig).

Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 þegar meðalhitinn var 6,1 stig. Árið 2016 endaði örlítið lægra eða í 6,0 stigum. Svo vill til að meðalhitinn árið 2014 var einnig 6,0 stig og eru þessi tvö ár, 2016 og 2014, í öðru til þriðja sæti yfir hlýjustu árin hér í borg. Fast á eftir þeim fylgjir árið 2010 og tvö ár frá hlýindaskeiðinu á síðustu öld 1939 og 1941 og var meðalhiti þeirra 5,9 stig. Samanburður milli þessara tímabila mun þó vera háður óvissu og því gæti dugað að tala um þessi sex ár: 1939, 1941, 2003, 2010, 2014 og 2016, sem hlýjustu árin í Reykjavík síðan farið var að mæla.

Það þýðir víst lítið fyrir mig að spá fyrir um meðalhitann á þessu nýbyrjaða ári enda er ég enginn veðurfræðingur og jafnvel þótt svo væri, væri sjálfsagt fátt um svör. Líklegra þykir mér þó að meðalhitinn verði lægri á þessu ári og þá aðallega vegna þess að erfitt er að toppa svona hlýtt ár. Miðað við fjölda 6-stiga ára undanfarið, þá má kannski alveg velta fyrir sér möguleikum á stórbætingu í meðalhita á næstu árum, þ.e. ef almenn hlýindi halda áfram. Slíkt gæti til dæmis oltið á því hvað gerist með þróun sjávarhita hér í kring og hvernig hafísmálum verður háttað í norðri. Þar hefur mikið verið að gerast undanfarið ár og blæs ekki byrlega fyrir hafísinn sem gæti rambað á barmi algers hruns á komandi sumri miðað við  skortinn á eðlilegum fimbulkuldum þar undanfarið. Ýmislegt er allavega í boði til að fylgjast með í náttúrunni, tala nú ekki um þegar Katla fer að loksins gjósa, sem auðvitað er alveg borðleggjandi að gerist á þessu ári - eða þannig.

 


mbl.is Hlýtt ár að baki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband