Lifandi og látnir popparar

Öðru hvoru berast fréttir utan úr heimi að einhver af stórmennum poppsögunar falli frá. Sumir þeirra yfirgefa heiminn fyrir aldur fram á meðan aðrir ná að tóra fram á gamals aldur. Eins og gengur. Á síðasta ári var heldur meira brottfall í þessum hópi en í meðalári og má þar nefna menn eins og David Bowie, Prince, George Michael að ógleymdum Leonard Cohen. Allt náungar sem eru vel þekktir og hafa meira að segja tveir þeirra troðið upp í sjálfri Laugardalshöll. En það er önnur saga. Það sem ég vildi hinsvegar gera hér er að að taka saman hverjir af hinum frægu eru lífs og hverjir eru liðnir. Eru margir eftir? Jú þeir eru ýmsir þótt vissulega sé margir farnir. Hér kemur fyrst upptalning á helstu, poppurum, rokkurum, pönkurum, röppurum o.fl sem ég tel vera meðal þeirra helstu og eru enn á lífi. Alls 80 aðilar, raðaðir eftir fæðingarári í sviga. Auðvitað eru ýmsir ónefndir þótt frægir séu og verður bara að hafa það. Það komast ekki allir í höllina. Sumir eru líka of ungir. Sá yngsti fær að vera með að því hann er svo mikill Íslandsvinur.

Lifandi:
Fats Domino (1928), Little Richard (1932), Willie Nelson (1933), Jerry Lee Lewis (1935), Dusty Springfield (1939), Tina Turner (1939), Dionne Warwick (1940), Ringo Starr (1940), Joan Baez (1941), Bob Dylan (1941), Joan Baez (1941), Paul Simon (1941), Aretha Franklin (1942), Barbra Streisand (1942), Brian Wilson (1942), Paul McCartney (1942), Mick Jagger (1943), Keith Richards (1943), Diana Ross (1944), Jon Anderson (1944), Ray Davis (1944), Brian Ferry (1945), Neil Young (1945), Debbie Harry (1945), Eric Clapton (1945), Ian Gillan (1945), Rod Steward (1945), Van Morrison (1945), Barry Gibb (1946), ABBA (1945, 1945, 1946, 1950), David Gilmore (1946), Patty Smith (1946), Syd Barret (1946), Elton John (1947), Carlos Santana (1947), Jeff Lynne (1947), Cat Stevens (1948), Robert Plant (1948), Donna Summer (1948), Ozzy Osborne (1948), Billy Joel (1949), Bruce Springsteen (1949), Mark Knopfler (1949), Tom Waits (1949), Peter Gabriel (1950), Stevie Wonder (1950), Phil Collins (1951), Sting (1951), David Byrne (1952), Elvis Costello (1954), David Le Roth (1954), Johnny Rotten (1956), Bruce Dickinsson (1958), Simon Le Bon (1958), Madonna (1958), Morrissey (1959), Bono (1960), Axl Rose (1962), Jon Bon Jovi (1962), Lenny Kravitz (1964), Celine Dion (1968), Thom York (1968), Jay Z (1969), Mariah Carrey (1969 eða 1970), Snoop Dogg (1971), Eminem (1972), Liam Gallagher (1972), Robbie Williams (1974), 50 Cent (1975), Britney Spears (1981), Beyonce (1981), Justin Timberlake (1981), Justin Bieber (1994).

- - - -

Hér á eftir koma svo þeir helstu sem eru ekki lengur á meðal vor en lifa áfram í sínum verkum. Alls 40 aðilar. Talan á eftir sviga segir til um aldurinn er þeir létust. Meðalaldurinn er kannski ekki hár en aldurstalan sem kemur afgerandi oftast fyrir er 27, sem þykir sérstakt.

Látnir:
Woody Guthrie (1912-1967) 55, Billy Holiday (1915-1959) 44, Frank Sinatra (1915-1998) 83, Dean Martin (1917-1995) 78, Nat King Cole (1919-1965) 45, Hank Williams (1923-1953) 29, Bill Haley (1925-1981) 56, B.B. King (1925-2015) 90, Chuck Berry (1927-2017) 90, Serge Gainsbourg (1928-1991) 63, Ray Charles (1930-2004) 73, Johnny Cash (1932-2003) 71, James Brown (1933-2006) 73, Leonard Cohen (1934-2016) 82, Elvis Presley (1935-1977) 42, Buddy Holly (1936-1959) 23, Roy Orbison (1936-1988) 52, Marvin Gaye (1939-1984) 44, Dusty Springfield (1939-1999) 59, John Lennon (1940-1980) 40, Frank Zappa (1940-1993) 53, Otis Redding (1941-1967) 26, Jimi Hendrix (1942-1970) 27, Lou Reed (1942-2013) 71, Janis Joplin (1943-1970) 27, Jim Morrison (1943-1971) 27, George Harrison (1943-2001) 58, Bob Marley (1945-1981) 36, Freddy Mercury (1946-1991) 45, David Bowie (1947-2016) 69Maurice Gibb (1949-2003) 53, Robin Gibb (1949-2012) 62, Joe Strummer (1952-2002) 50, Michael Jackson (1958-2009) 50, Prince (1958-2016) 57, George Michael (1963-2016) 53, Whitney Houston (1963-2012) 48, Chris Cornell (1964-2017) 52, Kurt Cobain (1967-1994) 27, Amy Winehouse (1983-2011) 27.

- - - -

Á eftir þessu öllu saman er ekki hægt annað en að fá almennilega Músík. Fyrir valinu er tónleikasýnishorn frá árinu 1976 með Bruce Springsteen sem þarna er alveg sprelllifandi eins og í dag. Með honum á sviði er hið stórgóða E-Street band með mörgum snillingum innanborðs þótt þeir komist ekki í flokk hinna allra frægustu. Ég nefni þar sérstaklega saxófónleikarann Clarence Clemons sem því miður er fallinn frá. Sá náungi setti sterkan svip á bandið og var mikill vinur Bruce sem kallaði hann ávallt "The Big Man". Það má tileinka honum þetta sýnishorn. Lagið er klassískt, Twist and Shout, sem ýmsir hafa spreytt sig á, en upphaflega var lagið vinsælt með The Isley Brothers árið 1962. Mikið rokk, en þó með hægum "Slow Rocking" millikafla. Mjög gott.


Hitað upp fyrir bræðslusumarið (óviðjafnanlega?)

Sumarið er framundan á norðurslóðum með tilheyrandi bráðnun á ísbreiðunni. Miðað við hvernig liðinn vetur hefur verið þá finnst mér alveg óhætt að gæla við þann möguleika að minni hafís verði þar í lok sumars en áður hefur sést á vorum dögum. Það sem helst skiptir máli er að nýliðinn vetur var óvenju hlýr þarna upp frá sem þýðir að hafísinn náði ekki að þykkna eins mikið og hann gerir venjulega yfir vetrartímann. Í samræmi við það þá hefur útbreiðsla hafíssins verið með allra minnsta móti í allan vetur. Staðan í fyrravor gaf reyndar einnig vissar væntingar um að sumarið 2016 gæti orðið einstakt bræðslusumar. Lágmarksútbreiðslan í fyrra setti þegar til kom engin met en var þó í 2.-3. sæti ásamt árinu 2007 og ógnaði ekki lágmarksmetinu frá árinu 2012. Nú er hinsvegar spurning hvað gerist. Er komið að nýju metári og munum við sjá íslausan Norðurpól á 90°N? Áður en lengra er haldið kemur hér línurit yfir hafísútbreiðslu, frá Bandarísku snjó og hafísmiðstöðinni með smá tilfærslum frá mér.
Hafislínurit maí 2017
Á línuritinu sést hvernig útbreiðsla íssins á norðurslóðum er þessa dagana miðað við 10 árin á undan ásamt meðalútbreiðslu áranna 1981-2010. Dökkblái ferillinn stendur fyrir árið 2017. Útbreiðslan núna er með minna móti samkvæmt þessu en þó ekki einstök. 2016 ferillinn var afgerandi lægstur í maí og hélt þeirri forystu fram í júní þegar draga tók úr bráðnuninni. Árið 2012 er táknað með grænni brotalínu og kemur vel fram hversu afgerandi lágmarkmetið frá því ári er, þrátt fyrir að vetrarútbreiðslan hafi þá verið talsverð. Sjálfur hef ég svo bætt við myndina blárri línu sem er mín tillaga eða spádómur um það hvernig málin gætu þróast í sumar. Sjálfsagt nokkuð glannalegt því greinilega er ég að tala um mestu bráðnun, eða lægsta lágmarki, sem sést hefur á vorum dögum, og ég leyfi mér það enda er ég bara heimilislegur áhugamaður á þessu sviði.

En sjáum nú til, eitthvað gæti gæti ég haft fyrir mér í þessu. Það er ekki bara hlýr vetur sem spilar inn í því dreifing íssins skiptir líka máli. Til að skoða þykktardreifingu íssins eru kortin frá Bandaríska sjóhernum afar skýr og góð, og vonandi eitthvað að marka þau. Hér að neðan ber ég saman tvö slík kort, annarsvegar frá maí 2017 og hinsvegar maí 2016.
Ísþykkt 2017 og 2016
Á kortinu frá því í fyrra sést stór rauðgul skella með allt að 4ra metra þykkum ís á hafsvæði norður af Kanada og Alaska. Enga slíka þykkt er hinsvegar að finna á kortinu í nú ár nema mjóa rönd norður af Kanadísku heimskautaeyjunum og Grænlandi. Ísinn núna er einnig mjög þunnur norður af Síberíu eins og fjólublái liturinn er til vitnis um. Hinsvegar er meiri og þykkari ís að finna nú í ár við Svalbarða og þar um kring. Þetta skiptir allt máli upp á framhaldið og er til vitnis um að ísinn hefur í vetur verið að leita í áttina að Atlantshafinu þar sem hann mætir hlýrri sjó. Aukin útbreiðsla þar er því alls ekkert heilbrigðismerki enda á ísinn við Svalbarða ekki afturkvæmt í ísmassann í norðri. Talsvert streymi af sæmilega þykkum ís virðist líka vera suður með Grænlandi og þar bíður hans heldur ekkert annað en að bráðna í sumar.

Það sem gerist á næstu vikum og mánuðum er að ísinn mun að venju hörfa nokkuð örugglega þarna í Norður-Íshafinu. Opið haf er þegar farið að éta sig inn um þunnan ís frá Beringssundi milli Alaska og Síberíu og stutt er í opnanir á svæðum norður af Síberíu. Ísinn á Hudson-flóa mun hverfa að venju sem og allur ísinn kringum Baffinsland og vestur af Grænlandi. Hvernig staðan verður svo í september í ár mun koma í ljós. Á kortunum hér að neðan eru borin saman septemberlágmörk ársins 2016 og metársins 2012 sem var raunar alveg einstakt bræðslusumar. Ég veit það ekki. Kannski er fullsnemmt að vera að spá nýju meti, en sjáum til. Ætli maður taki ekki stöðuna aftur eftir mánuð.

Ísþykkt sept 2016 og 2012

- - -

Þykktarkortin eru fengin héðan: https://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html
Línurit og fróðleikur frá NSIDC: http://nsidc.org/arcticseaicenews/

 


Stóra snjódagamyndin 1986-2017

Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og senn fara grundirnar að gróa. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið á jörðu í höfuðborginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum sem hófust árið 1986 og er þetta því 31. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvenær jörð er hvít en viðmiðunin er a.m.k. helmingssnjóhula í mínum garði undir miðnætti. Nánari útlistanir eru undir myndinni.

Snjódagar 1986-2017

Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Á liðnum vetri voru hvítir dagar 47 talsins sem er með minna móti miðað við meðaltalið sem eru 73 dagar á vetri. Þeir vetur sem náð hafa 100 hvítum dögum komu allir fyrir aldamót en mjög litlu munaði þó veturna tvo 2014-15 og 2015-16.

Það var frekar löng bið eftir fyrsta hvíta deginum á síðasta vetri enda var haustið hlýtt og veturinn lengst af einnig. Snjórinn var því yfirleitt ekki mikill og staldraði stutt við þegar hann lét sjá sig. Undantekningin á snjóléttum vetri var ofursnjókoman aðfararnótt 26. febrúar sem skilaði 51 cm snjódýpt sem er það mesta sem mælst hefur í Reykjavík í febrúar og næst mesta snjódýpt sem yfirleitt hefur mælst í borginni. Þessi mikli snjór lét smám saman undan síga og í lok dags þann 11. mars skrái ég auða jörð á ný. Eitthvað lítilræði snjóaði eftir þetta og örlaði á hvítri jörð síðustu dagana í apríl þótt ekki dygði það til að rata í skráningarbókina, sem eins og fyrr segir miðar við garðinn heima vestarlega í borginni.

Snjór 26. febrúar 2017

Allt á kafi í garðinum heima að morgni hins 26. febrúar 2017.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband