Hraunfoss við sorpflokkunarstöð

Hraun flæðir víðar en á Íslandi. Á Hawaii er ekkert lát á gosinu á austustu eyju eyjaklasans, Big Island, sem hófst árið 1983. Eins og komið hefur stöku sinnum fram í fréttum ógnar hrauntunga nú smábænum Pahoa austarlega á einni, um 18 kílómetrum frá gígnum sem þunnt helluhraunið vellur upp úr. Ég skrifaði annars um þetta í síðasta mánuði en þá var mjó hrauntunga farin að sækja niður hlíðarnar ofan þorpsins. Síðan þá hefur hraunið vissulega sótt lengra fram en þó án þess að valda verulegum sköðum á mannvirkjum. Framrásin stöðvaðist síðan örskammt frá sjálfri byggðinni og aðalgötu bæjarins, sem þótti vel sloppið - í bili. En þótt framrásin hafi stöðvast hefur hraunið þó þykknað og nýir taumar brotist út til hliðanna. Síðastliðinn mánudag varð svo fyrsta íbúðarhúsið hrauninu að bráð en það er skammt frá sorpflokkunarstöð bæjarins (Transfer station) sem nú virðist bíða örlaga sinna.

Á eftirfarandi myndskeiði sést einmitt þegar hraunið hefur sloppið undir girðingu umhverfis stöðina og fossar niður á malbikið sem brennur undan hitanum. Þetta er svo sem enginn hraunfoss í ætt við þá sem sáust við Fimmvörðuháls en sjónarspilið er vissulega sérstakt.

 
Til nánari glöggvunar kemur svo hér kort af svæðinu. Hraunið er þarna teiknað inn með bleikum lit en nýjustu viðbætur með rauðum. Sjálft þorpið er efst til hægri. „Transfer stationið“ er þarna merkt inn og er greinilega í eldlínunni. Nýr taumur að ofan virðist síðan geta ógnað enn frekar samkvæmt kortinu.
 
Hawaii kort 10. nóv
 
Svo er auðvitað fínt að skoða ljósmynd af vettvangi úr lofti. Hér er horft upp eftir frá þorpinu og sést þar hvernig hrauntungan hefur stöðvast alveg við bæinn. Transfer station er þarna í reykjarmekkinum ofarlega fyrir miðju.
Pahoa 5. nóv
- - - -
Sjá einnig eldri færslu frá 25. október: Hraun ógnar byggð á Hawaii.
Nánari fréttir og kort frá Hawaiian Volcano Obsevatory: http://hvo.wr.usgs.gov/maps/
Myndir frá Hawaiian Volcano Obsevatory:
http://hvo.wr.usgs.gov/multimedia/index.php?newSearch=true&display=custom&volcano=1&resultsPerPage=20
 
 
 

Bloggfærslur 12. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband