Mánaðarhitasúluritið að loknum nóvember

Það er varla hægt annað en að birta nýjustu uppfærslu á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík eins og það lítur út nú að loknum þessum afar hlýja nóvembermánuði. Sem fyrr sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár. Nýliðinn nóvember var eins og þarna sést langt fyrir ofan meðaltöl mánaðarins og að auki nokkuð hlýrri en meðaltöl októbermánaðar. Það má segja að þessi nóvembersúla riðli þeirri fínu simmetríu sem komin var í myndina enda var þetta næst hlýjasti nóvember frá upphafi mælinga í Reykjavík (5,5°C), á eftir hinum ofurhlýja nóvember 1945 (6,1°C).

Meðalhiti Rvik 10 2014

Staðan í árshitamálum fyrir Reykjavík er orðin athyglisverð og víkur þá sögunni að súlunum lengst til hægri sem standa fyrir árshita. Ef desember verður bara í kalda meðaltalinu (-0,2°C) þá endar meðalhiti ársins í 6,0 stigum og árið það næst hlýjasta frá upphafi. Ef desember hinsvegar hangir í 10 ára meðaltalinu (0,7 C°) þá endar meðalhitinn í 6,1 stigi sem er jafn hlýtt metárinu 2003, sem táknað er með grænni súlu. Stutt er þó í að árið verði það hlýjasta frá upphafi en samkvæmt mínum útreikningum þarf meðalhitinn nú í desember að ná 1,2°C til að svo megi verða.

Miðað við veðurspár er ekki mikilla hlýinda að vænta næstu daga þannig að best er að stilla öllum væntingum í hóf - hafi menn þá yfirleitt einhverjar væntingar. Sjálft meðalhitametið fyrir desember er varla í hættu en það er 4,5 °C frá árinu 2002. Hvað sem því líður er þó engin hætta á öðru en að árið 2014 verði eitt af allra hlýjustu árunum í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu, að ógleymdu heimsmeðaltalinu því ársmeðalhitinn 2014 er við það allra hæsta á heimsvísu, hafi einhver áhuga á að vita það.

 


Bloggfærslur 2. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband