Hliðarskot frá Bárðarbungu yfir í Öskjukerfið?

Út frá því sem maður hefur lesið og lært um eldvirkni hér á Íslandi þá skiptast eldstöðvarnar í svokölluð eldstöðvakerfi sem raðast eftir gliðnunarbeltum landsins. Hvert þessara kerfa eru að mestu sjálfstæðar einingar. Á hinum eldri og þroskaðri kerfum eru megineldstöðvar með kvikuþróm sem fóðra sprungureinar sem liggja út frá þeim. Á suðurhelmingi landsins hafa kerfin SV-NA stefnu en á Norðurlandi er sprungustefnan N-S.

Elstöðvakerfi miðja landsins.Myndin hér til hliðar er hluti myndar sem tekin er af vef Vatnajökulsþjóðgarðs og sýnir legu eldstöðvakerfana fyrir miðju landsins. Við sjáum að sprungukerfi Bárðarbungu liggur í NNA-átt frá megineldstöðinni og endar vestan megin við Öskjukerfið en það teygir sig hinsvegar í SSV-átt og endar í Dyngjujökli í suðri einmitt þar sem kvikan hefur leitað og skjálftarnir hafa verið flestir upp á síðkastið.

Ef þetta er svona mætti spyrja hvers vegna hleypur kvikan úr Bárðarbungu ekki í norð-norðaustur eins og hún ætti að gera - nú eða í suðvestur? Ekki veit ég svarið við þessu en það er þó ekki annað að sjá en að kvikan hafi farið rækilega út af sporinu.

Þetta sést betur á næstu mynd sem tekin er af vef Veðurstofunnar undir lok dags 24. ágúst. Þarna eru eldstöðvakerfin lituð með gulum tón hvert um sig. Öskjukerfið gengur inn í myndina að ofanverðu og þangað leita skjálftarnir og þar með kvikan. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir en þeir elstu bláir.

Skjálftar 25. ágúst

Útfrá elstu skjálftunum þá virðist kvikan upphaflega hafa reynt tvær útgönguleiðir frá kvikuþró Bárðarbunguöskjunnar. Útrásin eftir sprungurein kerfisins í norð-norðaustur virðist ekki hafa tekist. Öðru máli gegnir með hliðarskotið í aust-suðaustur, þvert á stefnu Bárðarbungukerfisins. Sú útrás opnaði mjög fljótlega, leið inn í næsta sprungusveim sem tilheyrir Öskjukerfinu og því má líta á þetta sem algert hliðarspor af hálfu kvikunnar og má jafnvel tala um ranga kviku í vitlausu eldstöðvakerfi. Með því að svindla sér inn svona öfugu megin er kvikan líka að stefna í öfuga átt miðað við það sem kvika í viðkomandi eldstöðvakerfi ætti að gera. Hvort þetta auki eða minnki líkurnar á því að kvikan komi upp veit ég ekki en eitthvað var hann Haraldur Sig. að nefna að skjálftarnir væru farnir að mælast á meira dýpi en áður. Skýringin á því gæti verið sú að kvikan sé komin úr einu eldstöðvakerfinu yfir í annað sem tekur vel á móti og gefur kvikunni færi á að láta fara vel um sig, djúpt í iðrum jarðar á nýjan leik.

Þannig hljóða leikmannaþankar mínir þessa stundina. Hvað verður í framhaldinu veit ég ekki. Kannski verður bara farið að gjósa þegar þú lesandi góður sérð þetta.


Bloggfærslur 25. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband