Punktaferð

Bíll - upphaf
Stundum þarf dálítið að leggja á sig til að sinna sérviskulegum áhugamálum. Hér hef ég lagt bílnum við illfæran vegarslóða sem liggur vestur af Kjalvegi um 20 km norður af Hveravöllum. Vegarslóðinn sem kenndur er við Stórasand er ekki gerður fyrir minn bílakost og því ekki um annað að ræða en að hefja gönguna þarna. Átti svo sem ekki von á öðru. Þá er bara að reima á sig gönguskóna, skella bakpokanum á sig og halda af stað með GPS-tækið við höndina. Dagurinn er 26. júlí og klukkan 10 að morgni. Framundan er löng ganga um hrjóstrugt landslag, 19 km í beinni línu að ákvörðunarstað og aftur til baka. Meðferðis bakpokanum er aukaklæðnaður ef veðrið skyldi versna auk ýmislegs annars svo sem drykkjar- og matarföng fyrir heilan dag og auðvitað myndavélin og guli sérsmíðaði ramminn.

Gönguleið 65n22w
Og svo er gengið - og gengið - og gengið. Og þegar búið er að ganga lengi á eftir að ganga mjög lengi til viðbótar, upp og niður brekkur, yfir mela, þúfur, mýrar og eyðisanda. Veðrið er gott í fyrstu en fljótlega hrannast upp skúraský á víð og dreif og úr einu slíku hellist vætan yfir mig. Veðrið batnar á ný og með hverju skrefi fækkar kílómetrunum uns loks er komið að ákvörðunarstað á eyðilegum mel þar sem GPS-tækið sýnir að hnitin eru nákvæmlega 65°,00000 norður og 20,00000° vestur. Klukkan er þarna að nálgast 6 síðdegis. Gangan hefur tekið tæpa 8 tíma og aftur farið að rigna.

GPS 65n22wAkkúrat þessi punktur er einn þeirra 23ja staða þar sem lengdar- og breiddarbaugar mætast á heilum tölum hér á landi en markmiðið er einmitt að heimsækja þá flesta og helst alla áður en yfir líkur. Með þessari ferð eru þeir orðnir 8 talsins en sá 9. bættist við síðar. Ýmsir spennandi punktar eru eftir, sumir þeirra erfiðir en enginn þó ómögulegur.

En nú þarf að hefjast handa. Fyrsta verk er að ljósmynda GPS tækið með hnitunum en það getur reynt dálítið á þolinmæðina því tækið vill dálítið skipta um skoðun varðandi síðasta aukastafinn sem getur kostað tilfæringar um 2-3 skref í einhverja áttina. Þegar góð sátt næst um staðsetninguna er guli ramminn sóttur, skrúfaður saman, lagður á jörðina á réttan stað og látinn snúa rétt miðað við höfuðáttir. Myndatakan hefst þá fyrir alvöru. Á sjálfri punktamyndinni er horft beint niður á það sem er innan rammans. Í þessu tilfelli er það möl og grjót ásamt nokkrum fíngerðum og hraustum fjallaplöntum sem vaxa upp úr rýrum jarðvegi sem kannski hefur einhvern tíma fóðrað þéttari gróður þarna í 780 metra hæð norðvestur af Langjökli. Aðrar myndir eru svo teknar til að sýna afstöðuna í umhverfinu í sem flestar áttir.

Rammi 65n22w
Horft í norðvestur að punkti: 65° norður og 20° vestur.

Punktur 65n22w
Horft niður að punkti: 65° norður og 20° vestur.

 

Að ljósmyndun og næringu lokinni er lagt að stað sömu leið til baka og er sú leið alveg jafn löng. Nestið dugar ágætlega en farið er að ganga á drykkjarbyrgðir og ekkert vatn á leiðinni sem gagn er að. Það bjargar þó málum að rakt er í veðri og bakpokinn farinn að léttast. Allt kvöldið fer í gönguna sem sækist hægt en örugglega. Smám saman skyggir og sólroðinn yfir Vatnsdalsfjöllum í norðri dofnar og hverfur. Í rökkrinu fara að heyrast ískyggileg hljóð sem skera hálendisþögnina og líkjast mennskum öskrum sem enda í ámátlegu væli. Þessi hljóð gætu sjálfsagt ært draugahrædda en sennilega er þarna tófan á ferð. Rökkrið breytir allri skynjun. Grettistök í fjarska taka að líkjast byggingum eða farartækjum og eitt sinn horfi ég niður á húsþök sem reynast vera mýrarvötn þegar nær er komið. Allt mitt traust er sett á staðsetningartækið sem vísar mér beinustu leið aftur að slóðanum illfæra þar sem bíllinn hefur beðið þolinmóður í fimmtán og hálfan tíma. Tjaldið beið svo á Hveravöllum. Þetta var góð ferð.

Krákshraun

Fáfarnar slóðir á hálendinu norðan Langjökuls. Krákshraun og fjallið Krákur.

 


Bloggfærslur 9. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband