Veðrið í Reykjavík 2014

Það er við hæfi að hefja nýtt bloggár með veðuruppgjöri. Til að koma því til skila á sem einfaldasta hátt hef ég útbúið mynd sem sýnir hitafar, sólskin og úrkomu liðins árs í Reykjavík. Rauða línan sýnir hvernig meðalhiti hverrar viku þróaðist yfir árið og er unnin upp úr mínum eigin skráningum. Þar er um að ræða hitann yfir daginn en ekki meðalhita sólarhringsins. Granna svarta línan sýnir svo hvernig hitinn ætti að vera miðað við nokkurskonar meðalárferði.

Gulu sólskinssúlurnar eru teiknaðar útfrá gögnum Veðurstofunnar og sýna sólskin í mánuðinum hlutfallslega (%) miðað við meðalár. Þannig táknar súla nálægt gildinu 100 á kvarðanum hægra megin að sólskin hefur verið í meðallagi.

Úrkomusúlurnar eru einnig teiknaðar eftir gögnum Veðurstofunnar og sýna úrkomu hvers mánaðar í millimetrum miðað við skalann til hægri (eða í cm miðað við skalann til vinstri).
Veðrið 2014
Svo maður fari aðeins yfir þetta þá var þetta í fyrsta lagi mjög hlýtt ár eða annað hlýjasta árið í Reykjavík með meðalhitann 6,0 stig. Mín tilfinning er að hlýindin hafi verið nokkuð lúmsk á árinu en allavega voru þau án mikilla stæla. Mestu munar þar um að hlýindi voru ekkert sérstök á heitasta tíma ársins og desember frekar kaldur. Hitinn var hinsvegar nokkuð jafnt og þétt ofan frostmarks fyrstu mánuðina og vorið reyndist mjög hlýtt. Meðalhitinn í júní var t.d. ekki nema 0,2 stigum frá metmánuðinum júní 2010. September var nokkuð hlýr en nóvember var langt yfir meðaltali og sá hlýjasti síðan 1945 og þar með ljóst að árið yrði með þeim allra hlýjustu í borginni, og um allt land, hvernig sem desember þróaðist.

Sólskinstundir í Reykjavík reyndust nokkuð undir meðallagi og munar þá mest um hvað sumarið reyndist þungbúið lengst af, enda mikið kvartað yfir því. Sólin skein hinsvegar óvenju mikið í febrúar sem um leið var sérlega þurr mánuður. Slíkir vetrarmánuðir eru venjulega kaldir hér suðvestanlands en ekki að þessu sinni því vindur blés aðallega úr austri á meðan köldu norðanáttirnar héldu sig til hlés. Reyndar var talað um að veðurfar síðasta vetur hafi oft verið fast í ákveðnum tilbreytingalausum fasa allt frá Norður-Ameríku til Evrópu eins og stundum vill verða. Það hélt því bara áfram að snjóa þar sem snjóaði og sólin hélt áfram að skína þar sem hún skein. Í tilbreytingaleysinu gátu borgarbúar þó kvartað yfir svellalögum sem aldrei ætluðu að bráðna.

Í samræmi við annað var úrkoman mjög ágeng í júnímánuði, gjarnan með talsverðum dembum sem hálffylltu úrkomumæla en þess á milli dropaði alltaf af og til. Niðurstaðan var blautasti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Júlí var eitthvað skárri en dugði þó hvergi til að lægja óánægjuraddir. Þetta var sem sagt eitt af þeim sumrum sem borgarbúar horfa öfundaraugum til norður- og austurlands og vildu helst hverfa á brott „med det samme“. Þetta reddaðist þó fyrir horn í ágúst eftir Verslunarmannahelgi en þá segja reyndar margir að sumarið sé búið og er alveg sama um veðrið. Haustrigningar hófust svo í september sem reyndist vera úrkomusamasti mánuður ársins en úrkoman var þá tvöfalt meiri en í meðalári og gott betur. Það var því oft yfir ýmsu að kvarta á árinu og ekki minnkaði kvartið í desember þegar hver óveðurslægðin af annarri gekk yfir með snjókomum og spilliblotum en þó að lokum með mjög svo jólalegum jólasnjó um jólin.

Þrátt fyrir ýmis konar veðurkvein í fólki var þetta þrátt fyrir allt hið sæmilegasta veðurár. Veðureinkunnakerfið mitt segir það allavega og metur árið jafnvel í góðu meðallagi miðað við fjölmörg góð ár þessarar aldar. Svipað og með hitann þá voru veðurgæðin bara ekki upp á sitt besta akkúrat á þeim tíma þegar mesta eftirspurnin er. Margt meira má skrifa um veðrið á árinu en ýmsar merkilegar veðuruppákomur áttu sér svo stað á landsvísu og á einstökum stöðum. Þetta yfirlit nær hinsvegar aðeins til veðursins í Reykjavík, enda er það mitt heimapláss. Veðurstofan gera þessu auðvitað ágætis skil á sinni heimasíðu sem og aðrir veðurgeggjarar.


Bloggfærslur 2. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband