Gengið á Ben Nevis

Það var fyrir rúmu ári síðan að ég fór að spá í hvernig best væri að bregðast við yfirvofandi persónulegum tímamótum hjá mér sem tilkomin eru af notkun okkar á tugakerfinu við aldursákvarðanir sem og annað. Það sem kom strax upp í hugann var að ganga á eitthvað gott fjall erlendis sem risi hærra en önnur fjöll í viðkomandi umdæmi eða landi og leiddu þær pælingar fljótlega til Skotlands þar sem er að finna hæsta fjall Bretlandseyja, Ben Nevis, 1344 metrar á hæð. Annað vissi ég svo sem ekki um þetta fjall en eftir smá eftirgrennslan komst ég að því að þetta væri vel göngufært og talsvert gengið.

Ben Nevis kort
Auðveld aðkoma er að Ben Nevis sem stendur rétt ofan við bæinn Fort William. Talað var þó um að Ben Nevis væri fjall sem ekki ætti að vanmeta. Þar uppi sæist sjaldan til sólar - hvað þá til annarra fjalla, auk þess sem þar geisuðu gjarnan miklir vindar sem svipt gætu mönnum fram af hengiflugum, færu þeir ekki varlega. Þetta ætti ekki síst við á haustin þegar Atlantshafslægðirnar fara að gerast ágengar enda ekki að ástæðulausu að stofnað var til veðurathugana á þessum stað seint á 19. öld. Þetta var sem sagt ákveðið. Konan féllst á að taka þátt og var bókuð gisting við fjallsrætur í bænum Fort William. Uppganga yrði stóra daginn, 30. september, en ef illa viðraði var dagurinn á eftir til vara.

Þegar leið á september og styttast fór í þetta var auðvitað legið yfir veðurspám sem voru æði síbreytilegar - allt frá óskaplegri blíðu til stórviðra af verstu gerð. Tilefni til bjartsýni fór þó vaxandi vegna mikils hæðarsvæðis sem gerði sig líklegt að leggja undir sig Bretlandseyjar. Það stóðst, því þegar komið var til staðarins og uppgöngudagur rann upp, var heiður himinn, logn en dálítið morgunsvalt og fjallið blasti við í allri sinni dýrð.
Ben Nevis Stígur

Stígurinn sem liggur upp fjallið var upphaflega ætlaður hestum sem fluttu vistir til veðurathuganamanna á fjallstoppinum. Stígurinn er aldrei verulega brattur þar sem hann liggur í hlykkjum utan í hlíðunum en er þó nokkuð grófur á köflum. Árið 1911 vildu menn sýna fram á hversu nýjustu bifreiðarnar væru megnugar þegar tókst að drösla einu Ford-T módeli alla leið upp í auglýsingaskyni. Sú ferð tók að vísu næstum þrjá daga með miklum tilfæringum en niðurleiðin var hinsvegar farin á þremur klukkutímum.

Ben Nevis toppur
Á toppi Ben Nevis er mjög stórgrýtt og eru leifar mannvirkja áberandi en þær tengjast mönnuðu veðurathuganastöðinni sem þarna var rekin á árunum 1883-1904. Vinnan þar hefur sjálfsagt verið harðneskjuleg í verstu vetrarveðrunum og örstutt í þverhnípt hengiflug. Með tilkomu göngustígsins og starfseminnar á Ben Nevis varð þetta fljótlega vinsæl gönguleið ferðafólks og svo fór að reist var gistiheimili við hlið hýbýla veðurathuganamanna og segir sagan að þeim hafi stundum þótt nóg um ónæðið af völdum góðglaðs göngufólks. Gistiheimilið hélt velli í nokkur ár eftir að veðurathuganastöðin var lögð niður en í dag standa veðurbarðar rústirnar einar eftir af öllu saman.

Ben Nevis rústir
Það var hinsvegar enginn veðurbarningur þennan síðasta dag septembermánaðar á Ben Nevis árið 2015. Þeir sem lögðu á sig gönguna alla leið á toppinn voru því alveg í skýjunum þótt engin ský væru á lofti enda upplifðu menn þarna einstaka veðurblíðu með stórbrotnu útsýni í allar áttir þar sem hver Skoski fjallstoppurinn tók við af öðrum. Þetta munu vera leifar gamalla fellingafjalla sem mynduðust fyrir um 400 milljón árum þegar mikið sameiningarferli meginlanda átti sér stað og hefur verið kölluð Kaledóníufellingin og er myndun Noregsfjalla einnig hluti af því ferli. Ekki sást til snjóa í fjöllum en þó örlaði enn á smásköflum í skuggsælum giljum þarna neðan við fjallstoppinn.

Ben Nevis útsýni
Niðurleiðin er auðvitað jafn löng og uppgangan. Það var lýjandi að feta sig alla þessa leið niður eftir hörðum stígnum og maður hefði alveg þegið góðan snjóskafl til að renna sér niður eins og gjarnan á íslenskum fjöllum. En þessi tímamótaferð lukkaðist sem sagt vonum framar. Helst að bakpokinn hafi verið óþarflega úttroðinn af ónotuðum skjólfatnaði sem þó er alltaf vissara að hafa með á fjöll. Tala nú ekki um þegar um er að ræða hæsta fjall Bretlandseyja, svo hátt sem það nær.

Ben Nevis - EHV

Karlinn sjálfur á toppnum.


Bloggfærslur 9. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband