Um Öræfin og þegar höfundur landrekskenningarinnar kom til Íslands

Já ég las Öræfin eftir hann Ófeig og það sem meira er, ég komst léttilega í gegnum hana og hafði gaman af. Ekki nóg með það, að lestri loknum var ég á því að þetta væri einhver besta bók sem ég hafði lesið. Tíminn mun þó leiða í ljós hvort um stundarhrifningu hafi verið að ræða. Þetta er allavega hin merkasta bók sem og allt í kringum hana og gæti verið uppspretta að ýmsum bloggfærslum hjá mér. Eitt af því sem ég staldraði við og fannst merkilegt í Öræfabókinni er þar sem fjallað er um Alfred Wegener, veðurfræðing og höfund flekakenningarinnar, þar sem hann á að hafa verið staddur á Þingvöllum ásamt landmælingamanninum Kafteini Koch. Ef satt er hefur sú stund hefur verið örlagarík fyrir Wegener og vísindin, eða eins og segir orðrétt í bókinni á bls 88:

„Wegener uppgötvaði jarðflekana þegar hann stóð á Þingvöllum á snakki með Koch og horfði í Almannagjá, þeir voru að ræða kristnitökuna árið 1000 sem þarna fór fram, og aðskilnaðinn á milli heiðinna og kristinna manna, þá blöstu flekaskilin við Wegener og hugmyndin um flekakenninguna vaknaði í huga hans.“

Eins og gengur og gerist í skáldsögunum þá veit maður ekki alltaf hvað satt er og hvað er skáldað. Öræfabókin er orðmörg bók og full af útúrdúrum um ýmislegt sem tengist misvel sjálfri sögunni. En skildi það vera satt að gjárnar á Þingvöllum hafi gefið dr. Wegener hugmyndina að sjálfri flekakenningunni, eða er þetta bara saklaust skáldaleyfi?

Það er reyndar vitað að Dr. Wegener kom til Íslands árið 1912, ári eftir að hann kynnti landrekskenningu sína. Hann var þá hér staddur að undirbúa leiðangur yfir Grænlandsjökul ásamt áðurnefndum félaga sínum Koch og fleirum. Í Grænlandsleiðangrinum sem farinn var 1912-1913 notuðu þeir íslenska hesta og var það ferðalag mikil þrekraun fyrir alla. Fyrir Grænlandsleiðangurinn var farin æfingaferð á Vatnajökul og munu þeir Kogh og Wegener hafa farið þangað yfir hálendið norður frá Akureyri þar sem leiðangursskip þeirra beið. Kogh þessi er reyndar stórt nafn í landmælingasögu Öræfasveitar og skipar stóran sess í Öræfabókinni. Er eiginlega einn af miðpunktum sögunnar og örlagavaldur. Hann hafði verið skipaður af danska herforingjaráðinu 10 árum áður til að mæla upp og kanna Öræfin vegna kortagerðaverkefnisins sem þeir dönsku stóðu fyrir. Hann hafði þá einmitt notað hesta til jöklaferða og á þeim ferðum urðu til örnefni eins og Hermannaskarð og Tjaldskarð. Ferðir kafteins Koghs eru síðan fyrirmynd söguhetjunnar í Öræfabókinni sem hélt til Íslands og á jökulinn með hesta og koffort mikið sem innihélt allan búnað og bækur auk þess að vera hans íverustaður.

Alfred WegenerEn aftur að Wegener. Hann fór sem sagt í æfingaferð suður yfir Norðurhálendið og upp á Vatnajökul árið 1912. Það var ári eftir að hann setti fram landrekskenningu sína sem enginn tók mark á, enda vantaði í hana öll áþreifanleg sönnunargögn önnur en þau að strandlengjur landanna sitt hvoru megin við Atlantshafið pössuðu furðu vel saman á landakortum. Allir hugsanlegir rekhryggir voru faldir neðansjávar en þar fyrir utan þótti alveg óhugsandi að heilu meginlöndin gætu færst til sundur og saman. Þau gátu hinsvegar risið eða sokkið í sæ, eins og menn trúðu langt fram eftir 20. öld og kennt var í skólum fram undir 1980 samkvæmt minni eigin reynslu.

En þá að annarri bók sem er Hálendið eftir Guðmund Pál Ólafsson. Þar er einmitt sagt frá því á bls. 358 þegar Dr. Wegener og félagar fóru yfir hin eldbrunnu svæði Norðurhálendisins áleiðis að Vatnajökli. Þar hefði mátt halda að Wegener hefði einmitt átt að finna sönnunargögn sem styddu hans umdeildu flekakenningu. En svo fór ekki, því samviskusamur leiðsögumaður þeirra íslenskur, var einmitt svo gjörkunnugur landinu að hann gat vísað þeim leið án nokkurra farartálma í formi gliðnunarsprungna sem töfðu gátu för að jöklinum. Í bókin Hálendið segir:

„Í Ódáðahrauni var þessi snillingur staddur á slíkum rekhrygg en allt of góðir leiðsögumenn hafa eflaust valið bestu leiðina um hraunið. Hann sá aldrei sprungukerfi Ódáðahrauns og áttaði sig ekki á að hann var staddur á eina hryggjastykki Norður-Atlantshafs ofansjávar sem flekakenning hans byggðist á. Að öllu líkindum hefði saga jarðfræðinnar verið önnur ef Wegener hefði fetað hina fornu Biskupaleið eða lent í ógöngum Veggjastykkis. Þá hefði kenning hans líklega aldrei verið kaffærð í hartnær hálfa öld.“

Í Hálendisbók Guðmundar Páls er hinsvegar ekkert talað um upplifum Dr. Wegeners á Þingvöllum áður en hann setti fram flekakenningu sína árið 1911, hvað þá að hann hafi fengið hugmyndina að henni hér á landi eins og kemur fram í skáldsögu Ófeigs og ekkert yfirleitt um að hann hafi komið til Íslands fyrr en árið 1912. Maður veit þó ekki hvað er satt og rétt. Annað hvort var Ísland einmitt kveikjan að flekakenningunni eða þá að hann hafi í Íslandsferð sinni einmitt farið á mis við það sem vantaði til að styðja kenningar hans, sem voru langt á undan sinni samtíð. Báðar útgáfur sögunnar eru góðar en ég hallast þó frekar að því að í skáldsögu Ófeigs sé sannleikanum aðeins hnikað til í þágu skáldskaparins.


Bloggfærslur 8. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband