Kanar í staðbundinni kuldasúpu

Það fer ekki á milli mála að kalt hefur verið víða í Norður-Ameríku. En hversu víðtækir eru þessir kuldar? Ekki svo miklir eða eiginlega bara mjög litlir eins og sjá má á þessu korti sem sýnir frávik af meðalhita á hverjum stað. Í heildina hefur verið hlýtt á jörðinni fyrir utan þennan kalda blett í vestri og flest sem bendir til þess að hlýtt verði áfram á jörðinni og jafnvel enn hlýrra en var í fyrra. Sjáum þó til með það.

Heimshiti feb 2015

Þótt Ameríkanar margir hverjir hafi setið í kuldasúpunni þá flæðir sú súpa ekki víða, helst að við hér fáum smjörþefinn í útsynningnum. Talsvert hlýrra en venjulega hefur verið í Skandinavíu, Síberíu, Alaska og annarsstaðar á Kyrrahafsströnd N-Ameríku að ógleymdu sjálfu N-Íshafinu. Reyndar er það svo að hafísinn á Norðurhveli er með allra minnsta móti núna miðað við árstíma en þetta er annars sá árstími sem ísinn er í hámarki á Norðurhveli. Hvort það hafi eitthvað að segja þegar kemur að sumarbráðnun mun koma í ljós síðar eins og annað. Hér að neðan má sjá hvernig hafískúrfan lítur út núna um hávetur samkvæmt Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni. Útbreiðslan er greinilega undir meðallagi og mun minni núna en hún var veturinn fyrir metlágmarkið, sumarið 2012.

Hafís 7. mars 2015


Bloggfærslur 9. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband