Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Samkvæmt venju er nú komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að birta mynd af Esjunni sem tekin er fyrstu vikuna í apríl þegar skyggni leyfir og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því nú orðnar 10 talsins. Að þessu sinni var bjart í lofti strax á fyrsta degi mánaðarins en ekki mikill vorbragur. Kalt var þarna í veðri en nokkrum dögum fyrr hafði snjóað nokkuð til fjalla sem og í byggð. Sökum kulda náði sólin lítið að vinna á þeirri snjóþekju nema helst í neðstu hlíðum fjallsins. Sjá má líka glitta í snjó í forgrunni myndarinnar sem tekin er við Sæbrautina og er það nýjung miðað við fyrri myndir. Aðrar nýjungar óháðar tíðarfari er setubekkur, rusladallur og þrjú skilti sem komið hefur verið þarna upp við göngustíginn.

En allavega. Esjan kemur hvít undan vetri að þessu sinni og virðist nokkuð snjóþungt í efri hlíðum sem er í samræmi við úrkomusaman vetur og frekar kaldan miðað við fyrri ár. Það getur varla talist líklegt að snjórinn hverfi á komandi sumri nema tíðarfarið verði þeim mun hagstæðara. Þetta hefur dálítið verið að breytast hin allra síðustu ár. Lengsta þekkta tímabil snjólausrar Esju að loknu sumri er árabilið 2001-2010. Síðan komu tvö tæp ár en óumdeilt er að snjórinn hvarf ekki árin 2013 og 2014. Setjum nokkur spurningamerki við 2015 meðan við vitum ekki betur. Hér eru þá myndirnar:

Esja april 2015

Esja april 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006


Bloggfærslur 3. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband