Vetrarhitamósaík

Það er nokkuð síðan ég birti samskonar mynd og þessa sem sýnir með hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík aftur til 1989. Myndin skýrir sig vonandi sjálf en hver láréttur borði táknar einn vetur og litirnir tákna hitafar. Þannig stendur dökkblár litur fyrir kuldakast með 5-10 stiga frosti að meðaltali, en appelsínugulur táknar hlýindi uppá 5-10 stiga hita. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn en þannig sjást vel einstök hita- og kuldatímabil hvers vetrar. Þetta er byggt á eigin veðurskráningum en til hægri sést meðalhiti sömu mánaða skv. tölum Veðurstofunnar.

Vetrarmósaík 1989-2015

Fyrir utan skrautlegt útlit má sjá ýmislegt út úr þessu. Meðalhiti síðasta vetrar var 1,0 stig í Reykjavík sem einmitt er í meðallagi alls tímabilsins frá 1989. Mestu munar þó um hvað nóvember var sérlega hlýr en eftir það höfum við alveg farið á mis við hlýindi hér í borg. Í myndinni í heild má einnig sjá að bláu fletirnir eru algengari á fyrstu árunum og kaflar með hörkufrosti eru orðnir fátíðir.

Gulu fletirnir segja líka sína sögu. Þeir eru nokkuð tíðir seinni hluta tímabilsins en hefur þó farið fækkandi um háveturinn síðustu fjögur ár. Það hefur örugglega sitt að segja. Hiti á bilinu 5-10 stig um hávetur nokkra daga í senn, kemur ekki að sjálfu sér. Til þess þarf eindregna sunnanátt sem flytur með sér vænan skammt af hlýindum nokkra eða marga daga í senn og mætti kalla það sunnanáttarviðburði. Slíkir margendurteknir sunnanáttarviðburðir að vetrarlagi gætu verið grundvöllurinn að þeim hlýindum sem ríkt hafa hér eftir aldamót – og þá ekki bara hér í Reykjavík heldur víðsvegar á okkar slóðum við Norður-Atlantshaf. Hlýindagusurnar draga ekki bara úr vetrakuldum heldur hljóta þær einnig að stuðla að hærri sjávarhita hér um kring. Skorturinn á þessum sunnanáttarviðburðum síðustu mánuði gæti því haft sitt að segja um framhaldið enda sitjum við nú súpunni með kaldari sjó við Norður-Atlantshaf en verið hefur lengi.


Bloggfærslur 2. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband