Flóðbylgjan mikla í Atlantshafinu 1014

Þær eru ýmsar hamfarirnar sem herjað geta á mannkyn. Þar á meðal eru hamfaraflóðbylgjur á borð við þær sem áttu sér á Indlandshafi og við Japan í kjölfar tveggja risajarðskjálfta með nokkurra ára millibili. Hér í Atlantshafinu eru jarðfræðilegar aðstæður aðrar þar sem úthafsflekar að reka hver frá öðrum en það gerist með mun hófsamari hætti heldur en t.d. í Kyrrahafinu þar sem úthafslekar þrengja sér með látum undir meginlandafleka.

Ekki er þar með sagt að íbúar við strendur Atlantshafsins þurfi ekkert að óttast um aldur og ævi. Það hefur til dæmis verið nefnt að risaflóðbylgja geti orsakast vegna eldfjalls á Kanaríeyjum sem getur hrunið í sjó fram í ótilgreindri framtíð. Svo eru það sendingar af himnum ofan. Það má vel ímynda sér þær skelfilegu afleiðingar fyrir Vesturlönd ef sæmilegur loftsteinn félli í Norður-Atlantshafið með tilheyrandi flóðbylgju sem ná myndi til stranda Norður-Ameríku og vestur-Evrópu sem og auðvitað Íslands.

Dropi í hafið
Svo vill reyndar til að eitthvað slíkt mun að öllum líkindum hafa gerst fyrir réttum 1000 árum en rannsóknir landfræðingsins Dallas Abbott hjá Columbíuháskóla benda sterklega til þess að árið 1014 hafi loftsteinn, eða halastjörnubrot, fallið á mitt Atlantshafið með víðtækum afleiðingum. Ummerki í formi framandi brota og korna hafa fundist í New York-fylki í Bandaríkjunum á 3800 km löngu svæði en einnig á Antíleyjum í Karíbahafínu. Ýmislegt er óljóst um afleiðingar meðal frumbyggja Ameríku en tilvísanir í hamfaraflóð eru taldar felast í ýmsum steinristum frá 11. öld í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku. Svokallaður "dauði hinnar fjórðu sólar" hjá Aztekum er einnig meitlaður í steindagatal þeirra en þau tímamót passa ágætlega við þetta ártal.

Afleiðingar fljóðbylgjunnar við strendur Evrópu hafa sjálfsagt verið talsverðar en allur gangur getur verið á því hversu vel atburðirnir út við strendurnar hafa ratað í annála. Þó eru til heimildir, t.d. ein engilsaxnesk er segir frá stórhamförum við suðvesturströnd Englands og Írlands. Upprunalegur texti kemur hér ásamt enskri þýðingu.

Anno Domini 1014 – On þissum geare on Sancte Michaeles mæsseæften com þæt mycle sæflod gynd wide þysne eard arn swa feor up swa næfre ær ne dyde adrencte feala tuna mancy tonnes un arimedlic ov getel.
1014 AD – This year, on the eve of St. Michael’s day (September 28), came the great sea-flood, which spread wide over this land, and ran so far up as it never did before, overwhelming many towns, and an innumerable multitude of people.

Í The History of the English Kings segir einnig: “A tidal wave, of the sort which the Greeks call euripus, grew to an astonishing size such as the memory of man cannot parallel, so as to submerge villages many miles inland and overwhelm and drown their inhabitants.” Einnig munu vera til heimildir um mikla mannskaða á Niðurlöndum, þ.e. Hollandi og Belgíu sem raktir eru til sjávarflóðs árið 1014.

Ýmislegt má finna á netinu um þessa atburði en mest af því sem ég hef skrifað hér kemur héðan: People of One Fire CATASTROPHIC NATUREL DISASTER STRUCK THE AMERICAS AROUND 1000 YEARS AGO.

Ummerki á landi eftir flóðbylgju, austan hafs og vestan, eru til staðar þótt ekki séu menn endilega vissir um hvaða atburðum megi kenna um. Vísa hér í eina rannsókn á ummerkjum í Norður-Wales en þar eru umræddir atburðir 1014 meðal þeirra sem liggja undir grun. Evidence for historic coastal high energy wave impact (tsunami?) in North Wales, Inited Kingdom.
Þar segir meðal annars: "Baillie (2006, 2007) cites ice core data that show an anomalous peak in ammonium at AD 1014 that he considers indicates a comet impact. This is supported in that the only other ammonium peak of similar size within the last 2000 years occurs in 1908 coincident with the Tunguska bollide impact over Siberia."

Þarna er vísað í atburðina í Síberíu 1908 þegar loftsteinn eða halastjörnubrot féll á strjálbýlt svæði en olli ekki miklum skaða utan þess. Allt annað mál er ef árekstur verður yfir opnu hafi vegna flóðbylgjunnar sem þá myndast. Austurströnd Bandaríkjanna er sérstaklega viðkvæm fyrir slíku vegna flatlendis og fjölmennis og því mögulegt að milljónir mannslífa gætu verið í hættu auk annars tjóns. Spurning hvort stórveldið stæði undir nafni eftir slíkt.

Hvað Ísland varðar þá erum við ekki í síðri hættu en aðrir. Ég fann að vísu ekkert við snögga leit í annálum en Sigurður Þór, bloggfélagi vor, tók saman á sínum tíma það sem íslenskir annálar segja um tíðarfar og allskonar náttúruóáran. Ekkert er þar minnst á árið 1014. Hinsvegar fann ég að ártalið 1014 kemur fyrir í Heiðarvíga sögu sem talin er vera ein elsta Íslendingasagan og segir frá afkomendum Egils Skallagrímssonar, vinum þeirra og óvinum þar sem hefndarvíg eru framin á víxl. Hárekssynir koma þar við sögu í 13. kafla:

Hárekssynir þykjast nú nokkru hafa á veg komið um hefndirnar, fara sem fljótast suður með Noreg og allt til Danmerkur. Og að áliðnu sumri brjóta þeir skip sitt í spón við Jótlandssíðu so enginn komst af.

AðalríkurHvort þessi skipsskaði Hárekssona að áliðnu sumri við Jótlandssíðu tengist halastjörnuhrapi eða atburðunum við Bretlandseyjar 28. september sama ár, vitum við ekki en það má alveg íhuga möguleikan.

Árekstur halastjörnubrota eða loftsteina er vissulega einn af mörgum þeim þáttum sem geta orðið okkur að fjörtjóni. Sendingar af himnum ofan eru af öllum stærðum og gerðum. Flestar þeirra brenna upp til agna á meðan þær stærstu geta valdið fjöldaútdauða og kaflaskilum í jarðsögunni. Við þurfum þó varla að hafa áhyggjur af slíku svona dags daglega þótt sjálfur Aðalríkur allsgáði leggi iðulega ríka áherslu á málið í sínum málflutningi.

 


Bloggfærslur 5. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband