Þá er það hafísinn

Nordurpoll vefmyndavel 13. águst 2015

Nú ætla ég að taka létta stöðu á hafísmálum á Norðurslóðum svona rétt fyrir lokasprett bræðsluvertíðar sem stendur fram í september. Sumarbráðnunin gengur annars sinn vanagang en þó með sínum árlegum sérkennum. Það stefnir svo sem ekki í neitt sérlega sögulegt sumar á Norður-Íshafinu. Lágmarksmetið frá sumrinu 2012 verður væntanlega ekki slegið, opið haf mun væntanlega ekki myndast yfir Norðurpólnum en þó bendir flest til að útbreiðslan í sumarlok verði lægri en árin tvö á undan og sama gildir um heildarrúmmál íssins. Nokkrar vikur eru þó í viðsnúning og enn pláss fyrir óvæntar uppákomur. Línurit yfir útbreiðslu hafíssins, í boði Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðvarinnar, kemur hér fyrst.

Hafíslinurit ágúst 2015

Blái ferillin stendur fyrir þróunina 2015 en til viðmiðunar eru fjögur síðustu ár, ásamt meðaltalinu 1981-2010 sem er talsvert fyrir ofan. Um þessar mundir er útbreiðslan að fara niður fyrir 6 milljón ferkílómetra-markið og komin niður fyrir tvö síðustu ár. 2011 er rétt handan seilingar en lengra er í 2012 ferilinn sem átti eftir að taka mikla dýfu fram í september. Spurning er hvernig framhaldið verður með útbreiðsluna í ár.

En þá er að skoða kort sem sýna útbreiðslu og þéttleika hafíssins, í boði Brimarhafnarháskóla.

Hafískort Bremen 13. ágúst

Núverandi staða er þarna á kortinu niðri til hægri en metárið 2012 er uppi til vinstri. Það má sjá á 2015-kortinu að útbreiðslan gæti enn dregist töluvert saman norður af Alaska enda ísinn þar gisinn af gulgrænu litunum að dæma. Þar er líka talsverð ísspöng sem slitið hefur sig frá meginísbreiðunni en þar mun vera á ferðinni ört bráðnandi fjölær ís sem var orðinn talsverður á þessum slóðum eftir tiltölulega slök bræðslusumur síðustu tvö ár. Síberíustrendur eru nánast íslausar og vel skipafærar þótt ekki muni miklu þarna á einum stað. Hvalkjötsflutningar okkar ættu allavega ekki að stöðvast hafíssins vegna þetta árið.

Útbreiðsla íssins er eitt og þéttleiki annað. En svo er stundum talað um flatarmál íssins (Area) en þá er einmitt þéttleiki íssins tekinn inn í dæmið. Í línuritaspagettíinu hér að neðan sem fengið er af síðunni Freðhvolfið í dag, eru sýnd hafísslágmörk allra árana eftir 1979.

Hafísflatarmál 1979-agust2015

Þegar kemur að flatarmáli, sést að ísinn í ár (gul lína) er mun minni en á síðasta ári (rauð lína). Núverandi flatarmál er örlítið ofan við 2011 um þessar mundir og nánast jafnt gamla metárinu 2007. Árið 2012 er hinsvegar í forystu eins og fyrr. Af þessu að dæma er ekkert bakslag um að ræða þetta árið og alveg mögulegt að flatarmálið íssins verði það næst lægsta í sumarlok - allavega frá upphafi nákvæmra gervitunglamælinga árið 1979.

Á sama tíma á Suðurhveli er veturinn að ná hámarki og styttist í hámarks-vetrarútbreiðslu hafíssins. Ég fer ekki náið út í það en hinsvegar er það að frétta þaðan að umrætt vetrarhámark stefnir í að verða með lægsta móti miðað við stöðuna í dag (sjá gula ferilinn). Þetta eru mikil umskipti frá síðustu tveimur árum sem einkenndust af óvenjumiklum hafís.

Hafísflatarmál Suður ágást 2015

Samanlagður hafís á báðum jarðarhvelum hefur í samræmi við þetta allt saman dregist mjög mikið saman upp á síðkastið og komið á ný langt undir meðallag, samanber línuritið hér:

Samanlagður hafís ágúst 2015

Látum þetta nægja af hafísmálum að sinni. Ég verð á vaktinni áfram og tek stöðuna eftir mánuð þegar árlegt hafíslágmark á Norðurhveli liggur fyrir. Minna má það ekki vera enda er maður sérlegur hafísbræðslumeistari íslenskra glópahlýnunarsinna, eins og ég var kallaður á ónefndri fésbókarsíðu á dögunum.


Bloggfærslur 14. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband