Lýðveldisbörnin komin út á bók

Þær hafa verið nokkrar stórhátíðirnar sem haldnar hafa verið á Þingvöllum. Gjarnan er þá verið að minnast sögulegra atburða svo sem kristnitökunnar, stofnunar alþingis, stofnunar lýðveldisins og jafnvel landnámsins sjálfs. Þann 17. júní 1944 þegar þjóðin kom saman á Þingvöllum var hins vegar ekki verið að minnast eins eða neins heldur var þar um að ræða atburð sem markaði þáttaskil í sögu þjóðarinnar, nefnilega stofnun sjálfs lýðveldisins. Þetta var því sannkallaður gleðidagur hjá þjóðinni sem loksins stóð á eigin fótum og gat horft bjartsýn fram á við, eða að minnsta kosti vonað það besta í viðsjárverðum heimi. Auðvitað voru svo einhverjar mismunandi skoðanir á því hvernig staðið var að aðskilnaðinum við Dani sem bjuggu þarna enn við þýskt hernám og höfðu því lítið um okkar mál að segja.

Lýðveldisbörnin bókOg þjóðin mætti á Þingvöll, eða að minnsta kosti stór hluti hennar, ungir sem aldnir, á öllum þeim fararskjótum sem völ var á og átti þar blautan en ógleymanlegan dag í frægustu rigningu Íslandssögunnar. Margir hinna yngri, sem þarna voru, eru enn til frásagnar eins og lesa má í bókinni Lýðveldisbörnin sem nú er komin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Veðurfræðingurinn Þór Jakobsson er eitt þessara lýðveldisbarna og átti hann frumkvæðið að því að safna saman minningum alls 86 manna og kvenna frá hátíðinni með bókaútgáfu í huga. Til liðs við sig í verkið fékk hann sagnfræðinginn Örnu Björk Stefánsdóttur en mér sjálfum hlotnaðist sá heiður að sjá um útlit og uppsetningu bókarinnar og klára fyrir prent. Það hefur verið ánægjulegt að koma að þessu verki sem ég held að hafi bara tekist nokkuð vel.

Annars er fróðlegt að lesa lýsingar unga fólksins af lýðveldishátíðinni. Sumir eru stuttorðir og muna lítið annað en sjálfa bílferðina og rigninguna. Aðrir hafa frá mörgu að segja og bæta við hugleiðingum um tíðarandann og sjálfstæðishugsjónina fyrr og nú. Eitthvað er um misminni sem er ekki óeðlilegt eftir allan þennan tíma og minnast jafnvel einhverjir atriða eins og glímukeppni sem þó fór ekki fram vegna úrhellis og bleytu. Rigningin kom þó ekki í veg fyrir að lýðveldisstofnun var fagnað og því fylgdu mikil ræðuhöld, upplestur á ættjarðarljóðum að ógleymdum lúðrahljómum, öllum söngnum og árnaðaróskum frá erlendum sendifulltrúum. Mest um vert þótti heillaóskaskeytið sem kom frá sjálfum kónginum sem frá og með þessum degi var ekki lengur kóngurinn okkar. Einhverjir felldu regnvot tár og hugsuðu um blessaðan kónginn sem ekki ætlaði að gera veður úr þessu upphlaupi okkar. En það birti aftur til og brast á með góðviðri og þurrki daginn eftir þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman í miðbæ Reykjavíkur til að hlusta á fleiri ræður. Já, þetta hljóta að hafa verið skemmtilegir dagar.

Reykjavík 18. júní 1944

Hátíðarhöld í Reykjavík 18. júní 1944.
Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson og er hún ein fjölmargra ljósmynda í bókinni

Nánar um bókina hér: http://hib.is/vara/lydveldisbornin/


Bloggfærslur 3. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband