Reykjavíkurhitasúluritið

Nú eru sjö mánuðir liðnir af árinu og allt stefnir í að 2016 verði allnokkuð hlýrra hér í Reykjavík heldur en síðasta ár. Ekki þarf að vísu mikið til því árið 2015 var kaldasta árið það sem af er öldinni. Af þeim sjö mánuðum sem liðnir eru hafa 4 mánuðir verið hlýrri en meðaltal síðustu 10 ára. Janúar og maí voru undir þessu 10 ára meðaltali en þó fyrir ofan hið opinbera en kalda viðmiðunartímabil 1961-1990. Febrúar er hinsvegar kaldasti mánuðurinn það sem af er, bæði í raun og miðað við meðalhita, enda var hann kaldari en “kalda meðaltalið” segir til um.

Á glænýrri útgáfu af súluritinu hér að neðan sést hvernig þetta lítur út. Fjólubláu súlurnar standa fyrir þá mánuði sem liðnir eru, en til viðmiðunar er meðalhiti mánaðanna síðustu 10 ár (rauðar súlur) og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 (bláar súlur). Eins og sjá má getum við vel við unað og sumarið hefur staðið sig vel hvað hita varðar.

Reykjavíkurhiti 2016 - 7 mánuðir
Til hægri á myndinni eru fimm árshitasúlur. Bláa súlan þar er fyrir “kalda meðaltalið” þegar meðalhitinn í Reykjavík var einungis 4,3 stig en rauða súlan stendur fyrir síðustu 10 ár og er í 5,4 stigum. Tónuðu súlurnar tvær, sýna sem fyrr, áætlaðan árshita 2016 eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá “kalda meðaltalinu” eða meðalhita síðustu 10 ára, samkvæmt mínum útreikningum. Kaldara framhaldið gefur okkur þannig 5,0 stiga árshita en verði framhaldið áfram í hlýrri kantinum verður meðalhitinn um 5,4 stig, sem einmitt er í takt við þau hlýindi sem við erum farin að venjast á þessari öld. Hvort heldur sem er þá stefnir árshitinn töluvert hærra en árið í fyrra (sem var 4,5 stig) en 2015 er sýnt þarna sem græn súla allra lengst til hægri. Hvað framhaldið varðar þá er auðvitað alltaf möguleiki á óvæntum öfgum í hitafari í aðra hvora áttina en burt séð frá því þá erum við í ágætis hitamálum nú um stundir og verðum vonandi áfram.


Bloggfærslur 2. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband