Heimsins hæstu byggingar

Á bloggsíðu þessari er meiningin að fjalla aðallega um himinn og jörð og stundum sitthvað þar á milli. Hvað sem það nú annars þýðir, þá finnst mér alveg við hæfi að skrifa um það sem nær frá jörðu til himins, eins tilfellið er með hæstu og glæsilegustu húsin hér á jörð.

Í byrjun þessa árs var mikið um dýrðir í Arabíska furstadæminu Dubai þar sem langhæsta hús sem byggt hefur verið, var formlega tekið í notkun. Turninn fékk nafnið Burj Khalifa og er um 300 metrum hærri en hæstu byggingar sem þar koma á eftir og er sjálfsagt langt í að annað eins verði byggt. Annars er dálítið athyglisvert að miklir skýjakljúfar eru gjarnan vígðir einmitt í þann mund þegar fjármálakreppur skella á enda er byggingartími skýjakljúfa álíka langur og ein góðærisbóla.

Það er liðin tíð að hæstu byggingar heims sé að finna í Bandaríkjunum því himinháir skýjakljúfar hafa risið hratt síðustu árin í Asíu. Þetta má sjá á myndinni sem ég hef útbúið og sýnir nokkra af frægustu skýjakljúfum heims og ef vel er að gáð sést grilla í hæsta húsið á Íslandi.

Turnar 2010

Af þeim háhýsum sem sjást á myndinni er Empire State byggingin langelst en hún var tekin í notkun árið 1931 skömmu eftir að heimskreppan mikla skall á og skákaði þar með Chrysler byggingunni sem hafði verið hæsta bygging heims í aðeins eitt ár. Empire State byggingin hélt titli sínum allt þar til tvíburaturnarnir World Trade Center voru teknir í gagnið árið 1972.
Willis Tower í Chicago, (betur þekktur sem Sears Tower) var fullbyggður árið 1974 og tók þá við titlinum hæsta bygging í heimi. Þegar hæð byggingarinnar er nefnd eru loftnetin ekki talin með því þau teljast ekki vera hluti af arkitektúr byggingarinnar, að þeim meðtöldum nær byggingin næst mestu heildarhæð allra bygginga í dag.
Eftir að Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu voru reistir árið 1998, misstu Bandaríkjamenn að lokum forystuna um hæstu byggingar heims til Asíulanda. Í þessu tilfelli eru turnspírurnar taldar með í hæðinni enda hluti af arkitektúrnum. Hæðirnar eru þó „ekki nema“ 88 talsins á meðan Willis turninn er 108 hæðir.
Árið 2003 var komið að Taiwan, en þar reis 101 hæðar skýjakljúfur Taipei 101 og var þetta hæsta hús heimsins þar til nú í ársbyrjun. Þetta var líka fyrsta byggingin sem samkvæmt hæðarreglum rauf 500 metra múrinn.
Hæsta húsið í Kína og það þriðja hæsta í heiminum í dag er Shanghai World Financial Center sem er 101 hæða bygging og 492 metra há. Við hlið hennar er önnur mjög há bygging uppá 421 metra en þriðja risabyggingin á svæðinu er í smíðum og á að verða um 630 metrar á hæð.
Eftir að smíði Burj Khalifa í Dubai var lokið, er ljóst að sett hefur verið nýtt viðmið í hæð skýjakljúfa enda slagar turninn hátt upp í Esjuna. Það er þó alveg mögulegt að byggja hærri hús ef mikilmennskan heldur áfram og efnahagsástand leyfir. 1000 metra hús er til dæmis sagt alveg tæknilega framkvæmanlegt.

Framkvæmdagleði okkar Íslendinga á undanförnum góðæristímum skilaði af sér allnokkrum háhýsum á okkar mælikvarða. Af þeim er háhýsið við Smáratorg hæst, um tveimur metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Þriðja hæsta byggingin á Íslandi er síðan 19 hæða turninn við Höfðatorg sem opnaður var í fyrra. Það verður sennilega einhver bið á því að hærri hús rísi á Íslandi því væntanlega verður ekki mikið úr 28 hæða og 100 metra háum turninum sem til stóð að reisa í Kópavogi, enda kannski komið nóg í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Alltaf finnst mér grafíkin hjá þér jafn flott. Hvaða hugbúnað ertu að nota til að útbúa þessar myndir?

Fróðlegur og skemmtilegur pistill annars.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 17.1.2010 kl. 13:48

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jú takk. Myndin er útbúin í Photoshop og grafíska hönnunarforritinu Freehand.

Freehand er reyndar í útrýmingarhættu því samkeppnisaðilinn Adobe keypti það fyrir nokkrum árum, til að leggja það niður. Nú er því Adobe Illustrator orðinn allsráðandi sem grafískt forrit, en svona til heimabrúks þá finnst mér Freehandinn alltaf jafn góður og meðfærilegur.

Annars er kannski ekki mjög viðeigandi að fjalla um svona glæsibyggingar á meðan hörmungarnarnar standa yfir á Haiti. Það má þó alveg minnast á það að háhýsi geta líka hrunið á dramatískan hátt eins og sagan sýnir.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2010 kl. 14:41

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Frábært. Það er gaman að velta fyrir sér hvernig byggingastíll speglar menninguna í hverju landi fyrir sig. Það er óneitanlega kínverskur bragur á turninum í Taipei. En sða í Shanghai er meira í laginu eins og flöskuopnari? Turnarnir í Malaísíu minna á Angkor musterin. Smáralind? Borgarís? Eða bara ekkert sérstakt?

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 17.1.2010 kl. 15:53

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þeir eru einmitt skemmtilegir margir turnarnir í Asíu, kassalagið greinilega á undanhaldi. Það má alveg benda á mjög góða heimasíðu um háhýsi heimsins þar sem eru fínar teikningar af öllum mögulegum háhýsum o.fl.:

http://skyscraperpage.com/

Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2010 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband