Öfug snælína í Esjunni

Kjalarnes snælína

Í bjartviðrinu núna á mánudaginn mátti sjá fyrirbæri sem ég hef stundum tekið eftir og þá sérstaklega í bröttum hlíðum Esjunnar fyrir ofan Kjalarnes. Ég kýs að kalla þetta öfuga snælínu en hugsanlega er til eitthvað fræðilegt orð yfir þetta, en ólíkt venjulegum snælínum í fjöllum er mestur snjórinn þarna neðan snælínunnar. Í síðustu viku féll talsverður snjór hér á höfuðborgarsvæðinu sem og á Esjuna en þegar vindarnir tóku að blása í kjölfarið, feyktist snjórinn á brott þarna í hlíðunum sem nefnist Lág Esja. Hinsvegar hafði hlýnað upp fyrir frostmark á láglendi og blotnað í snjónum upp undir miðjar hlíðar. Þessi öfuga snælína myndast því þar sem frostmarklínan liggur því vindurinn nær ekki að feykja burt blauta snjónum í neðri hlíðunum. Kjalarnes er auðvitað einn af vindasömustu stöðum landsins og það ásamt því hvernig fjallshlíðin liggur á snjórinn þarna oft erfitt uppdráttar en í þessu tilfelli er það þó hiti yfir frostmarki sem verndar snjóinn neðan snælínu. Þetta er auðvitað hið merkasta fyrirbæri sem enginn höfuðborgarbúi ætti að láta fram hjá sér fara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki mætti hanna peysumynstur úr fjallshlíðum með öfugum og réttum snælínum. Svona óreglulegt mynstur í svart hvítu, tekið úr hluta fjallshlíðarinnar. Svo gæti hver peysa verið skýrð í höfuðið á viðkomandi fjalli. Ég þyrfti líklegast að ganga í Herðubreið af því að ég er með svo breitt bak.

Mér finnst þetta milljonahugmynd, en prjónakonurnar eru ekki alveg að kveikja á þessu. Hef tekið fjölda ljósmynda á ferðalögum mínum um landið, þegar ég sé einhverja lekkera sjatteringu í peysu. Ég væri löngu búinn að gera þetta að veruleika ef ég kynni að prjóna.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2010 kl. 03:29

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekki vitlaus hugmynd Jón Steinar, þú hlýtur að finna einhverja sem er til í að prjóna þetta. Mynstrin gætu ýmist verið smáflekkót eða stórflekkót eftir snjóalögum.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.3.2010 kl. 12:36

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski einhver prjónahamhleypan rekist hér inn á bloggið þitt og steli þessari hugmynd. Það yrði hið besta mál. Hér á Siglufirði eru kerlingarnar í einhverri maníu og kompúlsjón að prjóna 200km langan trefil. Hef ekki enn fengið skýringu á þvi til hver, en það hlýtur að vera eitthvað afar göfug. Fjandi einhæft þó og sóun á góðu reyfi og mannauð, ef þú spyrð mig.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2010 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband