Myndir af vettvangi

Laugardaginn 27. mars var ég mættur á gosstöðvarnar ásamt fjölda annarra gosþyrstra áhugamanna. Hér koma nokkrar sjóðheitar myndir af aðstæðum sem svo sannarlega voru ekki alveg hættulausar.

Fimmvörðugos 1

Gönguferðin fram og til baka frá Skógum ásamt góðu stoppi á vettvangitók næstum 12 tíma og var það virkilega þess virði þrátt fyrir kaldannorðanblástur. Þannig blasti tæplega vikugamalt gosið við manni þegar komið var að því úr norðri. Allt er þetta mun hrikalegra en hægt er að sýna á svona mynd. Takið eftir hjólförunum að hrauninu. Vonandi er bíllinn ekki ennþá þarna undir.

Fimmvörðugos 2

Þetta er nú bara ég sjálfur með góðan hjálm enda rigndi þarna öskunni, en þó engu stórgrýti. Myndina tók ferðafélagin minn.

Fimmvörðugos 3

Töluvert af fólki hélt sig neðar við hraunbrúnina þar sem minna var um öskufall, en það var þó ekki hættulaust. Hér hafði rauðglóandi hraungrautur skyndilega brotist í gegn. Hraunið flæddi þarna rólega fram og yfir snjóinn, sem þarna er undir þunnu öskulagi.

Fimmvörðugos 4

Sama hrauntunga og á myndinni fyrir ofan. Þarna hægra megin á myndinni við enda hraunsins er gul stika sem markar gönguleiðina yfir hálsinn. Fáir gerðu sér grein fyrir hvaða hætta er á ferðum við þessar aðstæður. Hér var t.d. það sem einn erlendur ferðamaður girti niður um sig buxurnar rétt við sjóðheitan jaðarinn og lét taka af sér afturendamynd. 

Fimmvörðugos 5

Stuttu síðar leit svæðið svona út. Öflugar gufusprengingar höfðu skyndilega orðið þegar vatnið sauð undir hrauninu þannig að hraunmolar þeyttust í loft upp og aukinn kraftur varð í rennslinu. Fólk flúði í ofboði undan en ég sjálfur var kominn í ágæta fjarlægð, myndin er tekin með aðdráttarlinsu. Þetta voru síðustu stundir göngustikunnar.

Fimmvörðugos 6

Hér sést hvernig gufan hefur lagst yfir norðanverðan hraunjaðarinn þar sem fólkið hafði verið áður. Svæðið var þarna orðið yfirlýst hættusvæði og kominn tími á að halda til baka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Takk fyrir myndirnar og lýsingar á aðstæðum.

Vonandi komst sá berrassaði heim aftur! 

Kama Sutra, 29.3.2010 kl. 07:02

2 identicon

Gaman að sjá þessar flottu myndir sem setja mann vel inní aðstæðurnar.

Aðalheiður Valgeirsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband