Svartur Eyjafjallajökull og gosið 1821-1823

Það er eiginlega ekki sjón að sjá Eyjafjallajökul þessa dagana með sinn svarta mökk og hvítan jökullinn hulinn dökku öskulagi. Á gamalli vatnslitamynd sem máluð var af Erik Bruun sést nokkuð kunnugleg sjón. Þar getur að líta svartan Eyjafjallajökul og gos í fullum gangi. Dökkur bólsturinn sem stígur upp af toppgígnum er ekki ósvipaður því sem við höfum séð í núverandi gosi og þá eins og nú leggur gosmökkinn í suður eða suðaustur af jöklinum. Líklegast sýnir myndin Eyjafjallajökul eins og hann leit út sumarið 1822, því þarna eru hvítar opnar jökulsprungur sem ekki sjást á vorin. Þessi mynd birtist í bókinni Íslandseldar eftir Ara Trausta og nú síðast í Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson. 

Eyjafjallajökull 1822

Síðasta gos í Eyjafjallajökli hófst að kvöldi 19. desember 1821. Dökkan mökk lagði frá fjallinu næstu daga og féll aska í V-Eyjafjöllum og A-Landeyjum auk þess sem vatnavextir urðu í Markárfljóti þegar hlaup komu úr Gígjökli. Þessi fyrsta goslota stóð frekar stutt því um áramótin var allt fjör úr gosinu en flóð komu þó áfram í Markárfljót öðru hvoru. Þann 26. júní 1822, sumarið eftir upphófst gosið á ný með öllu meiri krafti en áður og fylgdi því fíngerð aska sem barst um Eyjafjallasveit og allt fram Seltjarnarnes samkvæmt heimildum. Öflugast hefur gosið svo líklega verið 20.-27. júlí en þá er sagt frá því að sjö gosop hafi verið virk í jöklinum. Dimman mökk lagði þá í vestur svo hálfdimmt varð um tíma á Suðurlandi. Eftir júlí-hrinuna virðist virknin hafa minnkað á ný en þó er sagt frá áframhaldandi öskufalli í nálægum sveitum. Árið 1823 var virknin orðin mjög lítil og ekkert er getið um öskufall. Gufubólstrar munu þó hafa staðið upp úr jöklinum allt þar til Katla tók við þann 26. júní. Það Kötlugös stóð í fjórar vikur og þykir ekki hafa verið verið stórt miðað við mörg önnur.

Nú vitum við ekki hvernig gosið í Eyjafjallajökli mun þróast en miðað við gosið snemma á 19. öld þá ætti ekkert að koma á óvart að gosið sæki í sig veðrið eftir því sem lengra líður og ekkert víst að það versta sé búið. Sennilega mun líka svört ásýnd Eyjafjallajökuls vera viðvarandi meira og minna í allt sumar, jafnvel þótt öskugosið hætti fljótlega. Það snjóar sjálfsagt eitthvað á jökulinn fram eftir vori á milli þess sem askan fellur. Sumarsólin mun hinsvegar ekki vinna á öskunni eins hún gerir á snjónum og því verður einhver bið á því að fannhvítur Eyjafjallajökullinn birtist okkur á ný.

Ljúkum þessu miðvikubloggi með Mílu-mynd af svörtum Eyjafjallajökli frá 4. maí og upphafslínum Gunnarshólma eftir Jónas Hall

 Míla 4.maí Hvolsvöllur

Skein yfir landi sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtærri lind.


- - - -
Varðandi heimildir þá vísa ég í Öldina sem leið 1801-1860

 


mbl.is Ekkert lát á eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Myndin eftir Erik Bruun er frábær, einkum öskumökkurinn og svört áferð eldfjallsins. Samanburður við fjallið í dag er sláandi. Takk fyrir að minna okkur á þessa ágætu mynd. Hvar ætli frummyndin sé niður komin?

Haraldur Sigurðsson, 14.5.2010 kl. 06:30

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Samkvæmt bókinni JÖKLAR Á ÍSLANDI er hún á Kongelige Bibliotek í Köben.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.5.2010 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband