Stjórnlagaþing og Beringssund

Stjórnlagaþingskosningarnar um næstu helgi eru sennilega óvenjulegustu kosningar sem þjóðin hefur tekið þátt í. Þarna eru 525 manns í framboði um 25 sæti á stjórnlagaþingi sem ætlað er að semja handa okkur nýja stjórnarskrá. Frambjóðendur er fólkið á götunni en fátt er um stjórnmálaspekinga, lögfræðinga og engir eru þarna þingmenn. Þetta er dálítið sérstakt í ljósi þess að orðið Stjórnlagaþing er samsett úr orðunum: stjórn, lög og þing. Þetta er ekki ólíkt því að láta fólkið á götunni sjá um að spila landsleiki í knattspyrnu í stað knattspyrnumanna.
En samt verður þetta sjálfsagt heilmikið þarfaþing enda margt óljóst sem stendur í stjórnarskránni sem hefðir hafa í sumum atriðum ráðið því hvernig eru túlkuð.

Persónukjör
Margir frambjóðendanna vilja gera nokkuð róttækar breytingar á sumum atriðum eins og því að taka upp persónukjör í auknu mæli. Sjálfsagt tengist þetta minnkandi vinsældum stjórnmálaflokka nú um stundir enda telur fólk stjórnmálaflokkana hvern annan verri. Stjórnlagaþingskosningarnar eru einmitt eitt allsherjar persónukjör og þar mun fólk kjósa þá frambjóðendur sem það þekkir persónulega og svo á fræga fólkið auðvitað meiri möguleika á að komast að - nema kannski þeir sem frægir eru af endemum.
Hætt er við að málefnin verði í aukaatriði í svona persónuvinsældarkeppni. Kannski betra ef frambjóðendur með svipaðar skoðanir hefðu hópað sig saman til að berjast fyrir sjónarmiðum sínum í sameiningu. Með öðrum orðum - að koma á einhverskonar flokkakerfi. Áherslan á persónur minnir nefnilega dálítið á það sem sagt er í Eurovision - það á að velja gott lag en ekki vinsælan flytjanda, en þetta er einmitt atriði sem við höfum stundum klikkað á.

Atkvæðavægi
Annað stórt tískumál er jöfnun atkvæða til Alþingkosninga. Mörgum finnst óeðlilegt að kosningakerfið hampi sveitamönnum og þorpurum utan að landi umfram okkur sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað ýmislegt til í þessari gagnrýni en þó finnst mér ekkert óeðlilegt að fulltrúar fámennra svæða hafi aðeins meiri möguleika á að komast að, því annars er hætt við að borgríkið Reykjavík verði allsráðandi.
Í Evrópusambandinu hafa fámennari svæði einmitt aukið vægi, allavega miðað vægið sem Ísland gæti haft með hugsanlegri inngöngu. Þeir sem berjast fyrir jöfnu vægi atkvæða ættu því að beita sér fyrir því að í aðildarviðræðum yrði farið fram á að hver Íslendingur hefði sama vægi og hver annar Þjóðverji eða Spánverji. Svo má líka aftur minnast á Eurovision, en þar hafa 300 þúsund Íslendingar sama vægi og 140 milljónir Rússar.

Beringssund
Svo virðist sem Beringssundið hafi átt stóran þátt í hversu óstöðugt loftslag var á síðustu ísöld. Jafnvel má tala um að í 100 þúsund ár, hafi ógnarjafnvægi ríkt hér við Norður-Atlantshaf sem er allt annað ástand en á hlýskeiði því ríkt hefur síðustu 10 þúsund ár. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta atriði en vísa í staðinn á pistill sem ég skrifaði um þetta mál á Loftslag.is. Kannski ætti ég bara áfram að halda mig við svoleiðis skrif.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband