Silfurtónar og Ferry

Það þykir stundum sniðugt að villa á sér heimildir. Ein tegund af slíku er þegar framsæknir tónlistarmenn taka upp á því að hæðast að smekk fjöldans með ákveðnum hætti sem mætti kalla íróníska nálgun í póstmódernískum anda. Ég veit ekki alveg hvenær svona lagað hófst í menningarsögunni en mig grunar að þetta hafi ekki tíðkast mikið fyrr en seint á síðust öld.

Svona kúvendingar takast misvel og ekki alltaf víst að allir fatti djókið. Eitt svona dæmi er þegar hin metnaðarfulla djasshljómsveit Ljósin í bænum komu fram með lagið Diskó Friskó en það var hugsað sem háðsádeila á diskóið. Lagið sló í gegn og er eitt af frægustu diskósmellum íslensku tónlistarsögunnar, en fæstir kannast hinsvegar nokkuð við þá tónlist sem þau gáfu sig annars út fyrir að leika. Sykurmolarnir ætluðu upphaflega að herja á smekkleysuna með sykursætuna að vopni og afhendu smekkleysuverðlaun þeim sem þá þóttu skara fram úr í smekkleysu. Hemmi Gunn var meðal þeirra sem hlutu þau vafasömu heiðurverðlaun.

Af svipuðum rótum og Sykurmolarnir er hlómsveitin Silfurtónar sem hafði á að skipa strákum úr pönk- og nýbylgjugeiranum en þekktastur er sennilega annar söngvari sveitarinnar, Magnús Jónsson, leikari og fyrrum GusGus meðlimur. Það kannast sjálfsagt margir við lagið Töfrar sem er algerlega sykursætt glassúrpopp og bara nokkuð gott sem slíkt en ekki er þó víst að allir hafi áttað sig á djókinu þegar lagið hljómaði á útvarpsstöðvum fyrir um 15-20 árum síðan.



Meiri músik. Bryan Ferry er heldur ekki allur sem hann er séður og kemur sjaldnast til dyranna eins og hann er klæddur. Snemma tók hann að sér hlutverk hins heimsborgaralega sjarmörs og kvennaflagara sem var nokkuð úr takti við þá sem vildu taka sig alvarlega. Myndabandið sem fylgir er frá 1976. Bryan er í sínum hvíta smóking og greinilega ekki staddur í sama tíðaranda og undirleikararnir. Glæsikvendið Jerry Hall lætur þó heillast og á þarna aldeilis fína innkomu þegar líður á lagið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Voru ekki Ðe lónlí Blúboys einhverskonar glens líka? Já og Stuðmenn, svona í upphafi allavega? Báðar hljómsveitir voru svo leynihljómsveitir. Það vissi engin hverjir voru þarna á ferð og það var mikið spáð og spekúlerað í því, sem jók jafnvel vinsældirnar umfram gæði. 

Tilgangurinn var að spúffa blöðrupoppið og kántrýslagara fyrir "bolinn", en þetta endaði þó með því að hljómsveitarmeðlimir urðu fórnarlömb þeirrar tónlistar sjálfir og hafa lítið gert annað síðan.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.4.2012 kl. 11:07

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta sýnir betur en nokkuð að fólki tekst best upp þegar það tekur sig ekki of alvarlega. 

Annars er textinn í laginu Töfrar tær heimspeki sem hver manneskja getur fundið í hjarta sínu. 

Hafðu þúsund þakkir Emil fyrir að rifja þetta upp, ég var næstum búin að gleyma Töfrum.

Magnús Sigurðsson, 14.4.2012 kl. 12:30

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo má bæta við að Stuðmenn duttu niður á nafnið Stuðmenn vegna þess að það var hallærislegasta hljómsveitarnafnið sem þeim datt í hug. Þeir eiga alveg heima í þessum flokki og sjálfsagt líka Ðe lónlí Blúboys. Ég var með í huga að þessi tegund að háði hafi ekki verið áberandi fyrr en eftir svona 1970 þótt auðvitað hafi alla tíð tíðkast að vera með grín og gaman í músik.

Textinn í laginu Töfrar hefur eiginlega farið fram hjá mér merkingarlega séð - ég ætti kannski að bæta úr því.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.4.2012 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband