Ólympíuhetjur og fulltrúi alþýðunnar

OL London2012Nú þegar frjálsu íþróttirnar eru hafnar á Ólympíuleikunum er hægt að segja að keppnin sé hafin fyrir alvöru. Fram að þessu hefur sjónvarpsáhorfendum nánast verið drekkt með endalausum sundkeppnum þar sem íslensku þátttakendurnir eru jafn langt frá sínu skásta og endranær á svona stórmótum. Annars hefur árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Stöku sinnum hafa góðmálmar reyndar lent í höndum Íslendinga, ekki síst þarna í Peking þegar handboltamenn komu heim með heilan silfursjóð.

moskva1980Framfarir í sambandi við Ólympíuleika hafa sennilega verið mestar á fjölmiðlasviðinu og af sem áður var þegar treysta þurfti á æsilegar útvarpslýsingar af framgangi okkar helstu íþróttakappa. Ein slík lýsing er mér minnisstæð frá Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 þar sem meðal annars keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari, Jón Diðriksson. Lítt kunnur fréttamaður, Stefán Jón Hafstein, hafði verið sendur á vettvang og lýsti hann 1500 metra hlaupinu. Allan tímann jós Stefán miklu lofi á Jón Diðriksson sem snemma tók forystu í hlaupinu en inn á milli í öllum hamaganginum mátti heyra eitthvað á leið: „hann er fyrstur … hann er annar … hann er orðinn þriðji … hann dregst aðeins afturúr … hann kemur í mark og er sjöundi – í riðlinum … frábært hlaup hjá Jóni“.

Þótt menn komi síðastir í mark er ekki þar með sagt að þeir séu einhverjir aukvisar eða meðalmenni enda hafa íþróttamenn á Ólympíuleikum lagt á sig ómælt erfiði árum saman. Það má til dæmis minna á að Jón Diðriksson er ennþá handhafi Íslandsmetsins í 1500 metra hlaupi samkvæmt metaskrá FRÍ.

Til að sýna fram á raunverulega getu keppenda á Ólympíuleikunum, ekki síst hinna lakari, langar mig að varpa fram þeirri tillögu að í hverri einstaklingsgrein keppi alltaf einn óbreyttur borgari sem gæti kallast Fulltrúi alþýðunnar. Hann væri valin af handahófi en eina skilyrði fyrir þátttöku hans er að hann hafi burði til að ljúka keppni. Smá sýnishorn af 110 metra hindrunarhlaupi á einhverju móti í Kína fer hér á eftir en miðað við framgöngu eins keppandans verður ekki betur séð en þarna sé einmitt kominn fulltrúi alþýðunnar sem lætur ekki takmarkaða getu hindra sig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólympíuleikarnir eru meira en bara frjálsu íþróttirnar. Mér finnst samt eins og þér að þær skipti mestu máli. Það er samt spennandi að fylgjast með sundinu fyrir þá sem það höfðar til og ástæðulaust að hallmæla því. Hugmynd þín um fulltrúa alþýðunnar yrði kannski vinsæl hjá áhorfendum en framkvæmdaaðilar gætu haft ýmislegt við hana að athuga. 

Sæmundur Bjarnason, 4.8.2012 kl. 10:15

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Frjálsu íþróttirnar eru sennilega það sem flestir fylgjast með en svo eru einstakar greinar sem höfða til vissra þjóða eins og með handboltann hjá okkur. Sundið er ágætt en frekar einhæft að fylgjast með því í heila viku. Fulltrúi alþýðunnar er hugmynd sem ég hef stundum hugsað um en á ekki von á að verði tekin upp. Í 10 kílómetra hlaupi þyrfti sjálfsagt að býða í hálftíma aukalega eða lengur eftir þeim kappa. Samt finnst mér alltaf áhugavert að sjá þá keppendur sem eru langsíðastir en eru samt að bæta sinn persónulega árangur.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.8.2012 kl. 14:22

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Mér skilst að aðgangur að ólimpíuleikunum sé tvenns konar - A og B, alla vega er talað um A og B lágmörk. Mér hefur lengi fundist að besti B-keppandinn í greinum ætti líka að fá verðlaun og jafnvel að í flokknum verði gull, silfur og brons. Peningarnir gætu verið minni um sig. B-keppendur eru þeir sem næst komast því að vera fulltrúar alþýðunnar eins og málum er nú háttað. Einnig má hugsa sér C-flokk - bestu manna hverrar þjóðar sem þó hvorki komast í A eða B.

Trausti Jónsson, 7.8.2012 kl. 00:56

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er víst allur gangur á því eftir greinum hvernig valið er inn á leikana. A og B lágmörk gilda í frjálsum og sundi en í ýmsum öðrum greinum er eingöngu farið eftir heimslista og undankeppnum. Margir Íslendinganna er á B lágmörkum en þá má bara senda einn keppanda í keppnisgrein. Svo skilst mér að þjóðir sem ná engum B-lágmörkum, megi senda einn keppanda frjálsar eða sund og þá skiptir árangur viðkomandi engu máli. Fulltrúar alþýðunnar ættu sennilega helst séns í einhverja þeirra.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.8.2012 kl. 12:41

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Aðaltilgangur alþjóðlegu ólympíunefndarinnar (sem á sig sjálf) er að græða peninga og dreifa þeim á meðal verðugra. Spillingin er ótrúleg. Sama er hve mikið er skrifað um þessa spillingu, ekki dregur það úr sókninni eftir að halda leikana. Segja má að það sé einnig tilgangur nefndarinnar að koma sem flestum íþróttagreinum undir sinn hatt og viðhalda vinsældum fyrirbrigðisins, sem greinilega er vel heppnað. Samt hafa af einhverjum ástæðum margir þekktir knattspyrnumenn ákveðið að sniðganga leikana. HM í knattspyrnu, Ólympíuleikar og Formúla 1 (allir kappakstrar samanlagt) eru stærstu íþróttaviðburðir heimsins.

Sæmundur Bjarnason, 7.8.2012 kl. 20:39

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Á nú að fara að spilla Ólympíugleðinni?

Emil Hannes Valgeirsson, 7.8.2012 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband