Tunglið séð frá jörðinni og jörðin séð frá tunglinu

Ýmsu má velta fyrir sér þegar kemur að himni og jörð. Hvernig er það til dæmis að vera staddur á tunglinu og horfa til jarðar? Sjáum við jörðina koma upp á tunglinu og setjast aftur eins og tunglið gerir hér á jörðu - og ef svo er, hversu hratt gerist það? Eða er jörðin kannski bara alltaf á sínum stað á tunglhimninum? Þessu fór ég að velta fyrir mér um daginn þegar ég sá nýlegt tunglið lágt á suðvesturhimni. Reyndar þóttist ég vita hvernig þessu væri háttað en hafði þó satt að segja ekki hugsað þessa hluti alveg til enda. Hefst þá bloggfærslan.

Tunglið 12 feb 2013
Tunglið séð frá Jörðu
Eins og við vitum þá gengur tunglið um jörðina. Þó mætti líka segja að jörð og tungl gangi umhverfis hvort annað, en vegna þess hve jörðin er miklu massameiri en tunglið þá hreyfist jörðin mjög lítið miðað við tunglið. Við segjum því að tunglið gangi umhverfis jörðina sem það og gerir á um 29,5 dögum, eða næstum því á einum mánuði. Braut tunglsins er nálægt því að vera á sama fleti og sólkerfið sem þýðir að tunglið ferðast um himininn á svipuðum brautum og sólin.

Almennt séð kemur tunglið upp í austri og sest í vestri, en hversu langt frá þessum höfuðáttum það rís og hnígur hverju sinni fer þó eftir því hvar við erum stödd á jörðinni og hvar við erum stödd í tunglmánuðinum. Hér norður á Íslandi getur tunglið komið upp í suðaustri og rétt náð yfir sjóndeildarhringinn áður en það sest í suðvestri eins og sólin gerir í skammdeginu. En breytingin er hröð og hálfum mánuði síðar rís það í norðaustri, fer hátt á suðurhiminn og sest að lokum í norðvestri eins og sólin gerir á bjartasta tíma ársins. Þróun tunglgöngunnar um himininn er því um 12 sinnum hraðari en sólargangsins. Við miðbaug eru ekki eins miklar sveiflur í tunglgöngunni, ekki frekar en í sólargangi.

Tunglið er auðvitað ekki bara á lofti í myrkri þó að við sjáum það oftast í myrkri. Þegar það er beint á móti sólinni er það fullt, en eftir því sem það nálgast sól frá okkur séð stækkar skuggahlið þess og svo kemur nýtt tungl þegar það byrjar að fjarlægast sólina á ný. Fullt tungl um hávetur kemst alltaf hátt á lofti um miðnætti frá Íslandi séð en fullt tungl um hásumar kemst aldrei nema rétt á loft á suðurhimni, sem er rökrétt því fullt tungl er alltaf beint á móti sól. Nýtt tungl að sumarlagi fylgir hinsvegar sólinn hátt á loft en sést þá ekki mikið vegna birtu, nema jú að það hreinlega gangi fyrir sólina í sólmyrkva. Að sama skapi kemst nýtt tungl að vetrarlagi varla hátt á loft frekar en sólin, enda nýtt tungl ávallt í slagtogi við sólina. Hér á norðurslóðum getur tunglið aldrei verið hátt á norðurhimni, ekki frekar en sólin.

Jörðin séð frá Tunglinu
Skemmst er frá því að segja að ferðalag jarðar á tunglhimni er mun einfaldara en tunglgangan á okkar himni. Ég var áður búinn að nefna að tunglið gengur umhverfis um jörðu á um 29,5 dögum en það góða er að tunglið snýst um sjálft sig á jafn löngum tíma enda löngu búið að samstilla snúning sinn við umferðartímann um jörðu af praktískum þyngdaraflsfræðilegum ástæðum. Þar af leiðir snýr tunglið alltaf sömu hlið að jörðu á meðan fjærhliðin er okkur ævinlega hulin. Það er skuggahlið tunglsins eða „Dark side of the Moon“ eins og sagt er á ensku og allir Pink Floyd aðdáendur kannast við. Sú hlið tunglsins nýtur þó jafn mikillar sólar og sú sem snýr að okkur.

Samstilling umferðartíma tunglsins við eigin snúning leiðir einnig til þess að ef við settumst að á tilteknum stað á tunglinu þá sæjum við jörðina alltaf á sama stað á himninum, þ.e. ef við erum réttu megin. Ef við byggjum hinsvegar á fjærhlið tunglsins sæjum við aldrei jörðina nema með því að leggjast í ferðalag. Þeir sem byggju þarna á jaðrinum upplifðu bara hálfa jörð sem væri hvorki að koma upp né setjast. Kannski þó ekki alveg því eitthvað hnik er vegna lítilsháttar halla tunglbrautarinnar. Að horfa á jörðina frá tunglinu þarf þó ekki að vera tilbreytingalaust því ólíkt því sem við upplifum með tunglið á jörðinni, þá sjáum við jörðina snúast, séð frá á tunglinu. Eina stundina blasir því Afríka við tunglbúum en nokkrum tímum síðar kemur Ameríka í ljós og svo framvegis svo ekki sé nú talað um veðurkerfin með sitt síbreytilega skýjafar.

Kvartilaskipti eru á jarðkúlunni eins og með tunglið hjá okkur en eru öfug í tíma, þ.e. jörð er vaxandi á tunglinu þegar tungl er minnkandi hjá okkur. Full jörð séð frá tunglinu er þegar sólin er í gagnstöðu við jörð, þ.e. þegar tunglið er á milli jarðar og sólar og ný jörð væri þá þegar jörðin er á milli tungls og sólar. Eins og með tunglið hjá okkur þá tekur þessi sveifla um einn mánuð eða þann tíma sem það tekur tunglið að fara í kringum jörðina. Hver sólarhringur á tunglinu er að sama skapi um einn mánuður sem þýðir að sólin skín í 14-15 jarðdaga og nóttin er aðrar 14-15 jarðnætur. Sólin ferðast því löturhægt um himininn á tunglinu en er ekki föst á sínum stað eins og jörðin. Stjörnurnar hreifast svo auðvitað líka á tunglhimni eins og sólin.
Dagsbirtan á tunglinu hlýtur að vera sérstök fyrir okkur jarðarbúa. Á tunglinu er enginn lofthjúpur og því enginn himinblámi. Þrátt fyrir flennibirtu á sólbökuðu tungli er himinninn bara svartur eins og hann er í raun. Sólin ætti því að sjást eins og hver önnur skínandi ljósapera í myrkvuðu tómarúmi. Þegar sólin sest á tunglinu ættu stjörnurnar að sjást vel, ekki síst á þeirri hlið sem jarðarljóss gætir ekki. Þá eru menn svo sannarlega á skuggahlið tunglsins.
- - - -

Best að ljúka þessu svona. Kannski er ekki útilokað að eitthvað hafi hringsnúist í þessari upptalningu og ef einhver veit til þess, má alveg láta vita.

Jorðin frá Tunglinu

Jörðin séð frá tunglinu. Myndin er tekin af japanska Kaguya geimfarinu sem skotið var á loft árið 2007.

Efri myndin af tunglinu er tekin frá Víðimelnum 12. febrúar 2013,

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvað er linsan stór í seinni myndinni? Mér finnst jörðin frekar lítil á myndinni

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2013 kl. 19:42

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég veit það ekki en á fyrri myndinni notaði ég aðdráttarlinsu því annars hefði tunglið orðið ansi smátt. Jörðinn sést annars 3,7 sinnum stærri að þvermáli heldur en við sjáum tunglið.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.2.2013 kl. 20:06

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Prýðileg færsla! Takk!

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 18.2.2013 kl. 11:48

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðleg færsla að vanda Emil - takk fyrir!

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.2.2013 kl. 19:49

5 identicon

Á þessum hlekk er mynd af Jörðinni, tekin frá tunglinu á meðan Apollo ferðunum til tunglsins stóðu þar sjást hlutföll jarðar mun stærri en á seinni myndinni í bloginu:

 http://i.telegraph.co.uk/multimedia/archive/02320/FEAT-2708-Armstron_2320599b.jpg

Kristinn Ingi Þórarinsson (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband