Vetrarhitasúlur

Nú, þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki, er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins en sá dæmigerði hiti liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Nánari útlistun á vetrarhitafarinu, sem hefur verið óvenjulegt á sinn hátt að venju, er undir myndinni.

Vetrarsúlur 2012-13
Eins og sést á myndinni þá hefur hitafar vetrarins verið dálítið öfugsnúið og lítið fylgt meðalhita hvers mánaðar. Jafnvel má segja að það hafi meira og minna farið hlýnandi í vetur þangað til kuldakastið skall á snemma í mars. Allavega þá var febrúar hlýjasti vetrarmánuðurinn og sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965 samkvæmt opinberum gögnum. Janúar var líka mjög hlýr og samanlagt eru þetta næst hlýjustu tveir fyrstu mánuðir ársins í borginni en aðeins jan-feb 1964 voru hlýrri. Hinsvegar voru þetta hlýjustu tveir fyrstu mánuðirnir í Stykkishólmi.
Aðrir mánuðir eru eðlilegri í hita. Marsmánuður gerði sig lengi líklegan til að verða almennilega kaldur en kuldinn mátti sín lítils á daginn eftir því sem sólin fór að hækka á lofti en það er ekki síst dægursveiflan sem skýrir þessar háu rauðu súlur seinni hluta marsmánaðar.
Ég er með tvo daga sem ég skrái sem 9 stig sem er alveg ágætt. Eitthvað var talað um að hitamet hafi verið slegið fyrir janúar í Reykjavík þann 4. þegar hitinn náði mest 10,7 stigum. Frosthörkurnar hafa hinsvegar ekki verið neitt sérstakar en yfirleitt má búast við að allra köldustu vetrardagarnir séu nær 10 stigum í borginni. Kaldasti dagurinn er 5. mars eftir að hitastigið hafði verið í frjálsu falli. Daginn þar á eftir kom hríðarveðrið með ófærðinni og svo öskufokið með hinni óvenju þrálátu austanátt sem meira og minna hefur ríkt í allan vetur.

Eins og með önnur sambærileg veðurgröf þá fer vetrarhitasúluritið í myndaalbúmið Veðurgrafík sem er hérna til hliðar. Ýmislegt skrautlegt er það að finna. Í lokin er svo Esjutoppsmynd þar sem horft er til Reykjavíkur á köldum degi þann 17. mars. Væntanlega verður horft frá hinni áttinni í næstu bloggfærslu um næstu helgi.

Á Esju 17. mars 2013


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er nú aldeilis fróðlegt og skemmtilegt. Og á þetta að heita vetur!

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.4.2013 kl. 12:06

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já veturinn ákvað að vera einhversstaðar annarsstaðar en hér.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.4.2013 kl. 16:58

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég sé rautt...

Takk fyrir fróðlegan pistil.

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.4.2013 kl. 18:10

4 identicon

Veturinn er ekkert orðinn, lítill snjór, slakt skíðafæri, frostleysur. Hvar endar þetta? Legg til að við breytum nafni landsins í Blautland eða Afísland.

Sigurður Sigurðarson (IP-tala skráð) 4.4.2013 kl. 14:21

5 identicon

Muna menn eftir jafn litlum snjó í Esjunni?

Albert (IP-tala skráð) 6.4.2013 kl. 10:17

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jafn litlum snjó í Esju á þessum árstíma? Já reyndar. Allavega árið 2010 og væntanlega líka 2003. Nánar um það í næstu bloggfærslu.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.4.2013 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband