Að þekkja Júpiter

Ég gef mig ekki út fyrir að vera mikill stjörnuþekkjari hvort sem talað er um næturhimininn eða kvikmyndabransann. Eitt má ég þó eiga, ég þekki alltaf Júpíter á lofti þegar ég sé hann - sem reyndar dugar oft vel og fær suma til að halda að ég sé stjörnufróður með afbrigðum.

Málið er eiginlega bara það að ef hvít stjarna, bjartari en aðrar er hátt á lofti á nætur- eða kvöldhimni þá má slá því föstu að um Júpíter er að ræða. Ekki getur verið um Venus að ræða því hann er alltaf frekar nálægt sólinni frá okkur séð eins og hver annar fylgihnöttur hennar. Sporbraut Venusar er nefnilega fyrir innan sporbraut jarðar sem þýðir að Venus rís alltaf eða sest nálægt sólbjarmanum. Ekki getur heldur verið um Mars að ræða því hann er rauðleitur en ekki hvítur. Síríus, sem er ansi björt, kemst aldrei hátt á loft enda tilheyrir hún eiginlega suðurhveli himins og bara svona rétt kíkir yfir húsþökin eða fjallsbrúnir.

Júpiter

Hinn mikli Júpíter er þá bara eftir og hann getur verið allstaðar þar sem reikistjörnur geta á annað borð verið eins og gildir reyndar um þær reikistjörnur sem eru fjær sólinni en jörðin. Sporbrautir þeirra eru utan við sporbraut Jarðar og þær geta því verið andspænis sólinni frá okkur séð en líka í sömu átt og sólin allt eftir því hvar þær eru staddar á sporbraut sinni. Nú háttar svo til að Júpiter er nokkurn vegin í gagnstöðu við sól sem þýðir að Júpíter kemur upp í norðaustri þegar sólin sest í suðvestri. Hann tekur svo völdin hátt á suðurhimni um nóttina þegar sólin er lengst ofaní norðurkjallara en sest svo í norðvestri þegar sólin kemur upp í suðaustri núna í skammdeginu. Júpíter er einmitt líka bjartastur þegar hann í gagnstöðu við sól enda er hann þá næst okkur og snýr um leið allri sólbakaðri hlið sinni að okkur. 

Tungl og JúpiterÞegar tunglið er fullt, eins og þessa dagana, þá er það auðvitað í góðum félagsskap með Júpíter enda bæði í gagnstöðu við sól. En máninn er snar í snúningum og verður kominn víðs fjarri Júpíter eftir nokkra daga um leið og hann fær á sig meiri skugga uns hann hverfur okkur sjónum. Þegar Júpíter er kominn hinumegin við sólu getur hann verið í félagsskap með Venusi í eða við sólarbjarmann en þó ekki alveg eins bjartur enda komin lengra í burtu en áður. Svo er bara spurning hversu mikið við fáum til að njóta stjarnanna í þessu tíðarfari. Það rofar þó alltaf eitthvað til á milli lægða. Myrkrið vantar ekki.

- - - -

Júpiter ofan við tunglið, aðfaranótt 19. desember 2013. Yfir öllu má sjá hluta af rosabaug. Allt að gerast!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband