Hitamósaík fyrir Reykjavík árin 1971-2013

Í þessari fyrstu bloggfærslu ársins kemur uppfærð litaflatamynd sem byggir á hitafari allra mánaða í Reykjavík frá árinu 1971. Hráefnið er fengið af vef Veðurstofunnar og matreitt að hætti hússins. Hver mánuður fær sinn lit eftir hitaskalanum sem fylgir en til einföldunar eru einungis fjórir litir notaðir og táknar hver þeirra hitabil upp á fimm stig.
Mánadarhiti Rvik 1971-2013

Ýmsu má velta fyrir sér þegar rýnt er í myndina en hún nær yfir tímabil sem einkennist af nokkuð köldum árum þar til fer að hlýna undir aldamótin 2000, síðan hlýjum árum sem öll eru yfir 5 stig í meðalhita þar til kom að síðasta ári sem rétt missti af 5 stigunum.

Það má sjá að fyrir aldamót voru það yfirleitt einn eða tveir sumarmánuðir sem náðu rauðum 10 stiga meðalhita í Reykjavík. Í tvö skipti, árin 1983 og 1992, náði enginn sumarmánuður 10 stigum. Eftir aldamót eru rauðu sumarmánuðirnir oftast þrír, árið 2010 urðu þeir fjórir en á síðast ári voru þeir bara tveir rétt eins og árin 2011 og 2001. Helst munar þarna um hvort júní komist í 10 stiga flokkinn eins og alloft er farið að gerast.
Bláum frostköldum mánuðum hefur fækkað mjög á síðustu árum. Tveir desembermánuðir á síðustu þremur árum eru þó bláir en nokkuð er liðið síðan fyrstu mánuðir ársins hafa verið bláir. Það gerðist síðast með herkjum í janúar og febrúar árið 2008. Apríl 1983 var mjög kaldur og er sá eini af vormánuðum sem ekki nær frostmarkinu í meðalhita.
Annars er misjafn hversu öruggir mánuðirnir eru um sinn lit. Maí vill til dæmis helst af öllu vera gulur en getur dottið niður í græna 0-5 stiga litinn. Það hefur þó ekki gerst síðan 1989. September vill einnig vera gulur en hefur þrisvar hoppað upp í þann rauða, það gerðist fyrst árið 1996 á því tímabili sem myndin nær yfir.

Látum þetta nægja og sjáum til hvernig nýtt ár spjarar sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir fyrir góða matreiðslu EHV. Eins og sjá má kallast 2013 í Rek á við 1971, sem er reyndar skilgreint kuldaár! Tölurnar, litirnir, árferðið lýgur ekki - það er að k ó l n a á landinu bláa :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 11:55

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir myndina Emil - alltaf fróðlegt að skoða þetta hjá þér.

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.1.2014 kl. 15:26

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekkert að þakka félagar. Ekki veit ég hvort það sé að kólna eða hlýna á landinu bláa en til þess þyrfti ég að geta séð inn í framtíðina, sem ég geri ekki. Við getum hinsvegar fundið út að það hafi kólnað eða hlýnað - allt eftir því við hvað er miðað úr fortíðinni. Akkúrat í dag er þó vel hlýtt úti.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.1.2014 kl. 16:57

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já Emil - annars fróðleg þessi "kólnun" frá 1998 - 2000 sem sést í gögnunum ;) En það tímabil var einmitt kaldara en 2013 (við skulum ekkert skoða það sem á eftir gerðist).

Reyndar - af þessum 43 árum, þá er hitastigið 24 sinnum lægra en árið 2013, mest af því framan af tímabilinu...fróðleg staðreynd í ljósi mikillar áráttu sumra til að tala um 2013 sem kalt ár. Það mætti ætla að það yrði nú meira harmakveinið ef það myndi nú í alvöru kólna hér á landi, svona svipað og á árum áður.

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.1.2014 kl. 18:30

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gaman væri að sjá úrkomugraf við hliðina á þessu.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.1.2014 kl. 18:51

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það mæti prófa það Jón Steinar, en sú mynd yrði frekar óreiðukennd því úrkomumagnið fylgir ekki alltaf árstíðum.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.1.2014 kl. 22:31

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Væri ekki hægt að setja upp einhverskonar úrkomu-mósaík til að reyna að sjá hvernig úrkoman raðast á árin/mánuðina. Ekki að það þyrfti að vera í sömu mynd eða við hliðina á þessu hér að ofan, enda um aðrar upplýsingar að ræða. Það gæti hugsanlega verið fróðlegt að sjá það gert með svipaðri aðferðafræði og mósaíkin hér að ofan - ég hugsa að það væri fróðlegt að sjá mósaík með aðeins úrkomunni. Góð hugmynd Jón Steinar - vonandi hefur Emil tíma og þolinmæði í svoleiðis pælingar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.1.2014 kl. 23:32

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sambærileg úrkomumynd stæði alltaf sér en eins og ég segi þá yrði sú mynd mjög flekkótt og óreiðukennd. Þó kannski ekki alveg eins og þessi sem ég á í albúminu "veðurgrafik" sem sýnir sól og úrkomu alla daga allra sumra frá 1986.

Sjá: http://emilhannes.blog.is/album/vedurgrafik/image/1225293/

Emil Hannes Valgeirsson, 5.1.2014 kl. 01:06

9 identicon

Getum við a.m.k. ekki verið sammála um að meðalhiti ársins 2013 í Rek er sá lægsti á þessari öld? ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 11:35

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það blasir nú við.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.1.2014 kl. 13:01

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Emil - en ef þú tækir úrkomuna bara eftir mánuðum (í einni mósaík) - litamerkt eftir einhverjum bilum (t.d. 0 - 30 mm; 31 - 60 mm; o.s.frv.)? Það yrði nú kannski ekki eins flekkótt og óreiðukennt eins og "veðurgrafíkin" sem þú vitnar í? Væri það hugmynd?

Sveinn Atli Gunnarsson, 5.1.2014 kl. 14:37

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sveinn, ég skil allan tímann hvað þið eruð að tala um og er reyndar byrjaður akkúrat á svona mynd með 30 mm bili. Verður sennilega næsta bloggfærsla.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.1.2014 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband