Vetrarhitasúlur

Nú þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum sem staðið hafa lengi. Hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins sem liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Veturinn hefur verið óvenjulegur á ýmsan hátt sem í sjálfu sér er ekki óvenjulegt. Nánar um það undir myndinni.

Vetrarhitasúlur 2013-2014
Hvað má svo segja um þennan vetur? Hann var nokkuð hlýr þótt lítið hafi verið um afgerandi hlýindi. Frostakaflar voru heldur ekki verið langvinnir. Frostið mikla fimmtudaginn 5. desember stingur mjög í stúf eins og sjá má enda var þetta lang kaldasti dagurinn í Reykjavík í vetur. Hámark kuldakastsins var um miðjan dag og skilaði það sér því að fullu í skráningu mína enda miða ég þar við hitann yfir daginn eins og ég kom inn á hér á undan. Desember var reyndar eini mánuðurinn í vetur sem var undir frostmarki í meðalhita í Reykjavík, eða -0,5 stig samkvæmt Veðurstofu. Nóvember, febrúar og mars voru öllu mildari og nálægt meðalhita síðustu 10 ára. Janúar gerði þó best og var mildasti vetramánuðurinn að þessu sinni eða +2,4 stig, þótt hann hafi ekki verið alveg eins hlýr og árið áður. Það fer vel á því að síðasti dagurinn í mars hafi verið sá hlýjasti í vetur. Það er þó varasamt að tala um að vorið sé komið eins og við þekkjum af reynslunni.

Það eru sennilega aðrir veðurþættir en hitinn sem hafa gert þennan vetur eftirminnilegan. Kannski verður hans minnst sem klakavetrarins mikla enda var mjög sérstakt hvað snjórinn frá því í desember lifði lengi í formi þrálátra svellbunka hér og þar á annars auðri jörð. Hiti upp á 2-4 stig í þurri austanáttinni náði ekki vinna endanlega á þessu fyrr en tók að rigna í mars. Annars á þetta ekki að vera allsherjar veðuryfirlit. Aðrir hafa gert því góð skil eins og Veðurstofan og Sigurður Þór á síðunni þar sem allra veðra er von.

 - - - - -
Athugasemdir eru birtar eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi
.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með þessa umfjöllun Emil. Hún er hófstillt og ekki aðeins með einhvern hitameting eins og venjan hefur verið hjá ónefndum veðurbloggurum.

Þú ættir að bjóðast til að vera með pistla á mbl.is/vedur fyrst Trausti ætlar að lengja bloggfríið sitt eins mikið og raun ber vitni.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 8.4.2014 kl. 10:11

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir Torfi. Ég reyni yfirleitt að skrifa hófstilltan texta en á þó stundum til að detta í hitameting – og kuldameting jafnvel líka. Þetta er þó ekki hreinræktað veðurblogg hjá mér og leysir varla pistla Trausta af hólmi enda er ég ekki veðurfræðingur. Reyndar vissi ég ekki að pistlar hans birtust á mbl.is/vedur og fer mjög sjaldan inn á þá síðu sjálfur.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.4.2014 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband