Landið skelfur stranda á milli

Þennan góðviðrisdag þegar þetta er skrifað hefur verið talsverð skjálftavirkni á landinu. Þetta eru allt mjög litlir skjálftar sem sjálfsagt enginn verður var við en dreifing þeirra sést á meðfylgjandi korti Veðurstofunnar. Það má segja að flest af virkustu skjálftasvæðum landsins taki þátt í þessum óróa. Mjög þétt virkni hefur verið út af Reykjanesi en síðan raða skjálftarnir sér eftir Reykjanesskaganum og Suðurlandsbrotabeltinu. Katla er þarna með líka, Vatnajökull og svæði í nágrenni Öskju þar sem skjálftavirkni hefur verið nokkur síðustu ár. Norðurlandið lætur ekki sitt eftir liggja þar sem skjálftarnir raða sér eftir Tjörnesbrotabeltinu. Allt er þetta með meira móti miðað við það sem gengur og gerist hvort sem það boðar eitthvað sérstakt eða ekki. Spurning er þó hvað veldur. Tilviljun eða eitthvað annað?

Skjálftar 26. apríl

Stundum er talað um þann möguleika að tunglið geti haft áhrif á tíðni jarðskjálfta, stóra sem smáa. Tunglið er um þessar mundir í nokkuð beinni stefnu að sólinni frá jörðinni og nýtt tungl myndast þann 29. apríl. Nýtt tunglTunglið er sem sagt á milli sólar og jarðar og snýr iIllsjáanlegri skuggahlið sinni að jörðu. Þar með eru tunglið og sólin nokkuð samstillt í sínu átaki þessa dagana. Með léttri athugun fann ég smá vangaveltur um þetta frá British Geological Survey þar sem bent er á að samkvæmt rannsókn frá 2004 komi fram að engin marktæk tengsl séu á milli jarðskjálfta og tunglsins. Önnur rannsókn frá 2009 bendir hinsvegar til þess gagnstæða og að aðdráttarafl tunglsins geti einmitt liðkað til við að koma einhverri skjálftavirkni af stað þar sem spenna hleðst upp við sprungur.

Eitthvað er þetta því málum blandið en eitt er þó víst að landið okkar er á hreyfingu eins og það hefur alltaf verið.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að þetta boði að landið sé í þann mund að klofna í tvennt, muni annar hlutinn aðhyllast ESB en hinn íslenskan þvergirðinshátt og afdalamennsku.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.4.2014 kl. 01:45

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Emil, þetta er vissulega athyglisvert og mér sýnist virknin aukast jafnt og þétt, með sveiflum auðvitað.

Um áhrif tungls á jarðhræringar: Það er varla hægt að útiloka einhver áhrif þar, enda lyftist jarðskorpan vist um einhverja sentímetra í þegar stórstraumsflóð verða.

Menn hafa einnig verið að rannsaka hvort loftþrýsingur gæti haft áhrif, og svo virðist sem óvenju mikil (eða lítil) úrkoma geti breytt einhverju um losun spennu í jarðskorpunni.

En hinir undirliggjandi kraftar eru svo gríðarlega miklu stærri þ.a. í besta falli geta þessir veiku áhrifaþættir flýtt (eða seinkað) jarðvirkni lítillega.

Ísland er auðvitað sífellt að færast í sundur og það er vitað að jarðvirkni er sveiflukennd, stundum með áratuga sveiflum (t.d. Katla), stundum með árhundruða sveiflum (t.d. Reykjanesið, Grímsvatnasvæðið). Þannig er t.d. hugsanlega kominn tími á nýja eldgosahrinu á Reykjanessvæðinu, og virkni í Grímsvötnum virðist fara vaxandi síðustu áratugi.

Svo hefur bráðnun jökla auðvitað áhrif, það má búast við að þess gætti helst við Grímsvötn en mörg stærstu eldfjöll landsins eru einmitt hulin jökli (t.d. Katla, Eyjafjallajökull, Öræfajökull, og öskjur eru einnig að finna í bæði Langjökli og Hofsjökli).

Brynjólfur Þorvarðsson, 27.4.2014 kl. 09:19

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef jarðskjálftamælingar hefðu verið í gangi á árunum 1783 til 1784 er auðséð á því sem þó er vitað að var að gerast þessi ár allt frá Reykjaneshrygg og norður um Grímsvötn, að þá var mikill órói undir mestöllum flekaskilunum, sem liggja í gegnum Ísland.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2014 kl. 09:48

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í Sögum af Skaftáreldum eftir Jón Trausta, talar ein sögupersónan um að gott sé að eldurinn skuli vera kominn upp því þá myndu þessar bannsettu jarðskjálfta-hræringar hætta og menn fá næturfrið. Þau bítti reyndust hinsvegar ekki góð eins og þekkt er.

Sem betur fer hefur allt verið með kyrrum kjörum í uppsveitum Vestur-Skaftafellsýslu og ég man raunar ekki eftir skjálftahrinum á þeim slóðum.

Það er líka eitthvað að róast yfir landinum í dag. Væntanlega hefur eitthvað annað verið á ferðinni í gær en tunglið. En það er stundum eins og smáskjálftahrinur gangi yfir landið með vissu millibili, hvað sem veldur.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.4.2014 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband