Af hitum og ísum hér og þar.

Nú er ég að hugsa um slá nokkrar flugur í einu höggi og að taka létta stöðu á því sem er að gerast í hitafari hér heima og jörðinni í heild og stöðu hafísmála í norðri og suðri. Spennu er víðar en að finna en í fótboltanum og það má skrifa heilu bloggfærslurnar um hvert atriði fyrir sig en ég læt þennan texta nægja að sinni.

Fyrst er það Reykjavíkurhitinn en meðalhitinn það sem af er þessu ári er vel yfir öllum meðaltölum. Þessi júnímánuður mun einnig verða hlýr og er í harðri baráttu við þá allra hlýjustu. Hlýjasti júní í Reykjavík var júní 2010, með meðalhitann 11,4°C og er meðalhitinn það sem af er mánuði einhversstaðar á því róli. Eitthvað bakslag hefur reyndar verið á þessum hlýindum undanfarið en út af fyrir sig væri mjög gott ef júní næði 11 stigunum enda gerist það ekki oft. Raunar bara sárasjaldan. Fyrstu 6 mánuðir ársins í Reykjavík gætu orðið þeir 3.-4. hlýjustu frá upphafi og eru þar í harðri keppni við árið 2003 sem endaði reyndar sem eitt hlýjasta árið í Reykjavík. Heldur hlýrra var fyrra hluta árs 1929 og öllu hlýrra árið 1964 (vedur.is). Sjáum til eftir mánaðarmót en þá stefni ég að því að uppfæra súluverkið mikla yfir Reykjavíkurhitann.

Á heimsvísu er meðalhitinn að reyna að rífa sig upp úr meðalmennskunni en ýmsir hafa auglýst grimmt eftir hlýnun jarðar sem lítið hefur borið á það af er öldinni. Tíðinda gæti þó verið að vænta á næstu mánuðum þar sem hið hlýja fyrirbæri El Nino er nú í burðarliðnum í Kyrrahafinu og gæti haft áhrif til hækkunar heimshitans fram á næsta ár. Spurning er hversu öflugur þessi El Nino mun reynast. Eitthvað hafa menn gælt við það sem kallast Super El Nino, en best er að fara varlega í slíkar spár. Þetta gæti allt eins orðið bara einhver mini El Nino. Heimshitinn er þó þegar farinn að stíga samkvæmt gögnum NASA þar sem liðinn mánuður reyndist vera hlýjasti maí á jörðinni á okkar tímum. Gervitunglagögn UAH yfir hita í neðri hluta veðrahvolfs settu nýliðinn maímánuð þó bara í þriðja sæti svo væntanlega hafa hlýindin ekki alveg skilað sér upp í efri hæðir enn sem komið er.

Hafísinn á Norðurslóðum
bráðnar að venju nú í sumar og bíða margir milli vonar og ótta eftir því hvort bræðslutímabilið verði eins lélegt og í fyrra eða eins afdrifaríkt og metsumarið 2012. Síðasti vetur var nokkuð hlýr á Norðurslóðum og því kom hafísinn ekkert sérstaklega öflugur undan vetri þrátt fyrir litla bráðnun sumarið á undan. Mikið veltur á því sem gerist á komandi vikum þegar hitinn er hæstur og heimskautasólin sæmilega hátt á lofti. Satt að segja hefur verið frekar kalt þarna upp frá nú í júní og ekki mikið að gerast en nú er því hinsvegar spáð að hæðarsvæði nái sér á strik með tilheyrandi sólskini og hlýjum vindum af suðri. Slíkt ástand þyrfti að haldast eða vera ríkjandi í talsverðan tíma ef þessi bræðslutíð á að keppa við þær sögulegustu á borð við 2012 og 2007. Þetta er tilvalið að skoða betur síðar.

Á Suðurhveli er útbreiðsla hafíssins með mesta móti og hefur verið það síðustu mánuði. Hafísinn í þarna suðri hefur verið í hægum vexti, öfugt við þróunina hér í norðri og reyndar er staðan þannig nú að samanlagt hafíssflatarmál á heimsvísu er ofan meðaltalsins frá 1979. Það hefur ekki reynst auðvelt að skýra þessa aukningu sem greinilega á sér stað hafísnum á Suðurhveli en grunsemdir beinast helst að auknum og breyttum vindum frekar en almennri kólnun. Landfræðilegar aðstæður á Suðurhveli eru annars gerólíkar því sem gerast hér norðanmegin og það spilar inn í. Eitthvað var ég að velta þessu fyrir mér fyrir nokkrum vikum í bloggfærslunni: Hafístíðindi af Suðurhveli.

Sem sagt. Fullt að gerast hér og þar - nú sem endranær.

(Undistrikuð orð eru linkar á heimildir)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband