Það var árið 1986

Sum ár eru af ýmsum ástæðum eftirminnilegri en önnur í hugum okkar. Það er þó persónubundið hvaða ár þetta eru og skiptir aldur manna þá auðvitað heilmiklu. Fyrir mér er árið 1986 eitt þessara ára en þá var ég rétt skriðinn yfir tvítugt, farinn að stúdera grafíska hönnun og auðvitað ákaflega meðvitaður um allt sem í kringum mig var eins og gengur á þeim aldri. Árið 1986 var reyndar ekkert merkilegra fyrir mig persónulega en önnur ár. Stemningin hér á landi svona almennt var hinsvegar eftirminnileg, enda gerðist það hvað eftir annað að fólk sameinaðist eða sundraðist yfir stóratburðum, sem voru kannski ekki miklir stóratburðir í raun en höfðu mikil áhrif á sjálfsmynd okkar. Spennustigið var hátt. Ég ætla ekki að fjalla um pólitíkina en það má rifja upp að Steingrímur Hermannson var forsætisráðherra, Davíð Oddson sat sem fastast sem borgarstjóri og Vigdís var forseti. GreifarnirÞað má segja að þetta hafi verið góðæris- og bjartsýnistímar hjá þjóðinni sem þarna var farin að hafa trú á að Íslendingar væru eftir allt saman hin merkilegasta þjóð sem heimurinn ætti bara eftir að uppgötva. Og ef við vorum ekki best í heimi í einhverju þá vorum við það alla vega út frá höfðatölu. Þetta var líka ár „uppana“ sem voru síefnilegir, ætluðu sér stóra hluti í framtíðinni. Þeir sprækustu voru ennþá með sítt að aftan og fóru í Hollýwood um helgar með mynd af bílnum í vasanum. Greifarnir sigruðu í Músíktilraunum þetta ár. 

Sumum þótti smekkleysan og efnishyggjan vera farin að verða full fyrirferðamikil og í samræmi við það var stofnaður andófshópurinn Smekkleysa sem samanstóð af ýmsum ungskáldum og fyrrum pönkurum og veittu smekkleysuverðlaun við litlar undirtektir viðtakenda að undanskyldum Hemma Gunn sem var alltaf jafn hress. Afkvæmi þessa hóps voru svo Sykurmolarnir sem voru ekki fjarri því síðar að sigra heiminn og gerðu þar betur en Strax-hópur Stuðmanna. En sumir sigruðu heiminn svo sannarlega. Haustið 1985 sigraði Hófí, Miss World keppnina og árið 1986 sigraði Jón Páll í annað sinn í keppninni World Strongest Man og því var ljóst að við Íslendingar áttum fallegasta kvenfólkið og sterkustu mennina. Það var keppt í fleiru. Gríðarleg eftirvænting var fyrir Heimsmeistaramótið í handbolta snemma árs þar sem strákarnir okkar ætluðu sér stóra hluti. Heimsmeistaramótin voru einungis á fjögurra ára fresti í þá daga og ekki búið að finna upp Evrópumótið og nú var líka hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Skellurinn kom hins vegar strax í fyrsta leiknum gegn Suður-Kóreu sem fyrir okkar menn og átti bara að vera léttur upphitunarleikur fyrir alvöru átök síðar. Um þennan eftirminnilega leik skrifaði ég reyndar sérstaka bloggfærslu er nefnist: Þegar Suður-Kórea tók okkur í bakaríið Það rættist þó úr málum gegn hefðbundnari andstæðingum og þjóðin gat fagnað frábærum árangri og 6. sæti á mótinu.

GleðibankinnÞjóðin fór síðan alveg á límingunum um vorið þegar Eurovisionkeppnin hófst og við með í fyrsta skipti. Sú Gleðibanka-för var eiginlega fyrsta bankaútrás Íslendinga og augljóst að við vorum að fara að keppa til sigurs. Á einhvern óskiljanlegan hátt gekk það ekki eftir og þjóðin lagðist í tímabundna depurð og þunglyndi yfir illum örlögum. Þjóðarstoltið hafði beðið þunga hnekki.

Menn gátu sem betur fer tekið gleðina á ný þegar Heimsmeistaramótið í fótbolta hófst í júní og að sjálfsögðu líka í beinni. Allir fylgdust með nema hörðustu fótboltaandstæðingar eins og gengur. Danir voru þarna ennþá í náðinni hjá Íslendingum og stálu algerlega senunni hjá okkur er þeir gjörsigruðu hvern andstæðinginn af öðrum. Vinsælasta lagið á íslandi sumarið 1986 var einmitt Danska fótboltalagið: „Við er røde, vi er Hvide“. Danska dínamítið sprakk hinsvegar með stórum hvelli í 16 liða úrslitum er þeir mættu Spánverjum. Misheppnuð sending Jesper Olsens til eigin markavarðar í stöðunni 1-0 gerði útslagið og 1-5 tap Dana varð niðurstaðan. Reykvíkingar gátu fagnað síðar um sumarið þegar öllum borgarbúum var boðið upp á köku sem var langlengsta kaka sem nokkru sinni hefur verið bökuð hér á landi, ef ekki bara í öllum heiminum, 200 metra löng. Tilefnið var 200 ára afmæli Reykjavíkur sem haldið var upp á með pomp og prakt. Að sjálfsögðu fékk ég mér sneið.

LeiðtogafundurÞað var svo í byrjun október sem tíðindin miklu bárust. Íslendingar áttu bara eftir nokkra daga að taka á móti tveimur valdamestu mönnum heimsins sem ætluðu að semja sín á milli hvernig best væri að fækka kjarnorkuvopnum það mikið að hægt væri að gjöreyða mannkyninu bara nokkrum sinnum í stað mjög mörgum sinnum. Þetta tókst okkur og Ísland svo sannarlega komið í sviðsljósið. Þótt niðurstaða fundarins hafi valdið vonbrigðum þá eru menn nú að komast á þá skoðun að leiðtogafundurinn hafi í raun markað upphafið að endalokum kalda stríðsins og er það sjálfsagt bakkelsinu í Höfða að þakka. Einn skellurinn var þó eftir, því um haustið vöknuðu borgarbúar við þau ótíðindi að búið var að sökkva tveimur hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn sem í áratugi höfðu verið eitt af föstum kennileitunum Reykjavíkurhafnar. Ódæðismennirnir komust úr landi með áætlunarflugi og hin alræmdu samtök Sea Sheapart lýstu ábyrgð á hendur sér. Þarna vorum við landsmenn svo sannarlega teknir í bólinu.

Það má í lokin nefna ein tímamót á þessu ári sem varða mig sjálfan en í upphafi sumars fékk ég þá flugu í höfuðið að punkta hjá mér veðrið í lok hvers dags. Ekki datt mér í hug þarna árið 1986 að ég yrði enn að árið 2014 en það er þó reyndin. Ekki hafði maður heldur hugmyndaflug í að ímynda sér að maður ætti eftir að skrifa bloggfærslur á einhverjum veraldarvef á tölvu, en í slík tæki var maður lítið að spá á þessum árum. Hinsvegar var heilmikið teiknað.

Hvalveiðibátar teikning

Sokknir hvalveiðibátar í Reykjavíkurhöfn, 9. nóvember 1986. Teikning eftir sjálfan mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sérlega skemmitleg samantekt. Þetta ár er mér að mörgu leyti minnisstætt þar sem ég hélt untan í framahldsnám og er enn ekki kominn til baka.

Erlendur (IP-tala skráð) 10.7.2014 kl. 19:22

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Ég sé að þú birtir mynd af póstkorti Friðriks Erlingssonar með þessari skemmtilegu samantekt en það póstkort renndi stoðum undir starfsemi Smekkleysu, sem þú nefnir einmitt. Á fundi Smekkleysingja haustið 1986 var ákveðið að nýta sér leiðtogafundinn af fullkomnu smekkleysi, nema hvað, og gefa út póstkort sem selt yrði til að afla fyrirtækinu fjár. Friðrik starfaði sem auglýsingateiknari og málaði í snarhasti mynd af leiðtogunum tveimur með Ísland í bakgrunni. Síðan sendi hann myndina til kunningja síns á Akureyri, sem litgreindi og prentaði kortið. Kortinu var vel tekið, þó ekki hafi allir verið eins hrifnir af því. Þannig neitaði Rammagerðin í fyrstu að selja kortið, en leitaði síðar uppi skrifstofu Smekkleysu, sem var í skottinu á bíl Friðriks, og keypti vænan bunka póstkorta. Alls seldist kortið í um 3.000 eintökum, var söluhæst póstkorta leiðtogafundarins, og góður hagnaður af sölunni. Sá hagnaður var notaður til að greiða næstu útgáfur.

Árni Matthíasson , 10.7.2014 kl. 19:31

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Friðriki hefur þarna tekist vel til með lúmskri smekkleysu en mig grunaði einmitt að þetta væri Smekkleysukortið, sem mig rámar í og hefði verið aldeilis fínt á glansandi hvítum postulínsdiski.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.7.2014 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband