Holuhraun í Reykjavík

Til að geta áttað sig almennilega á stærð þess hrauns sem runnið hefur í Holueldum er betra að hafa einhverjar þekktar viðmiðanir. Best er þá að miða við sína heimabyggð og því hef ég hér sett saman sam-skalaða mynd sem sýnir (speglaða) útbreiðslu hraunsins að morgni 6. september samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar. Lengd hraunsins, af kortum að dæma, ætti að vera um 11,5 kílómetrar sem þýðir að ef gossprungan væri við Rauðavatn þá væri hraunið um það bil að renna út í sjó vestur við Ánanaust eftir að hafa flætt eftir endilangri borginni. 

Holuhraun Reykjavík

Hraunflæði á borð við þetta innan borgarinnar myndi að sjálfsögðu teljast til meiriháttar hamfara. Það mætti allavega  búast við umferðartruflunum á Miklubraut. Við þurfum þó ekki að óttast svona mikið hraunflæði innan borgarinnar. Mjög ólíklegt er að gossprunga opnist svona alveg við bæjarmörkin á þessum slóðum. En ef svo færi, yrði hraunflæðið örugglega ekki með þessum hætti enda er borgin mishæðótt. Elliðaárdalurinn myndi þó fyllast af hrauni en þaðan lægi leið hraunsins aðallega inn í Elliðaárvog og svo lengra út með sundum. Við gætum þá kannski sparað okkur byggingu Sundabrautar og lagt fínan veg yfir nýja hraunið ef hraunavinir verða ekki til of mikilla vandræða.

Það má síðan skoða raunhæfari möguleika á sambærilegu hraunrennsli að borginni, en á næstu mynd hef ég sett hraunið í réttum hlutföllum þannig að upptökin eru við Sandskeið rétt undir Vífilsfelli. Þetta svæði er eins og Reykjanesskaginn, í tímabundnum dvala og kannski komin tími á að það vakni, nema það sofi yfir sig.

Holuhraun Sandskeið

Hér sjáum við að miðað við upptök við Sandskeið er hraunið nánast komið að Rauðavatni, eftir að hafa flætt niður Suðurlandsveginn. Hraunið er því komið að upptökunum á fyrri myndinni og lengist með hverjum klukkutíma eftir því sem gosinu miðar.

Upprunalega myndin sem ég vann eftir, er hér að neðan en þó er ég búinn að sneiða aðeins af henni. Þarna er Holuhraunið á heimavelli og það er það sem gildir. Hvort það verður kallað eitthvað annað en Holuhraun í framtíðinni veit ég ekki. Holuhraunshraun mætti kalla það eða einfaldlega bara Nýja hraunið sem er sjálfsagt heiti og dugar vel þar til það er storknað. Menn ættu að mínu mati að flýta sér hægt að skýra eitthvað sem er enn í myndun og ekki vitað hvernig mun koma til með að líta út. 

Holuhraunshraun

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Er ekki Nýja-Holuhraun ágætt nafn svona til að byrja með?

Annars fróðleg hlutföll hjá þér af hraunstreyminu miðað við höfuðborgina.  Ef hraunið rynni austan frá, stefndi í þá átt sem þú teiknar og yrði jafnþunnfljótandi og þetta í Holuhrauni þá er sjálfsagður farvegur Elliðaárdalurinn og Fossvogsdalurinn.  

Þá verður ekki gott að búa í Reykjavík - með flugvöllinn suður á Miðnesheiði. 

Kolbrún Hilmars, 6.9.2014 kl. 16:49

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessar myndir eru frekar ætlaðar til að sýna stærðarhlutföll heldur en eitthvað sem er yfirvofandi. Það er þó möguleiki á hraunrennsli niður Elliðaárdal eins og gerðist fyrir 5200 árum þegar Leitarhraunið rann. Fossvogurin yrði varla í mikilli í hættu og það væri varla þörf á neinni skyndirýmingu borgarinnar. Fólk myndi kannski helst flykkjast upp í Breiðholtshæðir til að fylgjast með tilkomumiklu hraunrennlinu. Það gæti verið fallegt í kvöldbirtunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.9.2014 kl. 20:12

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Verður spennandi að sjá sjónarspilið þegar hún fer í ánna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2014 kl. 22:12

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þ.e. hraunið ;)

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2014 kl. 22:12

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Tölur sem birtar hafa verið um rúmmál nýja hraunsins eru nokkuð á reiki - en mig minnir að talað sé um 50 milljón rúmmetra. Sé það rétt tala er magnið nú rétt að komast yfir rúmmál berghlaupsins mikla í Öskju í sumar (30 til 50 milljón rúmmetrar). Sést nú vel hversu ofboðslegt það var.

Trausti Jónsson, 6.9.2014 kl. 23:32

6 identicon

Á virkilega ekki að fjalla neitt um 66% aukningu í útbreiðslu á hafís í norðurhöfum frá 2012? Er túristagosið í Holuhrauni áhugaverðara en komandi harðæri? Er "dauðaspírallinn" í dauðateygjunum?

http://www.climate4you.com/SeaIce.htm

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 7.9.2014 kl. 11:09

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru magnaðir atburðir þarna á svæðinu norðan Vatnajökuls.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.9.2014 kl. 11:57

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Fróðlegur pistill og ekki spillir spaugið fyrir: „Hraunflæði á borð við þetta innan borgarinnar myndi að sjálfsögðu teljast til meiriháttar hamfara. Það mætti allavega búast við umferðartruflunum á Miklubraut.“ Og fleira mætti tína til.

Hvað gerist þegar hraunið rennur út í Jöklu? Eiginlega ekkert nema að gufa mun rísa upp af jaðri hraunsins.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.9.2014 kl. 12:05

9 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér fyrir Emil, þetta var góð lýsing á umfangi.     

 Það gaus í Vestmanneyjum og allir vita hvernig þá var brugðist við.  Ekki er klárt að allir Reykvíkingar komist á brott með fiskibátum og hvað þá?  Svo má velta vöngum, Reykjanesið er virkt og á Snæfellsnesi hefur gosið á sögulegum tíma.

Man ekki hvað Helga fellið sem sagt var útdautt er sagt vera gamalt, kanski fimmþúsund ár?  Man ekki hvað Snæfellsjökull er talin vera gamall, kanski sjöþúsund ár?  En þetta eru bara sekúndur í sögu Jarðar.         

Hrólfur Þ Hraundal, 7.9.2014 kl. 15:53

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Emil.

Þetta minnir okkur á að gosstöðvar eru í nágrenni Reykjavíkur sem undirstrikar mikilvægi Reykjavíkurflugvallar eins og Kolbrún bendir á.

Ágúst H Bjarnason, 8.9.2014 kl. 10:57

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Flott hjá þér Emil - ég held að þú þurfir að fara að halda námskeið á RÚV, samanber "glæsilega" framsetningu þeirra, sjá hér: http://www.ruv.is/frett/hraunbreidan-staerri-en-hafnarfjordur

Höskuldur Búi Jónsson, 8.9.2014 kl. 12:03

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já það er hugmynd. En hraunið er samsagt orðið jafn stórt og stærstu smábæir.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2014 kl. 13:03

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2014 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband