Hraunasamanburður

Holuhraun Míla

Það fer ekkert á milli mála að gosið í Holuhrauni er mikið hraungos sem ekki sér fyrir endann á. Fyrir nokkrum dögum var talað um að hraunmagnið væri orðið 0,5 ferkílómetrar og gæti það því líklega verið komið í 0,6 km3 þegar þetta er skrifað. Þetta er þó ekki mikið miðað við allra stærstu hraun sem hér hafa runnið. Allavega er alls ekki tímabært að tala um þetta sem eitt stærsta hraungos Íslandssögunnar eins og gert var í kynningu á sjónvarpsþætti sem sýndur var um daginn. Ég hef að gamni mínu tekið saman stærðir á stærstu hraungosum Íslandssögunnar og notast við heimildir sem ég fundið á netinu og ekki síst í bókunum Náttúruvá á Íslandi (NÁÍ) og Íslandseldum eftir Ara Trausta. Þetta er sjálfsagt ekki tæmandi listi yfir stærstu gosin því einhver gætu hafa farið framhjá mér eða eru hreinlega ekki nógu vel þekkt. Það verður líka að hafa í huga að þetta er bara samanburður á hraunmagni í gosum. Sum gos eru blandgos eða hrein öskugos og þau geta líka framleitt fyrnin öll af gosefnum. En hvernig stendur þá Holuhraun vorra daga í samanburðinum?

Hraun runnin fyrir landnám eru mörg hver afar stór og þá ekki síst stóru dyngjugosin sem runnu skömmu eftir ísöld. Stærst þeirra hrauna er Þjórsárhraunið sem rann fyrir 8700 árum. Stærðin er áætluð 25 km3 sem gerir það meðal allra mestu hraungosa á jörðinni eftir ísöld. Kvikan í því mun vera ættuð úr Bárðarbungukerfinu.

Eldgjárhraunið rann árið 934 þegar landið var nýnumið. Það gefur Þjórsárhrauni lítið eftir en stærð hraunsins er talin vera 18-19 km3 (NÁÍ) sem gerir það að stærsta hraungosi Íslandssögunnar. Uppruni þess er í Kötlukerfinu.
Skaftáreldar eru líka í þessum ofurflokki en þar er talað um hraunmagn upp á 15 km3 (NÁÍ). Skaftáreldahraun er ættað út Grímsvatnakerfinu og rann að hluta til yfir Eldgjárhraunið. Suðurgosbeltið er því sannarlega eldfimt svæði þegar svo ber undir.

Nokkuð stærðarbil er í þriðja stærsta hraungosið. Hallmundarhraun rann niður í Borgarfjarðarsveitir skömmu eftir 900. Stærð þess er talin 5-6 km3 (NÁÍ). Upptökin eru norðvestur af Langjökli en það eldstöðvakerfi er annars ekki mikið að trana sér fram dags daglega en á þó greinilega ýmislegt til. Frambruni heitir Bárðarbunguættað hraun sem rann frá Dyngjuhálsi á 13. öld eða fyrr. Stærðin er áætluð rúmir 4 km3 (NÁÍ) sem er feiknamikið út af fyrir sig. Önnur hraun runnin eftir landnám eru skaplegri að stærð og þá erum við farin að nálgast eitthvað sambærilegt við núverandi elda.

Hekla hefur margoft sent frá sér myndarlega hraunstrauma í bland við gjósku en ekki alltaf auðvelt að meta hraunstærðir, t.d. vegna yfirdekkunnar yngri hrauna. Alls eru 10 söguleg Hekluhraun metin 0,5 km3 eða stærri (NÁÍ). Þau stærstu eru talin 1,4 km3 um 1300 og 1,3 km3 árið 1766. Meiri vissa er um síðari tíma gos eins og á árinu 1845 þegar runnu 0,63 km3 af hrauni og í gosinu 1947 var hraunið 0,8 km3.

Ekki tókst mér að finna heimildir um fleiri gos sem eru stærri en Holuhraun í hraunmagni talið en það má þó nefna nokkur fleiri til samanburðar. Í stórgosinu við Veiðivötn árið 1480 kom aðallega upp gjóska vegna blöndunar við vötnin. Hraunin sem runnu náðu þó 0,4 km3. Svipað má segja um Vatnaöldugosið mikla árið 870 en þá féll landnámslagið fræga en hraunmagnið var ekki nema 0,1 km3. Bæði þessi gos eru tengd Bárðarbungueldstöðinni en vötnin sem trufluðu hraunframleiðsluna eru víst ekki nema svipur hjá sjón í dag miðað við fyrri tíð, nema kannski miðlunarlónin á Tungnársvæðinu.
Tröllahraun rann vestur af Vatnajökli í langvinnu gosi árin 1862-1864 er áætlað um 0,3 km3 að stærð. Það er einnig Bárðarbungutengt. Ekki gaus askjan þá frekar en fyrri daginn sem gefur okkur vonir um ekkert slíkt sé væntanlegt nú.

Kröflueldar samanstóðu af níu gosum á árunum 1977-1984 en samtals skiluðu þau hraunbreiðu upp á 0,25 km3. Úr Mývatnseldum á 18. öld varð til hraunbreiða af svipaðri stærð. Hraunmagnið í Heimaeyjargosinu var einnig um 0,25 km3 og í Surtseyjargosinu er talað um 0,4 m3 en stór hluti af því gæti verið móberg. Í goshrinunni á Reykjanesskaga á fyrstu öldum Íslandsbyggðar runnu fjölmörg hraun frá eldstöðvakerfunum þremur á skaganum. Ekkert þeirra er þó verulegu stórt en séu þau öll tekin saman er rúmmálið 1,8 km3 samkvæmt því sem kemur fram á ferlir.is (vitnað í Jón Jónsson 1978).

- - -
Samkvæmt þessari lauslegu samantekt má segja að Holuhraun það sem af er gosi sé í hópi meðalstórra hraungosa í stærri kantinum en þó furðu afkastamikið miðað við tímalengd og stærð gossprungu. Fyrir utan allnokkur Hekluhraun eru bara fjögur stykki af sögulegum hraunum stærri í ferkílómetrum og raunar miklu stærri. Við vitum þó ekki í dag hvað gosvirknin í Holuhrauni eigi mikið eftir. Kannski er langt liðið á mesta fjörið en kannski er þetta bara byrjunin.

Myndin sem fylgir er tekin að kvöldi 11. september, af vefmyndavél Mílu

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband