Hraun ógnar byggð á Hawaii

Nú ætla ég bregða mér til Hawaiieyja þar sem staðið hefur yfir óvenju lífseigt dyngjugos allt frá árinu 1983 sem sér ekki fyrir endann á. Við fáum öðru hverju fréttir af hraunrennsli frá þessu gosi. Síðast nú í september þegar hraunstraumur var farinn að nálgast þorp og og þéttbýlissvæði austast á austustu eynni, Big Island, en þar er einnig að finna elddyngjuna miklu Mauna Loa. Ógnin reyndist þó ekki alveg eins yfirvofandi og óttast var því hraunið skreið lítið fram næstu daga á eftir en breiddi þeim mun meira úr sér í hæðum fyrir ofan. Nú virðist hinsvegar vera komið að þessu því mjó hrauntunga hefur fundið sér leið niður að efstu mannvirkjum sem tengjast byggðinni.

Hawaii kort

Það eru viss líkindi með þessu gosi og Holuhraunsgosinu okkar því á Hawaii er svokallaður heitur reitur eða möttulstrókur sem ber ábyrgð á kvikuuppstreymi djúpt úr iðrum jarðar. Ólíkt og á Íslandi þá eru ekki nein flekaskil við Hawaii en langtímaþróunin er sú að Kyrrahafsflekinn færist til norðvesturs yfir heita möttulstrókinn sem þarna er undir sem þýðir að eldvirkni eyjanna færist til suðausturs á löngu tímabili. Eldvirknin er því mest þarna á austustu eyjunni og en framtíðinni munu nýjar eyjar myndast austan við þessa eyju en þær elstu sem eru vestast eyðast smám saman.

Allt frá því gosið hófst á sínum tíma hefur hraunrennsli aðallega lekið sem helluhraun suðaustur í átt til sjávar úr gíg sem heitir því skondna nafni Puu Oo í Kilauea eldstöðinni. Í árslok 2012 var þekja runninna hrauna komin í 125,5 ferkílómetra og magnið áætlað um 4 ferkílómetrar sem gæti verið svona 6 sinnum meira en komið hefur upp við Holuhraun á tveimur mánuðum. Hraunið hafði þarna eyðilagt 214 hús og önnur mannvirki. Munar það mestu um strjála íbúðabyggð, Royal Gardens, sem nú er algerlega horfinn en ég bloggaði einmitt um það þegar síðasta húsið þar hvarf (sjá: Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii)

Hraunkort Hawaii

Seint í júní í sumar urðu svo þau umskipti í hraunrennsli að í stað þess að streyma í suðaustur til sjávar þá fann hraunið sér nýja leið eftir sprungukerfi sem leitt hefur þunnan hraunstrauminn lengst í austur og norðaustur og ógnar nú byggðinni sem fram að þessu hafði verið utan hættusvæðis. Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir íbúa því óttast er að hraunið gæti haldið lengi áfram að streyma í þessa átt og ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Allt gerist þetta þó í nokkrum rólegheitum enda ekki um kraftmikinn hraunstraum að ræða auk þess sem Pahoa-byggðin er ekki veigamikil. Þetta má sjá hér á kortunum frá Hawaiian Volcano Observatory þar sem staðan þann 24. október er útlistuð.

Loftmynd Hawaii 24.okt

Á loftmyndum sem hér fylgja frá 24. október sést framrás hraunsins í átt að Pahoa byggðinni. Síðustu fréttir herma að hraunið sé farið að renna yfir Cemetery Road rétt við svokallaða Transfer station sem mér skilst að sé sorpflokkunarstöð og hljóta starfsmenn þar að vera farnir að hugsa sér til hreyfings. Tæpur kílómetri er þó í meginbyggð Pahoa en þar fyrir neðan og allt niður að strönd eru svo ýmis nýleg íbúðahverfi sem hafa verið risið á þessu horni eyjarinnar sem eitt eldvirkasta svæði í heimi.

Pahoa 24.okt

Gufubólstrar og kunnugleg blámóða frá hrauninu sem streymir frá Puu Oo gígnum sem merktur er inn efst á myndina.

- - - - - -

Nánari fréttir og kort frá Hawaiian Volcano Obsevatory: http://hvo.wr.usgs.gov/maps/
Myndir frá Hawaiian Volcano Obsevatory:
http://hvo.wr.usgs.gov/multimedia/index.php?newSearch=true&display=custom&volcano=1&resultsPerPage=20
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband