Heimshiti og Reykjavíkurhiti

Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2014 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Heimshiti - Reykjavíkurhiti
Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.

Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn var með hæsta móti árið 2014. Í Reykjavík var þetta næst hlýjasta árið en á heimsvísu náði árið að vera það hlýjasta frá upphafi beinna veðurathugana. Auðvitað er þó alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Á heimsvísu gætu einhver af síðustu árum mögulega hafa verið hlýrri en flestar ef ekki allar stofnanir sem taka saman heimshita byggðan á athugunum á jörðu niðri setja nýliðið ár í fyrsta sæti.

Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróuninin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á þau köldu sem tímabundin undirskot miðað við heimshitann.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan aðrir segja að það haldi áfram að hlýna, eins og reyndar hefur verið að gerast í heildina þegar litið er til baka. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár, þá er frekar ólíklegt að árið 2015 verði hlýrra hér í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Hinsvegar trúi ég heimshitanum til alls um þessar mundir og tel að 2015 gæti hæglega gert enn betur en 2014, ef enn betur skildi kalla.


mbl.is Jörðin hlýnar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Ekki er hægt að segja að árið 2014 hafi verið það hlýjasta því munurinn á árunum 2014, 2010 og 2005 er tölfræðilega ómarktækur. Samkvæmt þessu eru þessi þrjú ár tölfræðilega jafn hlý og skipa saman efsta sætið. Meðalhiti jarðar hefur breyst mjög lítið síðasta áratug." 

Segir Ágúst Bjarnason á bloggsíðu sinni. 

"Hlýjasta ár frá upphafi mælinga", er kynnt með lúðraþyt og söng. Ef skekkjumörkin hefðu verið túlkuð í hina áttina, hefði hlýnunar hysterían verið án lúðraþytsins en gamli söngurinn hefði sennilega verið sá sami. wink

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.1.2015 kl. 07:56

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég kem aðeins inn á óvissuna í pistlinum enda búinn að lesa Ágúst.

Það má bæta því við að oftast þegar nýtt met er sett í heimshita þá er bætingin innan skekkjumarka. Bætingin er samt til staðar þó hún sé ekki mikil og kemur fram þegar til lengri tíma er litið. Það má til dæmis mæla vöxt barna með málbandi á hverjum morgni og fá út að daglegur vöxtur sé innan skekkjumarka og komast að þeirri niðurstöðu að óvíst sé að barnið sé að stækka. 

Það er annars ekki rétt að mínu mati að skekkjumörkin hafi verið túlkuð í átt til hlýnunar. Tölurnar eru kynntar eins og þær koma fram í útreikningum. Ef skekkjunni væri bætt við í átt til hlýnunnar væri bætingin enn meiri. 

Vísa hér í gögn NASA-GISS sem ég teiknaði ferilinn eftir. Flókin tafla, en dálkurinn J-D er árshitinn. Þar kemur fram að frávik frá meðalhita árið 2014 sé: +0,68°C, árið 2010 var talan +0,66°C og 2005 var talan +0,65.

http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

 

Annars eru sumir oft að auglýsa eftir hlýnun og þegar hún kemur fram þá er talað um óvissu, nú eða þá svindl og bellibrögð. Svo er líka algengt að segja að hlýnunin jarðar sé hið besta mál enda veitir ekki af smá hlýnun hér á landi.

 

Emil Hannes Valgeirsson, 19.1.2015 kl. 10:29

3 identicon

Dr. Peter Stott, loftslagssérfræðingur hjá bresku veðurstofunni, fullyrti í vísindagrein 2. október 2013 að mæligögn hitamæla á jörðu niðri ættu að vera í samræmi við mæligögn gervitungla.

http://www.metoffice.gov.uk/climate-guide/science/temp-records

Staðreyndin er hins vegar önnur hvað varðar síðustu tvö ár:

https://fbcdn-sphotos-b-a.akamaihd.net/hphotos-ak-xpf1/v/t1.0-9/10928988_10205786124360718_6028422850828164479_n.jpg?oh=eb75b80be74f39fb0897811e617fcb3a&oe=55339C12&__gda__=1433323629_4ab0830e57326f423739ac0a0f5482b5

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 11:17

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég sé nú reyndar ekki fullyrðinguna í greininni sem þú vísar í. Ég er þó sammála því að gervihnattamælingar og beinar mælingar á jörðu ættu að sýna svipaða hlýnun þegar til lengri tíma er litið en þó getur verið munur á einstökum árum og stuttum tímabilum. Hiti í neðri hluta lofthjúps sem gervihnattæmælingar ná til virðast bregðast sterkar við El Nino áhrifum samanber "super" El-Nino árið 1998. Þau áhrif voru varla til staðar 2014. Þessi mynd sýnir nokkurnvegin hvernig samræmið er frá 1979-2011 milli gervihnattamælinga UAH, og hefðbundinna mæliraða HadCRUT3 og NASA-GISS.

http://emilhannes.blog.is/users/03/emilhannes/img/threetemperaturerecordsthrough2011.jpg

 

Emil Hannes Valgeirsson, 19.1.2015 kl. 13:25

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Emil, skemmtilegur samanburður að venju :)

Það virðist samt alltaf vera þannig að þó að það komi ár þar sem hitamet eru sett, þá finni þeir sem afneita hnattrænni hlýnun leið til að telja sjálfum sér trú um að hlýnunin sé ekki raunveruleg (samanber Hilmar hér fyrir ofan og Ágúst).

Höskuldur Búi Jónsson, 19.1.2015 kl. 15:08

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hefur ekkert breyst um þá staðreynd að lítil sem engin HLÝNUN hefur átt sér stað s.l. 17 ár, þrátt fyrir gleðiefnið 2014 fyrir alarmistana.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.1.2015 kl. 16:03

7 identicon

Lesa, Emil minn:

"Changes in temperature observed in surface data records are corroborated by measurements of temperatures below the surface of the ocean, by records of temperatures in the troposphere recorded by satellites and weather balloons, in independent records of air temperatures measured over the oceans and by records of sea-surface temperatures measured by satellites." (http://www.metoffice.gov.uk/climate-guide/science/temp-records)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 19:29

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég var búinn að lesa þetta Hilmar minn. Breska veðurstofan og fleiri styðst vissulega við gervitungl, baujur og slíkt þar sem hefðbundnum athugunum verður ekki við komið, svo sem yfir sjónum. Mæligögn hitamæla á jörðu þurfa þó ekki endilega að vera í samræmi við gögn gervitungla þótt þau megi nota til að tékka af afbrigðilegheit og undarleg frávik. En við skiljum þetta sjálfsagt á sitthvorn hátt eins og svo margt annað.

 

Og Gunnar. Lítil hlýnun sl. 17 ár ætti nú að vera gleðiefni fyrir flesta. Ekki viljum við einhverja óðahlýnun. En sjáum til hvað 2015 gerir. Kannski verður þetta árið sem alarmistar geta virkilega fengið útrás fyrir áhyggjur sínar.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.1.2015 kl. 23:19

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gunnar, það er miskilningur hjá þér - hlýnunin hefur haldið áfram undanfarin ár, þó hitinn sveiflist upp og niður - sjá t.d. hér:

https://tamino.wordpress.com/2015/01/20/its-the-trend-stupid-3/

Höskuldur Búi Jónsson, 21.1.2015 kl. 15:35

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

peter

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2015 kl. 16:54

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta graf nær reyndar ekki yfir gleðiefnið 2104

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2015 kl. 16:56

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ja hérna, menn toga ansi grimmt í haldreipið um að það sé einhver pása í hnattrænni hlýnun - þessi mynd er náttúrulega bara bull, samanber það sem Emil birtir hér ofar (sjá mynd 19.1.2015 kl. 13:25 )

Höskuldur Búi Jónsson, 21.1.2015 kl. 20:46

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Á þessari stóru mynd frá Gunnari sést vel hversu gervihnattamælingar (RSS og UHA) bregðast sterkt við El-Nino áhrifum eins og ég minnist á með línuritinu sem ég birti í athugasemdinni sem Höskuldur vísar í. Super El Nino-árið 1998 rís einmitt sérstaklega hátt í gervihnattamælingum og talsvert hærra en "gleðiefnið" 2014.

Beinar hitamælingar á jörðu niðri finna hinsvegar minna fyrir þessum El Nino sveiflum enda hafa þrjú ár náð að toppa 1998 í hefðbundnum athugunum. Síðast nú árið 2014 sem er ekki einu sinni flokkað sem El Nino ár. 

Emil Hannes Valgeirsson, 21.1.2015 kl. 23:15

14 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En svo er líka annað, en stundum er talað um áræðanleika gervitunglagagna. Þrátt fyrir það eru útkoman sem kemur út úr gervitunglamælingum tveggja aðila ekki alfarið sammála því UAH hefur sýnt meiri hlýnun en RSS á undanförnum árum. Línuritið frá Gunnari er að sjálfsögðu frá RSS.

Um þetta sagði Soy Spencer (hjá UAH): "As can be seen, in the last 10 years or so the RSS temperatures have been cooling relative to the UAH temperatures (or UAH warming relative to RSS…same thing). The discrepancy is pretty substantial…since 1998, the divergence is over 50% of the long-term temperature trends seen in both datasets."

http://emilhannes.blog.is/users/03/emilhannes/img/uah-vs-rss.jpg

Einnig segir hann þetta: "But, until the discrepancy is resolved to everyone’s satisfaction, those of you who REALLY REALLY need the global temperature record to show as little warming as possible might want to consider jumping ship, and switch from the UAH to RSS dataset."

Ath. Roy þessi Spencer er reyndar flokkaður sem efasemdamaður í Global warming pólitíkinni.

(http://www.drroyspencer.com/2011/07/on-the-divergence-between-the-uah-and-rss-global-temperature-records/)

Emil Hannes Valgeirsson, 21.1.2015 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband