Tvö bestu íslensku dægurlög 21. aldar

Það má alveg leyfa sér smá fullyrðingasemi í fyrirsögnum en samkvæmt mínum eigin dómsúrskurði eru það tvö íslensk dægurlög sem ég vil nefna sem þau bestu sem út hafa komið það sem af er 21. öldinni. Þetta þarf þó ekki að vera endanlegt mat hjá mér. Kannski verð ég á annarri skoðun á morgun og sjálfsagt og vonandi eiga jafn góð eða betri dægurlög eftir að dúkka upp síðar. Dægurlög eru líka bara dægurlög sem eiga að létta manni lífið innan um dægurþrasið. Nóg er annars af þrasinu, ekki síst í bloggheimum og ekki viljum við eintómt tuð, það þarf líka að vera stuð, líka smá sveifla og góður fílingur. En vindum okkur þá í músikkina.

Fyrra lagið sem ég kynni til sögunnar er lagið Glúmur með hljómsveitinni Sprengihöllinni sem sló heldur betur í gegn árið 2007 með hverri snilldinni á eftir annarri. Höfundur lagsins er RíóTríó sonurinn Snorri Helgason sem jafnframt syngur lagið og er skrifaður fyrir textanum ásamt Bergi Ebba Benediktssyni, sem uppskar íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textagerð í kjölfar útgáfu fyrstu plötunnar þar sem umrætt lag er að finna. Glúmur er svo sem enginn gleðivísa. Þetta er harmrænt kaldhæðið rokklag en um leið grátbroslegt lag um mann sem fittaði ekki alveg inn í samfélagið en fór víða. Mann sem „drakk í sig lífið“ eins og segir í textanum og kynntist bæði Geirfinni og Ciesielski „var með þeim báðum í Breiðuvík.“ Glúmur þessi er þó sjálfsagt uppskálduð persóna sem og annað sem viðkemur textanum. Við eigum álíka sönglög frá fyrri tíð um undirmálsmenn eins og Minning um mann og Gvend á Eyrinni en hér er þó allt af tragikómískara taginu. Harmræn söngrödd Snorra Helga hæfir tilefninu. Stutt er þó í léttleika og spilagleði sem skilaði sér vel beinni útsendingu í Kastljósinu, þaðan sem upptakan er fengin.



Þá er það seinna lagið sem er með hinni geðþekku og mannmörgu hljómsveit Ojba Rasta. Það er þó ekkert ojbarasta við lagið sem ber nafnið Baldursbrá en þar er meðal annars minnst á „fiðrildi í hvirfilbyl“ og „ást á almættið“. Höfundur lags og texta er Arnljótur Sigurðsson sem jafnframt sér um sönginn í þessu lagi. Eins og sjálfsagt aðrir í hljómsveitinni er hann fjölhæfur tónlistamaður sem hefur auk þess áhuga á vísindum og skák, eftir því sem heimildir herma. Hljómsveitin Ojba Rasta er að vísu ekki til lengur en hún fiktaði mjög við Raggí-taktinn með góðum árangri eins og reyndar fleiri. Nafn hljómsveitarinnar er vísun í Rastafari hreyfinguna sem er grundvöllur Raggie-menningarinnar á Jamaica og þar tilbáðu menn keisarann og ljón Afríku, Haile Selassie sem ríkti í Eþíópíu á fyrri öld. Til að hlýða á lagið hef ég kosið að spila lagið eins og það kemur af skepnunni en það má einnig finna „læf“ í upptöku úr Kastljósinu ef einhver vill. Hinsvegar er plötuumslagið skemmtilegt þar sem maður með ljónshöfuð situr á íslenskum hesti. Takið einnig eftir fjöllunum sem ættuð eru frá Hornafirði og frumskóginum sem gjörður er úr spergilkáli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband