Hnattrænn mánaðarhiti á súluriti

Fyrir þá sem áhuga hafa á hitafari jarðar þá hef ég sett upp súlurit þar sem borinn er saman meðalhiti mánaða og hvert gæti stefnt með árshitann 2015. Þetta er sett upp á svipaðan hátt og ég gerði með Reykjavíkurhitann í fyrra, muni einhver eftir því. Tölurnar sem unnið er eftir eru frá Nasa-Giss sem er ein þeirra stofnana sem halda bókhald um hitafar jarðar. Svo maður útskýri aðeins þá standa Bláu súlurnar á myndinni fyrir meðalhita hvers mánaðar síðustu 10 ár. Rauðu súlurnar sýna meðalhita mánaðanna ársins í fyrra, 2014, sem endaði sem hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Að vísu með minnsta mögulega mun. Fjólubláu súlurnar sýna síðan þá mánuði sem liðnir eru af árinu 2015. Á súlunum fjórum lengst til hægri er árshitinn tekinn saman. Tónuðu súlurnar þar segja svo til um hvert gæti stefnt með árshitann eftir því hvort restin af árinu verður í samræmi við meðalhita sl. 10 ára eða í samræmi við metárið í fyrra. Tekið skal fram að tölurnar eru ekki eiginlegur meðalhiti, heldur frávik frá meðaltali eins og venjan er þegar rýnt er í hnattrænan hita. Nánari bollaleggingar eru undir mynd.

Hnattrænn mánaðarhiti - 3/12

Eins og sjá má þá byrjar árið mjög hlýtt á heimsvísu, hvort sem borið er saman við sl. 10 ár eða 2014. Reyndar er þetta heitasta byrjun á ári frá upphafi mælinga eins og komið hefur fram í fréttum. Enginn þessara þriggja mánaða eru þó út af fyrir sig þeir hlýjustu frá upphafi samkvæmt NASA-GISS. Janúar og febrúar eru hvor fyrir sig í öðru sæti og mars í því þriðja en það breytir því þó ekki að samanlagt eru þessir þrír mánuðir þeir hlýjustu frá upphafi.

Framhaldið verður forvitnilegt. Það þykir nefnilega nokkuð líklegt að árið 2015 verði það hlýjasta á jörðinni frá upphafi mælinga hvort sem mönnum líkar betur eða verr. El-Nino ástand er í burðarliðnum í Kyrrahafinu og má því frekar búast við að bæti í hlýindin frekar en að þau gangi til baka á árinu. Ég er þó hógvær í spádómum í súlunum lengst til hægri. Með því að reikna framhald ársins út frá meðaltali síðustu 10 ára fæst árshitinn +0,65°C sem mér sýnist gefa 3-4. sæti fyrir hlýjasta árið. Verði meðalhiti það sem eftir er jafnhár árinu í fyrra fer meðalhitinn hinsvegar upp í 0,72°C sem væri afgerandi hlýjasta árið á heimsvísu.

Sjáum þó til. Ég stefni auðvitað á uppfærslu síðar og svo mun ég einnig líta mér nær og taka fyrir Reykjavíkurhitann með sama hætti við tækifæri þótt ekki stefni í metár hér hjá okkur eins og er.

Gagnaröð NASA-Giss má sjá hér: http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Skemmtileg framsetning að venju :)

Höskuldur Búi Jónsson, 18.4.2015 kl. 00:29

2 identicon

"Tölurnar sem unnið er eftir eru frá Nasa-Giss..."

Tilgátuvísindin eru nefnilega svo skemmtileg!

Þjóðin bíður spennt eftir UAH og RSS súluritunum þínum ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 12:16

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er enginn vafi á því að það er mjög hlýtt á jörðinni um þessar mundir. Ég gæti svo sem notað tölur frá Bandarísku Veðurstofunni NOAA sem kemst að svipaðri niðurstöðu en er reyndar með marsmánuð í 1. sæti en ekki 3. sæti eins og Nasa-Giss.

Gervitunglamælingar UAH og RSS mæla ekki yfirborðshita jarðar eins og þú veist heldur hita lofthjúps, sem er svo sem merkilegt út af fyrir sig en er ekki sami hlutur.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.4.2015 kl. 15:27

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er heldur óvarlegt af Hilmari að ætla að reiða sig á að UAH og RSS muni sýna minni hlýnun - það er nefnilega alþekkt að þau sýna ansi myndarlegan topp á El Nino árum, eins og stefnir í núna.

Höskuldur Búi Jónsson, 18.4.2015 kl. 18:43

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Einmitt. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvort slíkt gerist á næstunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.4.2015 kl. 20:39

6 identicon

Sjálfsagt að aðstoða þig við gagnaöflunina Emil Hannes:

UAH

https://notalotofpeopleknowthat.files.wordpress.com/2015/04/image83.png

http://vortex.nsstc.uah.edu/data/msu/t2lt/uahncdc_lt_5.6.txt

jan - mars 2015 samkvæmt UAH í fjórða sæti!

RSS

https://notalotofpeopleknowthat.files.wordpress.com/2015/04/image84.png

http://data.remss.com/msu/monthly_time_series/RSS_Monthly_MSU_AMSU_Channel_TLT_Anomalies_Land_and_Ocean_v03_3.txt

jan - mars 2015 samkvæmt RSS í áttunda sæti!

Þið félagar haldið því auðvitað fram að Gavin Schmidt, GISS/NASA spámaður, sé áreiðanlegri og hlutlausari heimild en gervihnattamælingar :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 21:03

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Varðandi áreiðanleika gervitunglagagna er ágætt að kynna sér þetta frá Dr. Roy Spencer hjá UAH:

"in the last 10 years or so the RSS temperatures have been cooling relative to the UAH temperatures (or UAH warming relative to RSS ... same thing). The discrepancy is pretty substantial...;since 1998, the divergence is over 50% of the long-term temperature trends seen in both datasets."

og í framhaldinu þetta:

"my UAH cohort and boss John Christy, who does the detailed matching between satellites, is pretty convinced that the RSS data is undergoing spurious cooling because RSS is still using the old NOAA-15 satellite which has a decaying orbit, to which they are then applying a diurnal cycle drift correction based upon a climate model, which does not quite match reality. We have not used NOAA-15 for trend information in years ... ;we use the NASA Aqua AMSU, since that satellite carries extra fuel to maintain a precise orbit"

http://www.drroyspencer.com/2011/07/on-the-divergence-between-the-uah-and-rss-global-temperature-records/

Sem sagt, annaðhvort er RSS eða UAH í ruglinu. Spurning hvort. Þeir hjá UAH telja auðvitað að þeirra gögn séu réttari. RSS eru með gamlan gervihnött sem getur ekki haldið sér á réttri braut og þurfa þeir því leiðrétta sín gögn út frá loftslagsmódelum sem standast ekki raunveruleikann. Annað en þeir hjá UAH sem eru með aukaeldsneytistank á NASA-græjunni sinni til að halda sér á braut. Hef ekki séð skýringar RSS. Einfalt og áreiðanlegt? Mér sýnist ekki.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.4.2015 kl. 23:28

8 identicon

Þetta er brosleg söguskýring Emil og þú veist það sjálfur :)

Ert þú virkilega að halda því fram að GISS/Gavin Schmidt yfirborðshitamælingaklúðrið sé nákvæmari mæliaðferð en UAH/RSS?

Engin mæliaðferð er óskeikul, en gervihnattamælingar sem mæla upp á fermetra (að undanskildum heimskautum) hljóta að teljast ólíkt nákvæmari nálgun en föndrið hjá Gavin Schmidt sem námundar fleiri hundruð km svæði og skáldar í heilu heimsálfurnar - að maður minnist nú ekki á úthöfin.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.4.2015 kl. 08:39

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er í fyrsta lagi ekki söguskýring. Ég var þarna að vitna í það sem þeir segja sjálfir hjá UAH.

Við getum verið sammála því að engin mæliaðferð er óskeikul. Ég trúi því að allir aðilar hafi það markmið að fá sem réttustu mynd af hita jarðar hverju sinni. Mismunur ætti þó frekar að stafa af mismunandi aðferðarfræði heldur en vafasömum ásetningi.

Ég hef annars heilmikla trú á gervitunglamælingum. EN þær mæla þó ekki það sama. Lofthjúpur er ekki það sama og yfirborð og því fæst önnur niðurstaða fyrir einstaka mánuði. Sterkir El-Nino mánuðir mælast t.d. greinilega hlýrri í gervitunglamælingum. Ég hef þó meiri trú á UAH sem kenndur er við Alabama háskóla þótt menn þar séu í flokki efasemdamanna. Það að mars skuli vera í 4. sæti hjá UAH en í 8. sæti hjá RSS segir líka sína sögu og er í samræmi við það sem ég nefndi hér áður.

Það er líka forvitnilegt að skoða leitnina frá 1979 hjá öllum aðilum en hún er tekin saman í myndinni hér að neðan. Þótt ekki sé samræmi milli einstaka mánaða þá er leitnin mjög svipuð, nema helst hjá RSS sýnir minni hlýnun en hjá öðrum enda er vinsælt hjá efasemdamönnum að vitna í RSS til að sína fram á lítla hlýnun, eða eins og Roy spencer segir: "But, until the discrepancy is resolved to everyone’s satisfaction, those of you who REALLY REALLY need the global temperature record to show as little warming as possible might want to consider jumping ship, and switch from the UAH to RSS dataset."

http://emilhannes.blog.is/users/03/emilhannes/img/08-comparison-starting-1979.png

Emil Hannes Valgeirsson, 19.4.2015 kl. 11:28

10 identicon

Skil ég þig rétt Emil? Ertu virkilega að halda því fram að hnatthlýnunin skelfilega sé ekki nema rúmar 0,4°C á tímabilinu 1979 - 2015?

Eigum við þá ekki líka að svipta hulunni af "kyrrstöðunni" í hinni ógurlegu hnatthlýnun á síðustu rúmlega 18 árum?

Má kannski ekki birta samsvarandi línurit af leitninni 1998 - 2015 ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.4.2015 kl. 11:57

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég er ekki að halda neinu fram sjálfur en hnatthlýnunin er 0,4-0,5 °C frá 1979. Mismikil eftir áratugum.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.4.2015 kl. 13:02

12 identicon

Reyndar er meint hnatthlýnun ekki nema 0,3°C frá því snemma á níunda áratug síðustu aldar fram á þennan dag samkvæmt nýlegri vísindaskýrslu, "Volcanic contribution to decadal changes in tropospheric temperature."

http://www.nature.com/ngeo/journal/v7/n3/full/ngeo2098.html

Þar leitast höfundar við að sýna fram á raunverulega meðalaukningu hnatthita á tímabilinu 1979 til 2014 þegar búið er að útiloka áhrif ENSO og eldgosa í El Chichon og Pinatubo 1982 og 1991.

Spurningin er svo hvað mörg % af þessum 0,3°C eru af manna völdum, en það veist þú nú ábyggilega Emil ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.4.2015 kl. 13:32

13 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ein spurning til Hilmars: Ef svo færi að UAH og RSS myndu setja met í hnattrænum hita í ár - myndirðu loks viðurkenna að jörðin væri að hlýna?

Höskuldur Búi Jónsson, 19.4.2015 kl. 16:57

14 identicon

Tilgátuvísindin eru bara ekki fyrir mig Höskuldur Búi, eins og ég hélt reyndar að þú vissir.

Hins vegar er staðreynd að það er að kólna á Íslandi, fyrsti vetrardagur rennur upp 23. apríl ;)

Þá verður nú þægilegt að orna sér við arineld og spinna GISS-lopann.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.4.2015 kl. 22:17

15 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Þú rembist við að nota þessi hitagögn lofthjúpsins til að sýna fram á að það sé ekki að hlýna. Fyrst gögnin eru nothæf til þess - að þínu mati, þá hljóta þau að sýna greinilega hlýnun ef það fellur árshitamet (þ.e. að þínu mati).

Flott hjá þér síðan að nota sveiflu í veðri á Íslandi sem rök fyrir kólnun ;)

Höskuldur Búi Jónsson, 19.4.2015 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband