Moska eða listaverk?

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum manna við framlagi Íslands til Feneyjartvíæringsins að þessu sinni. Ég vil þó ekki bendla neinn við fíflaskap þótt aðrir hafa gert það, en hér á moggablogginu voru óneytanlega ýmsir stórorðir, einkum þá ýmsir eldri íhaldssamir karlar sem vissu varla hvert þeir ætluðu í vandlætingu sinni yfir þeirri ósvinnu, að þeirra mati, að setja upp mosku í kaþólskri kirkju í nafni Íslands. Gott ef ekki var kallað eftir afsögn menntamálaráðherra vegna þessarar "vitleysu".

Jú. Vissulega getur þetta verk talist ögrandi á vissan hátt í ljósi allrar þeirrar togstreytu sem ríkt hefur milli hins múslímska og vestræna heims undanfarin ár. Það er ekkert nýtt að listin ögri á einhvern hátt en það þarf þó ekkert að vera aðalatriðið í þessu. Í stað ögrunar má miklu frekar líta á þetta verk sem einskonar samkomulag í nafni friðar. Séu menn á annað borð tilbúnir til þess, sem kannski er ekkert víst. Í stað þess að hæðast, skopast eða að gera lítið úr þeim sem eru okkur framandi er þeim boðið í "okkar" tilbeiðsluhús en í leiðinni gefst þeim gestum sem ekki eru múslímar og hafa aldrei í mosku komið, tækifæri til að kynnast framandi tilbeiðslusiðum - sem ég get ekki séð að sé hættulegt, nema ég sé alveg staurblindur. Heimboðið er þó kannski ekki alveg í nafni Feneyjarborgar sem vilja helst setja einhverjar furðulegar reglur um að gestir í sýningarskála Íslands séu ekki of múslimalegir.

Hvað sem hægt er að segja um trúarbrögð nú til dags þá held ég að tilbeiðsla til æðri máttarvalda sé eitt af þeim atriðum sem einkennir mennska tilveru og jafnvel eitt af stóru atriðunum sem aðgreindi manninn frá dýrum á sínum tíma. Í þann flokk má líka bæta listinni sjálfri enda hafa þessi tvö atriði lengi verið samofin í menningunni. Hver menningarheimur hefur svo komið sér saman um sína heimsmynd, sinn skilning eða misskilning og sínar tilbeiðsluaðferðir og serimóníur í sambandi við þær. Hinsvegar hefur oft kárnað gamanið þegar ólíkir menningarheimar mætast því þá vaknar upp óttinn við að framandi hópar séu að þröngva sinni menningu yfir okkar og hefur það vissulega verið upptök margra átaka og sér jafnvel ekki fyrir endann á. Í slíku ástandi er oft stutt í öfgahyggju af trúarlegum eða þjóðernislegum toga.

Það er staðreynd að fjöldi þjóða játar múslímska trú rétt eins og margir játa kristni og því verður ekki breytt. Það er líka staðreynd að fjöldi múslima býr í Evrópu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Megnið af því fólki vill þó iðka sína trú í friði án þess að vera bendlað við það að vilja ganga milli bols og höfuðs á þeim sem ekki játa íslam. Moskur eru notaðar í tilbeiðsluskini rétt eins og okkar kirkjur. Uppsetningin er þó önnur og siðirnir, og verða það áfram. Hvað varðar framlag okkar til Feneyjartvíæringsins þá sver það sig í ætt við góða nútímamyndlist sem snýst ekki síst um að stilla upp hlutum á óvæntan hátt og skapa nýtt samhengi. Þar hefur okkur tekist vel upp að þessu sinni, með aðstoð listamannsins og nýbúans Christoph Büchel. Útkoman er sterkt listaverk - og þar sem það er listaverk er það í raun hvorki moska né kirkja, ef það huggar einhvern.

Feneyjamoska


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Frábært listaverk.

Eitt hið besta sem frá Íslandi hefur komið í langan tíma.

Snillingur hann Buchel.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.5.2015 kl. 19:11

2 identicon

Sko. Án þess að tala nokkuð fíflaskap eða afsögn þá veit ég að margir íslenskir listamenn eru sárir yfir að teljast ekki nógu góðir til verksins. Með tilvísan í ummæli sem ákafur og sólbakaður Goddur hafði um þetta á Djöflaeyjunni á RÚV. 

Feneyjatvíæringurinn fær úthlutaðar 24 milljónir til verksins. Þetta verk er komið langt fram úr því. 80 milljónir eru nærri lagi. Er það réttlætanlegt? T.d. gæti víst örugglega þegið mismuninn til bráðnauðsynlegra tækjakaupa.

Eða er nóg að Goddur, Ómar Bjarki og formaður félags múslima á Íslandi séu hamingjusamir? 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 20:08

3 identicon

Leiðr: T.d. gæti víst LANDSPÍTALINN örugglega þegið mismuninn til bráðnauðslynlegra tækjakaupa.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 20:10

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég get tekið undir að ummæli Godds um Íslenska myndlistamenn voru ekki heppileg. Spurning hvort þeir sem taldir eru vanhæfir séu tilbúnir að taka þátt í svona sýningum í framtíðinni sé óskað eftir því. En kannski hefur hann að einhverju leyti rétt fyrir sér. Ég ætla ekki að meta það.

En þetta með kostnaðinn, þá er aldrei hægt að segja fyrirfram hvenær eða hvernig fjárframlög til listviðburða skila sér til baka. Sumt getur skilað sér margfalt til baka og annað alls ekki. Ávinningur getur þó verið með ýmsu móti og ekki endilega fjárhagslegur. Sumt er gulls ígildi þótt ekki sé það úr gulli.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.5.2015 kl. 22:16

5 identicon

Mér sýnist umræðan um þetta ágæta listaverk alveg leiða þaðí ljós að þetta verk er afskaplega sterkt og gott. Gerir einmitt þaðem gott listaverk á að gera. Kostnaður - það má alltaf deila um hann. illugi á ekki að segja af sér út af þessu.

Bjarki (IP-tala skráð) 15.5.2015 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband